Guðrún Jónína Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 2. maí 2012.

Ein af meginstoðum alþýðufræðslunnar á Íslandi er fallin frá. Guðrún Halldórs var lengi miðdepill Námsflokka Reykjavíkur og í kringum hana safnaðist hirð ágætra manna – og kvenna sem höfðu einlægan áhuga á að fræða, starfa að þróun fjölmenningar og almennrar umgengni og skilningi. Guðrún hafði alltaf tíma til að hlusta og fann ávallt einhverja smugu til að hjálpa. Hún hvatti alla áfram að reyna, til að spreyta sig á kennzlu eða að fara á námskeið. Íslenzkunámskeið fyrir útlendinga blómstruðu og alls kyns hugmyndir góðar, galnar og einlægar fengu að njóta sín. Það eru margir sem geta skrifað meir og betur um Guðrúnu en ég en ég vil þakka fyrir ýmis tækifæri sem hún gaf mér innan Námsflokkanna og einnig þakka ég fyrir að hafa fengið að kynnast vel því einstaka andrúmslofti sem sveiflaðist á milli skipulagðs kaós og eðlilegs skipulags í námunda við hina góðu konu. Á skrifborði Guðrúnar kenndi margra grasa. Það þekkja þeir sem sátu við það í spjalli við hana. Ég er nú ekki alveg viss um að Guðrún hafi nákvæmlega vitað hvað á skrifborðinu var, sérstaklega, en það kom ekki að sök. Guðrún hafði frá mörgu að segja og hún kom einnig við á vettvangi stjórnmálanna og kynntist einnig vinnulagi Alþingis. Ég hef átt nokkrar stoðir í lífi mínu sem betur fer af svipuðum toga og Guðrún og veit ég hversu verðmætar slíkar eru og vildi ég að fleiri ungmenni í dag myndu gefa sér tíma til að umgangast og sýna eldri kynslóðinni virðingu og læra af henni. Guðrún var einstök og hennar starfsfólk fórnfúst og jákvætt. Það er mikil eftirsjá að Guðrúnu en hennar lífsstarf og einlægni liggur eftir í minningunni til vitnis. Sendi öllum hennar ástvinum og vinum samúðarkveðjur og góðar óskir.

Friðrik Á. Brekkan.