Samfylkingin hefur löngum lifað fyrir skoðanakannanir. Skyldi hún geta dáið fyrir þær líka?

Skoðanakannanir segja ekki alla sögu og falli þær ekki í kramið er eðlilegt að benda á annmarka þeirra, hversu margir séu óákveðnir og fleira þess háttar. Kannanir um fylgi flokka eiga þó orðið drjúga sögu hér á landi. Þekkt eru dæmi um að flokkar, einkum nýsprottnir, fái mikið fylgi í einstökum könnunum, sem ekki skilar sér endilega á kjördag.

Alþýðuflokkurinn heitinn hoppaði upp í rúm 30 prósent í einni slíkri með tilheyrandi gleði þáverandi leiðtoga og sama henti Kvennalistann. Lítið kom þó úr kjörkössunum. Þjóðvaki, Bandalag jafnaðarmanna og Borgaraflokkur eiga slíka sögu líka. Hinir hefðbundnari flokkar lúta einnig sínum lögmálum. Þannig sýnir reynslan að Sjálfstæðisflokkurinn mælist oft mun betur í könnunum en kosningum, en Framsóknarflokkurinn virðist oftar eiga inni nokkurt fylgi á kjördag sem ekki skilaði sér til fulls í könnunum.

Ýmsar skýringar hafa verið gefnar á þessu. En þótt slíkir annmarkar séu þekktir dregur það ekki úr áhuga á skoðanakönnunum né úr gildi þeirra. Nokkrar kannanir á afmörkuðu tímabili, gerðar af ólíkum aðilum og með ólíkum aðferðum, sem benda flestar til sömu áttar, fara örugglega mjög nærri sannleika þess tímabils. Kosningaúrslit, svo sem ári síðar, þurfa þó ekki að verða í fullu samræmi við þessar kannanir. Margt getur breyst sem hreyfir við fólki og hefur áhrif á endanlega afstöðu þess.

Nær allar skoðanakannanir síðustu misserin hafa sýnt að ríkisstjórnarflokkarnir eiga ekki upp á pallborðið hjá kjósendum. Samfylkingin, sem varð stærsti þingflokkurinn eftir síðustu kosningar, mælist í nýjustu könnun með minna en þriðjunginn af því fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn fær. Jafnvel þótt horft sé til allra þeirra fyrirvara sem áður voru nefndir hlýtur þetta að vera meiriháttar áfall fyrir þennan flokk. Sérstaklega þar sem þessi könnun er í samræmi við þróun síðustu missera, þótt hún sé sýnu verst.

Eftir stofnun Samfylkingar töluðu forystumenn flokksins um að nú væru „turnarnir tveir“ komnir til sögunnar í íslenskum stjórnmálum. Ef marka má þessa nýjustu könnun er annar turninn orðinn að óásjálegri grjóthrúgu og mælist með fylgi sem jafnvel gamli Alþýðuflokkurinn hefði ekki endilega verið ánægður með.

En hvernig mátti annað gerast? Samfylkingin, alþekktur dekurflokkur útrásarliðsins sem verst fór með Ísland, hljóp úr ríkisstjórn eins og fætur toguðu eftir bankafallið og skildi alla ábyrgð eftir hjá hinum stjórnarflokknum. Hafnar voru ofsóknir á hendur forystumönnum hans og í framhaldinu þrengt að almenningi og atvinnulífi án þess að nokkrar heildstæðar lausnir væru kynntar á þeim vanda sem lofað hafði verið að leysa. Öllum úrræðum var vísað á aðild að ESB, sem yrði allra meina bót.

Þegar logarnir tóku að læsast um evruna svo varð að báli sýndu forsætisráðherra og utanríkisráðherra Samfylkingar að þeir voru fullkomlega úti að aka í alþjóðlegum efnum, ekkert síður en þeim sem snúa að íslenskum almenningi. Þeir fullyrtu að fréttir af evrunni væru góðar fréttir og sýndu eingöngu að „Evrópa væri dýnamísk“, hvað sem það átti að þýða. Og þau bættu því svo við að umbrotin á evrusvæðinu væru örugg merki um að aðild að ESB og evru væri upplagðari en nokkru sinni fyrr!

Þegar horft er til þess að helstu forystumenn Samfylkingar hafa sýnt sig að vera óhæfir til að leiða þjóð á erfiðum tímum hlýtur að teljast kraftaverk að fylgi flokksins skuli enn mælast í kringum 13%.