Albert Jensen
Albert Jensen
Frá Albert Jensen: "Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Þau eru mörg árin síðan þú varst ung kona og enn fleiri síðan ég var ungur karl. Á þeim árum voru við í Alþýðuflokknum og urðum góðir vinir. Vináttan varði lengi, eða framundir áttræðisaldurinn minn."

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Þau eru mörg árin síðan þú varst ung kona og enn fleiri síðan ég var ungur karl.

Á þeim árum voru við í Alþýðuflokknum og urðum góðir vinir. Vináttan varði lengi, eða framundir áttræðisaldurinn minn. Þá komst tík, sem kölluð er pólitík, upp á milli okkar og breytti vináttunni í fjarlægan kunningsskap. Áður gátum við talað saman hvenær sem var, en nú á ein af vísum Vatnsenda-Rósu betur við um samskipti okkar. Vonandi er hún rétt með farin.

Man ég okkar fyrri fund

forn þó ástin réni.

Nú er eins og hundur hund

hitti á tófugreni.

Stjórnmálamenn halda að þeir þurfi að stikla til að komast áfram. Verði að gæta þess að vera foringjanum sammála og bæla niður eigin skoðanir. Það er rangt án alls vafa. Svo snarvitlaus afstaða virkar þveröfugt. Menn verða gagnslausir öðrum en foringjanum, sem nýtir þá eins og skákmeistari peðin sín. Þeir verða einhvern veginn ekki neitt. Sviplaus andlit í sölum Alþingis. Það er þó betra en að skaða þá sem varnarlausastir eru, eins og Björk Vilhelmsdóttir ætlar sér. Af stefnu hennar í málum fatlaðra að dæma má halda að henni sé illa við fatlað fólk. Svo tel ég ekki vera. Henni er bara sama um það og hvernig því líður. Það sést best á því að hún kom að eigin frumkvæði með tillögu í borgarráði að leggja niður Ferðaþjónustu fatlaðra í RVK og bjóða hana út. Tillagan var samþykkt enda borgarstjórinn utangátta, að eigin sögn, og Dagur B. Eggertsson meira fyrir dauða hluti en lifandi fólk. Velvild er engin í tillögunni, enda eiga velvild og vonska ekki samleið.

Tillagan er gróf aðför að hagsmunum fatlaðra. Það hefur tekið mörg ár að laga bílana að þörfum farþeganna. Sæti voru færð til án þess að skerða fjölda þeirra. Það var gert til þess að fólk væri sem fremst í bílunum og sjaldnast yfir hásingu eða með bakið við afturhurð, eins og er í leigubílunum. Ekki má gleyma bílstjórunum sem eru þrautþjálfaðir og þægilegir. Þeir sem bjóða í svona rekstur ætla að græða og eiga auðvelt með að fegra þjónustuna í augum þeirra sem eru búnir að ákveða að taka boðinu þó að það sé gegn betri vitund.

Það eru mikil öfugmæli að nefna stofnun þá sem Björk fer fyrir, velferðaráð. Auðnuleysisráð, væri nær lagi. Það er meira illt en gott í manneskju sem leggur sig í líma við að gera vont líf lamaðs fólks, verra en það er. Ég skora á Björk, í ljósi þess að það sé ofraun núverandi borgarstjóra, að fara að alþjóðalögum um rétt fatlaðra, að koma með tillögu um að illa fatlað fólk fái varanlega svefnsprautu eins lög eru fyrir í Hollandi. Auðvitað eftir vilja hvers og eins. Þetta er ekki sagt út í bláinn.

Fyrirmynd Bjarkar er Ferðaþjónusta Kópavogs sem þekkt er fyrir slæma þjónustu. Þar er fólki smalað saman eins og hægt er að troða í bílana og dreift svo eftir hentugleikum. Nú er svo komið að þegar stjórnmálamenn ber á góma, rifjast upp orð snillingsins NN: „Stjórnmálamenn eru eins og bleiur. Það þarfa að skipta um þá reglulega og af sömu ástæðu.“

En hvað sem öllu þessu líður eru kosningar á næsta leiti. Eftir þær verður Jón Gnarr, núverandi borgarstjóri, bara óþægileg minning sem fyrnist vonandi fljótt. Fyrisjáanlegt er að Samfylkingin mun missa meirihluta sinn. Þrátt fyrir þessi skrif ætla ég að reyna að fá fund með Jóhönnu. Læt svo Guð og lukkuna um hvernig fer.

ALBERT JENSEN

trésmiður.

Frá Albert Jensen