Rúnar Bjarnason, fyrrverandi slökkviliðsstjóri í Reykjavík, andaðist í gær á Landspítalanum á 81. aldursári. Rúnar fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1931, sonur Önnu Guðsteinsdóttur húsfreyju og Bjarna Eggertssonar lögregluþjóns.

Rúnar Bjarnason, fyrrverandi slökkviliðsstjóri í Reykjavík, andaðist í gær á Landspítalanum á 81. aldursári.

Rúnar fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1931, sonur Önnu Guðsteinsdóttur húsfreyju og Bjarna Eggertssonar lögregluþjóns.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og civ. ing.-prófi í efnaverkfræði frá Kungliga Tekniska högskolan (KTH) í Stokkhólmi 1955. Rúnar stundaði framhaldsnám við KTH og Karolinska í öryggismálum og umhverfisvernd 1962-63 og framhaldsnám við háskólann í Karlstad í Svíþjóð 1991.

Rúnar var aðstoðarkennari við KTH 1954-55 og stundaði rannsóknir við Svenska Atomkommitéen 1955. Hann var verkfræðingur hjá Áburðarverksmiðjunni 1955-66 og slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna í Reykjavík 1966-91.

Rúnar var formaður Félags íslenskra stúdenta í Stokkhólmi 1954-55 og EVFÍ 1964-65. Hann var varaformaður HSÍ 1957-72, í stjórn Stúdentafélags Reykjavíkur 1965-66 og settist í stjórn Félags slökkviliðsstjóra 1990. Þá var hann í byggingar- og almannavarnanefndum Reykjavíkur og nágrannabyggða 1966-91 og í stjórn Brunamálastofnunar 1969-82.

Kona Rúnars var Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 1936, d. 2011. Þau eignuðust Önnu Gullu fatahönnuð og Gylfa véltæknifræðing. Barnabörnin eru fimm talsins og barnabarnabörnin eru orðin fjögur.