Atli Ævar Ingólfsson
Atli Ævar Ingólfsson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Línumennirnir Atli Ævar Ingólfsson úr HK og Orri Freyr Gíslason úr Val eru á leið í dönsku úrvalsdeildina í handknattleik, Atli til SönderjyskE og Orri til Viborg.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Línumennirnir Atli Ævar Ingólfsson úr HK og Orri Freyr Gíslason úr Val eru á leið í dönsku úrvalsdeildina í handknattleik, Atli til SönderjyskE og Orri til Viborg.

Atli Ævar gekk í gærkvöld frá eins árs samningi við SönderjyskE en þar verður Anton Rúnarsson meðal samherja hans því Anton er nýbúinn að semja við danska liðið.

„Ég var hjá þeim til reynslu í tvær vikur og líst geysilega vel á liðið, þjálfarann og staðinn. Svo heillar danska úrvalsdeildin sem er orðin geysilega sterk,“ sagði Atli við Morgunblaðið strax eftir undirritun samningsins.

Atli er annar leikmaðurinn sem Íslandsmeistarar HK missa í vikunni en Ólafur Bjarki Ragnarsson er búinn að semja við Emsdetten í Þýskalandi.

Orri er hins vegar ekki búinn að ganga frá sínum málum við Viborg en ef allt fer að óskum verður hann þar undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar næsta vetur. Óskar er tekinn við liði Viborg eftir að hafa þjálfað Val undanfarin ár.

„Þetta er ekki frágengið, það hefur ekki verið skrifað undir neitt ennþá,“ sagði Orri við Morgunblaðið en staðfesti að flest benti til þess að hann yrði leikmaður Viborg. „Það er óhætt að segja að ég þekki allavega þjálfarann. Ætli hann hafi ekki þjálfað mig meira og minna síðan ég var sjö ára gamall,“ sagði Orri Freyr.