Gunnlaugur Snær Ólafsson
Gunnlaugur Snær Ólafsson
Eftir Gunnlaug Snæ Ólafsson: "Árlegur brottflutningur hafði aldrei mælst meiri í sögu landsins en eftir að Hinds sat í ríkisstjórn landsins og dollarinn var tekinn upp"

Í lok apríl á þessu ári kom hingað til lands Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, til þess að ræða kosti einhliða upptöku erlends gjaldmiðils. Herra Hinds fór yfir það vítt og breitt með hvaða hætti væri hægt að framkvæma einhliða upptöku og meinta galla við það að viðhalda sjálfstæðum gjaldmiðli. En hvað vitum við raunverulega um reynslu El Salvador í þessum efnum? Það þarf ekki mikla vinnu við að afla sér upplýsinga á netinu um efnahagsmál erlendis og þar er hægt að kynna sér reynslu El Salvador af því að taka einhliða upp bandaríkjadal.

Þegar talað er um upptöku erlends gjaldmiðils eða aðild að myntbandalagi er gríðarlega mikilvægt að fara yfir stöðu og reynslu þeirra sem áður hafa farið í slíka framkvæmd en ekki einblína á kosti nýjungarinnar og galla eldra fyrirkomulags. Hagvöxtur í El Salvador 1997-2000 var að meðaltali um 3,8%, en eftir einhliða upptöku dollars 2001 féll hagvöxtur hratt niður í 2% að meðaltali og hefur hagvöxtur almennt mælst lítill síðan.

Gjaldmiðillinn ekki forsenda

Erlend fjárfesting í landinu jókst ört eftir upptöku dollarans en rekja má þá auknu fjárfestingu fyrst og fremst til undirritunar samnings við Bandaríkin um efnahagsþróun (CBI) árið 2002 sem og til aðildar El Salvador að fríverslunarsamtökum Mið-Ameríkuríkja (CAFTA) árið 2004. Gjaldmiðillinn var ekki forsenda þess að landið gæti gengið í samtökin eða gert efnahagsþróunarsamning við Bandaríkin enda eru önnur ríki aðilar að þessum samningum sem hafa eigin gjaldmiðil. En þrátt fyrir aukna erlenda fjárfestingu minnkaði hagvöxtur engu að síður.

Ennfremur meira en tvöfölduðust ríkisskuldir El Salvador árin 2001-2005. Skuldirnar fóru úr 3,5 milljörðum dollara í 8 milljarða. Ástæðan var sú að ekki var hægt að lækka stýrivexti til þess að koma til móts við þarfir neytenda og atvinnulífsins einfaldlega vegna þess að innlent vald til þess var ekki lengur til staðar. Afleiðingin af þessu var sú að ríkið taldi nauðsynlegt að auka útgjöld sín gríðarlega til þess að mæta efnahagsástandinu í landinu á þessum tíma.

Verðbólga og brottflutningur

Verðbólga jókst sömuleiðis þegar bandaríkjadalur var tekinn upp einhliða í El Salvador sem var afleiðing þess að dollarinn var sterkari en hið gamla cólon. Fyrir vikið var verð hækkað upp í næsta cent (e. „rounding up“ inflation). Þetta olli gífurlegri lífskjaraskerðingu í landinu og þá sérstaklega fyrir þá fátækustu, enda var árlegur nettó brottflutningur frá landinu á þessum tíma á bilinu 350-400 þúsund manns en í landinu búa um 6,2 milljónir.

Útflutningur El Salvador hefur dregist aftur úr samkeppni á heimsmarkaðnum og er það afleiðing þess að dollarinn almennt er of sterkur gjaldmiðill fyrir svona veikt efnahagskerfi. Þá hafa Kínverjar betri samkeppnisstöðu hvað varðar framleiddar iðnaðarvörur og hafa tækifæri til útflutnings til Bandaríkjana og annarra þróaðra hagkerfa tapast fyrir vikið. Þó hefur eitthvað sparast með því að kostnaður við gjaldmiðlaskipti hefur horfið, en það hefur aðallega verið bundið við hrávöruviðskipti.

Aukin útgjöld og hærri skuldir

El Salvador er gott skólabókardæmi um að mismunandi gjaldmiðlar þurfa að vera á mismunandi efnahagssvæðum. Öll þessi fyrrnefndu atriði eiga einmitt við um evrusvæðið líka og útskýra einmitt af hverju ástandið er eins slæmt víðs vegar í Evrópusambandinu og raun ber vitni. Þegar ríki tóku upp evruna gátu þau ekki lengur lækkað stýrivexti til þess að stuðla að kaupmáttaraukningu og hagvexti. Afleiðing varð því sú að ríkin juku útgjöld sín og þar með skuldir sínar.

Vissulega hafa einhverjar umbætur orðið á lífskjörum í El Salvador í kjölfar upptöku bandaríkjadals en það verður þó einkum rakið til starfsemi erlendra hjálparstofnana og þróunaraðstoðar, einkum frá Bandaríkjunum. Þá hefur atvinnuleysið ekki hækkað mikið þrátt fyrir lágan hagvöxt sem aftur þarf kannski ekki að koma á óvart þar sem árlegur brottflutningur hafði aldrei mælst hærri í sögu landsins en eftir að Hinds sat í ríkisstjórn landsins og dollarinn var tekinn upp sem gjaldmiðill þess.

Gerum ekki sömu mistökin

Eins og áður segir hefur Manuel Hinds starfað sem stjórnmálamaður og verður að telja ólíklegt að hann komi hingað til lands til þess að draga í efa ágæti eigin ákvarðana á sínum tíma. En hitt er ljóst að einhliða upptaka bandaríkjadals í El Salvador hefur reynst landinu illa. Fyrirkomulag gjaldmiðlamála hér á landi er mikilvægt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar og við megum ekki láta draumóra eða óskhyggju verða þess valdandi að við gerum sömu mistök og önnur ríki, hvort sem það er El Salvador eða evruríkin.

Höfundur er formaður Félags íhaldsmanna.