Réttarhöld Réttað í máli Breiviks.
Réttarhöld Réttað í máli Breiviks. — AFP
Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik drakk blöndu af örvandi efnum áður en hann varð 77 manns að bana í Ósló og Útey 22. júlí í fyrra, að sögn sérfræðings sem bar vitni í réttarhöldunum yfir Breivik í gær.

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik drakk blöndu af örvandi efnum áður en hann varð 77 manns að bana í Ósló og Útey 22. júlí í fyrra, að sögn sérfræðings sem bar vitni í réttarhöldunum yfir Breivik í gær.

Jørg Mørland, prófessor í eiturefnafræði, sagði að fjöldamorðinginn hefði drukkið blöndu af efedríni, lyfi sem örvar hjarta- og miðtaugakerfið, kaffíni og aspiríni.

Mørland kvaðst hafa spurt fjöldamorðingjann hvort hann hefði notað þessi efni og hann hefði játað því, sagst hafa drukkið um helmingi stærri skammta af efnunum en væru í drykkjum sem hægt væri að kaupa í verslunum.

Skýrt var frá því í gær að norskt fangelsi, þar sem Breivik gæti afplánað dóm fyrir fjöldamorðin, hygðist ráða til sín fólk sem fjöldamorðinginn gæti umgengist vegna þess að yfirvöld vilja ekki að hann hitti aðra fanga.

Verði Breivik dæmdur í fangelsi má hann ekki umgangast samfanga sína af ótta við að hann taki einhverja þeirra í gíslingu til að reyna að flýja, að því er Verdens Gang hefur eftir Knut Bjarkeid, fangelsisstjóri Ila-fangelsisins. Bjarkeid sagði að til að koma í veg fyrir að Breivik yrði alveg einangraður í fangelsinu yrði hægt að leyfa honum að stunda íþróttir með fangavörðum og ráða fólk til að umgangast hann, m.a. tefla við hann. Samkvæmt norskum lögum má fangi ekki vera algerlega einangraður í langan tíma þar sem slíkt flokkast undir ómannúðlega refsingu.