Garðar Ásbjörnsson fæddist í Vestmannaeyjum 27. mars 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 7. maí 2012.

Útför Garðars fór fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 12. maí 2012.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höfundur ókunnur).

Látinn er í Vestmannaeyjum vinur okkur, öðlingurinn Garðar Ásbjörnsson, sennilega saddur lífdaga og hvíldinni feginn.

Við hjónin kynntumst Garðari þegar við fluttum til Vestmannaeyja árið 1987 þegar ég tók við skipstjórn á Guðmundi VE 29 og seinna Antares VE 18. Garðar vann þá sem útgerðarstjóri hjá Hraðfrystistöðinni sem síðar sameinaðist Ísfélagi Vestmannaeyja. Hann var mikill mannþekkjari og átti mjög auðvelt með að stjórna og ná því besta fram hjá fólki sem hann vann með.

Garðar var opinn fyrir öllum nýjungum sem voru miklar og örar á þessum tíma. Var þá sama hvort um var að ræða ný tæki í skipin, veiðarfæri eða nýjar leiðir til úrbóta við veiðar og meðhöndlun aflans sem notaðar eru enn í dag. Það var mikið kapp í Garðari og metnaður fyrir hönd fyrirtækisins. Sem skipstjóri var ekki hægt að hugsa sér að vinna fyrir betri menn en þá Garðar og Sigurð Einarsson, eiganda fyrirtækisins.

Garðar hafði mikla ábyrgðarkennd gagnvart skipum og áhöfnum. Sem dæmi má nefna að þegar veður voru vond á vertíðum eftir starfslok hans, þá hringdi hann eftir sem áður um borð, jafnvel um miðjar nætur til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með menn og skip. „ Er ekki nægilegt súrefni?“ spurði hann og átti þá við vindhraðann.

Garðar var ekki bara góður samstarfsmaður heldur líka góður vinur, sem okkur þótti mjög vænt um. Ferð okkar með Ástu og Garðari til Bahamaeyja fyrir nokkrum árum er ógleymanleg. Einnig fórum við Garðar og Daði sonur hans í nokkrar veiðiferðir í Grenlækinn og áttum þar ógleymanlegar stundir enda Garðar veiðimaður af guðs náð.

Því miður gátum við ekki fylgt Garðari vini okkar síðasta spölinn, þar sem við vorum stödd erlendis. Við viljum að leiðarlokum þakka forsjóninni fyrir þau forréttindi að hafa fengið að kynnast Garðari og eignast vináttu hans og Ástu konu hans.

Elsku Garðar, við biðjum góðan guð og alla engla alheimsins að halda verndarhendi yfir þér og lýsa þér leið. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Elsku Ásta og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Grímur Jón

Grímsson og Helga

Guðjónsdóttir.