[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinkonurnar Kristín Ásta Matthíasdóttir og Oddný Jóna Bárðardóttir opnuðu fyrir skömmu verslunina Dótturfélagið á Laugaveginum. Þar fást töff föt fyrir stelpur á öllum aldri.

Útlendingum finnst ótrúlega merkilegt hvernig allar konur eru „dóttir“ á Íslandi, og það er alveg séríslenskt fyrirbæri. Okkur fannst áhugavert að velta þessu fyrir okkur þegar við vorum að finna rétta nafnið og svo kom þetta nafn bara, Dótturfélagið,“ útskýrir Oddný þegar sérstakt nafn búðarinnar ber á góma. „Okkur langaði alltaf að hafa þetta með, einhvern veginn.“

Leiðarljós og einkenni

Hugmyndin á bak við fötin í Dótturfélaginu er öðrum þræði sú að blanda saman fötum sem fólk myndi alla jafna ekki blanda saman. Hversdags í bland við fínt. „Við leggjum upp með það að allt sem er í búðinni sé hægt að nota sem hvort tveggja,“ bendir Kristín á. „Við erum ekki í þeirri hugsun að fólk kaupi föt fyrir eitthvert eitt sérstakt tilefni. Við ætlum að hafa búðina þannig að fólk geti keypt flík og notað hana jafnt á mánudegi sem og laugardegi.“ Innkaupin miðast sumsé við að það sem þú færð í Dótturfélaginu sé hægt að dressa upp og dressa niður, allt eftir tilefninu, stund og stað. Fötin eiga einfaldlega alltaf við. En verður eitthvað einhvern tímann fyrir stráka í Dótturfélaginu? „Mögulega eitthvað unisex,“ segir Oddný. „Hlutir eins og einstaka jakkar og annað sem kemur í það stórum stærðum að strákar geta vel notað flíkurnar.“ Þess má geta að í sumar verður einnig hægt að fá föt á litlu dömurnar, svo dæturnar geti klætt sig upp á líka. „Það verður svona skólabúnings-yfirbragð á þeim flíkum, svona ekta bresk skólaföt,“ skýtur Kristín Ásta inn í.

Kjólar og mótorhjólajakkar

Meðal vinsælustu flíka verslunarinnar frá opnun eru töffaralegir leðurjakkar í mótorhjólastíl. „Biker-jakkarnir hafa alveg slegið í gegn, enda ekta leðurjakkar á sanngjörnu verði. jakkarnir eru jafnflottir við buxur sem og kjóla með sumarlegu mynstri.“ Stöllurnar taka enga áhættu í innkaupaferðum heldur máta þær hverja einustu flík til að vita upp á hár hvernig sniðið liggur á líkamanum. „Við stýrum innkaupunum þannig að það sem við tökum inn eru föt sem við myndum vilja klæðast, í litum og sniðum sem okkur líkar við. Það skiptir ótrúlega miklu máli að máta allt og við látum okkur hafa það, jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir því með sérstakri mátunaraðstöðu þar sem við sinnum innkaupunum. Það getur verið bras en við mátum þetta allt, samt sem áður.“ Kristín bætir því við að meiningin sé að búðin höfði til stórs markhóps, en ekki bara til ungra kvenna. „Við viljum höfða til mismunandi týpa á mismunandi aldri. Hingað koma líka af og til mæðgur, sem máta og kaupa sömu fötin. Eða kaupa jafnvel jakka og skiptast á að nota hann. Það finnst okkur skemmtilegt og þannig viljum við halda þessu.“ Í framhaldinu nefna þær stöllur að þær séu með tískublogg í bígerð. „Þar munum við gefa góðar hugmyndir að því hvernig hægt er að nota flíkurnar á mismunandi vegu. Með þessu móti komum við til móts við kúnnann og kynnumst honum um leið.“

Kristín Ásta og Oddný Jóna eru sammála um það hvaða búðir eru helst í uppáhaldi erlendis. Það eru Urban Outfitters og American Apparel. „Það sem gerir til dæmis American Apparel svo flott merki er að þar er alltaf hægt að fá ákveðna hluti, þar eru einhver ítem sem maður getur alltaf gengið að sem vísum. Það er hugsun sem okkur langar að heimfæra á Dótturfélagið – að ákveðnir hlutir sem eru í uppáhaldi séu alltaf fáanlegir í bland við breytilegt úrval. Ef við gætum alltaf verið með ákveðnar hettupeysur til dæmis og annað flott, væri það frábært. Leðurjakkinn sem við nefndum áðan er reyndar orðinn hálfgerð einkennisflík hjá okkur. Hann gekk svo einstaklega vel.“

Í bland við tískufatnað eru þær Oddný og Kristín með úrval af ýmiss konar sniðugri smávöru, ásamt skarti og sólgleraugum. Þar er einnig að finna gjafavöru frá EPAL. „Við sjáum úrvalið svolítið fyrir okkur í anda Urban Outfitters, að vera með flotta gjafavöru í bland við flott föt.“

jonagnar@mbl.is