[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Aldrei hafa fleiri flugfélög haldið úti ferðum til og frá Íslandi en í sumar en þau eru alls 17. Samkvæmt tölum frá Isavia fjölgar flugferðum frá landinu um 18 í fyrstu viku júnímánaðar á milli ára.

Fréttaskýring

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Aldrei hafa fleiri flugfélög haldið úti ferðum til og frá Íslandi en í sumar en þau eru alls 17. Samkvæmt tölum frá Isavia fjölgar flugferðum frá landinu um 18 í fyrstu viku júnímánaðar á milli ára. Í fyrra voru þær 231 frá 1.-7. júní en nú er áætluð að þær verði 249. Þá sé gert ráð fyrir um 15-18% fjölgun farþega.

Það hefur því verið ljóst um nokkurt skeið að samkeppni á flugmarkaði ætti eftir að harðna verulega í sumar og hefur þess sést merki í miðaverði undanfarnar vikur. Verðstríð hefur geisað á milli lágfargjaldaflugfélaganna Iceland Express og Wow-air. Félögin hafa boðið ferðir aðra leiðina til London og Kaupmannahafnar á allt niður í tæpar tíu þúsund krónur.

Verðkönnun ferðavefjarins Túrista.is leiðir í ljós að ódýrasta farið með Easyjet, sem flýgur í fyrsta skipti hingað til lands í sumar í júní, kosti næstum því tvöfalt meira en tilboðsferð íslensku lágfargjaldaflugfélaganna tveggja.

Vekur spurningar

Kristján Sigurjónsson, útgefandi Túrista.is, segir það vekja spurningar að Iceland Express og Wow-air auglýsi svo lág fargjöld rétt fyrir háannatímann.

„Maður hefði haldið að félögin þyrftu að selja sætin dýrar á sumrin sem eru háannatíminn en á veturna. Þess vegna kemur á óvart að verið sé að bjóða flugmiða tveimur dögum fyrir mánaðamót maí/júní á undir tíu þúsund krónur,“ segir hann.

Kristján segir erfitt að segja til um hvort það sé eftirspurn frá Íslendingum eða útlendingum sem ráði. Easyjet hafi þó gefið það út að helmingur farþega þeirra hefji ferðina á Íslandi. Ekki sé ólíklegt að þetta hlutfall sé hærra hjá Iceland Express og Wow-air sem hafi ekki sömu tækifæri til að kynna sig í Bretlandi og Evrópu.

„Eftirspurnin er líklega minni en reiknað var með því að félögin hefðu sennilega ekki lagt af stað með það í byrjun árs að selja flugmiða sumarsins á tíu þúsund krónur,“ segir Kristján.

Tilboðin dreifist á ferðir

Að sögn Heimis Más Péturssonar, upplýsingafulltrúa Iceland Express, hefur félagið þvert á móti selt betur í ár en í fyrra á Evrópuleiðum sínum. „Það hefur harðnað mjög samkeppnin, sérstaklega yfir sumartímann þegar sautján flugfélög fljúga hingað. Við höfum verið leiðandi í samkeppninnni um lágt verð á flugi til og frá Íslandi og ætlum okkur að halda þeirri stöðu okkar áfram,“ segir Heimir Már.

Hann segir að tilboðin séu á tilteknum sætum í tilteknum flugferðum og ekki sé verið að selja í heilu vélarnar á því verði.

„Þessi tilboðsverð dreifast á margar flugvélar og eru tiltölulega fá í hverri vél. Við erum með mjög vandaða tekjustýringu. Það verð sem við fáum í heildina fyrir okkar flugvélar er mjög gott og dugar til þess að skila fyrirtækinu eðlilegum arði,“ segir hann.

Raunhæft viðmið?

Björn Guðmundsson, markaðsstjóri hjá ferðaskrifstofunni Vita, segist ekki hafa séð eins blóðuga samkeppni á þessum markaði áður. Hann segir lægstu tilboðin ekki endurspegla kostnaðinn við flugferðirnar. Á einhverjum tímapunkti hljóti það að hætta að vera hagkvæmt að bjóða upp á svo mikið af tilboðum.

„Samkeppnin er hörð og hún smitast inn í ferðaskrifstofubransann. Tilboðin setja viðmið fyrir fólk hvað sé raunhæft að eyða í ferðalög erlendis. Svo er bara spurning hversu raunhæft það viðmið er,“ segir Björn.

Wow-air hefur sig til flugs í fyrsta sinn

Jómfrúarflug flugfélagsins Wow-air var farið frá Keflavíkurflugvelli í gær og var förinni heitið til Parísar þar sem lent var á Charles de Gaulle-flugvelli. Formlegt áætlunarflug félagsins til 13 áfangastaða í Evrópu hefst á sunnudag. Flugfélagið hefur á að skipa tveimur 168 sæta Airbus A320-vélum í flugflota sínum en þær eru leigðar frá Avion Express.

„Við erum verulega stolt af því að vera að hefja okkur til flugs. Þetta eru spennandi tímar, en við teljum ferðamannamarkaðinn á Íslandi vera að stækka og ætlum okkur hlut í þeirri köku. Við vonumst til að sjá áframhaldandi fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna til og frá Íslandi en einnig vonumst við til að sjá aukningu hjá íslenskum ferðamönnum í kjölfar batnandi efnahagsástands og lækkandi flugfargjalda,“ er haft eftir Baldri Oddi Baldurssyni, forstjóra Wow-air, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir ennfremur að nú þegar starfi 80 manns hjá fyrirtækinu en verið sé að ráða fjölda starfsmanna til viðbótar. Alls hafi 450 manns sótt um stöður sem félagið auglýsti á dögunum.

Fyrirtækið segist leggja mikla áherslu á einstaka þjónustu sem muni skila sér í mun léttari og skemmtilegri ferðaupplifun en Íslendingum hafi áður staðið til boða. Tekið er fram í tilkynningunni að félagið vilji samsama sig flugfélögum á borð við Virgin, South West og Kulula.

Þá segir að eitt af markmiðum Wow-air sé að gera flugferðir til og frá Íslandi ódýrari en áður hafi sést. Nú þegar megi merkja lækkun fargjalda með tilkomu flugfélagsins, að því er segir í tilkynningunni.