Heiðraður Jörundur Svavarsson, lengst t.v., Anna-Marie Charcot, og Moimeaux skipstjóri skoða jakkann ásamt Bouteiller sendiherra.
Heiðraður Jörundur Svavarsson, lengst t.v., Anna-Marie Charcot, og Moimeaux skipstjóri skoða jakkann ásamt Bouteiller sendiherra. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Pourquoi-Pas?-slysið hafði mikil áhrif á íslensku þjóðina. Charcot varð eitt helsta sameiningartákn þjóðanna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Pourquoi-Pas?-slysið hafði mikil áhrif á íslensku þjóðina. Charcot varð eitt helsta sameiningartákn þjóðanna. Tengslin eru tilfinningaleg og þess vegna kunna Frakkar vel að meta það þegar minningu hans er sýnd virðing,“ segir Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði við HÍ. Hann var sæmdur franskri orðu fyrir þátt sinn í að koma upp sýningu í Fræðasetrinu í Sandgerði um ævi Charcots og störf.

Nýjasta hafrannsóknaskip Frakka kom til Reykjavíkur í gær. Það ber heiti skipa Charcots, Pourquoi-Pas?, og er fimmta skipið með því nafni. Er þetta í fyrsta skipti sem það kemur til Íslands en Charcot, sem var heimsþekktur landkönnuður og vísindamaður, kom oft á skipum sínum til Íslands og Grænlands og átti marga vini hér á landi. Hann fórst með skipinu og áhöfn þegar Pourquoi-Pas? strandaði í ofviðri við Mýrar í september 1936, nema hvað einn maður bjargaðist á land.

Pourquoi-Pas? var við rannsóknarstörf á norðurslóðum en það er flaggskip franska rannsóknarskipaflotans og er gert út af hafrannóknastofnun Frakklands og franska sjóhernum.

Í tilefni af komu skipsins til Reykjavíkur var athöfn í brú skipsins þar sem franski sendiherrann sæmdi Jörund orðunni sem veitt er fyrir afrek á sviði fræða og vísinda.

Var í áhöfn skipsins 1935

Við athöfnina færði Anna-Marie Vallin-Charcot, barnabarn Charcots leiðangursstjóra, Charcot-sýningunni í Sandgerði jakka sem háseti Pourquoi-Pas? hafði klæðst í ferð með Charcot til Íslands og Grænlands. Jakkinn verður settur upp á sýningunni Heimskautin heilla og verður einn af dýrgripum hennar, að sögn Jörundar. Thibault de Rugy gegndi herskyldu í franska sjóhernum þegar hann sá Pourquoi-Pas? í höfn og bað um að fá að fara í leiðangur með skipinu sem hluta af herskyldu sinni. Fór hann með Charcot sumarið 1935 til Grænlands og Íslands. Skipið fórst árið eftir.

De Rugy afhenti vini sínum jakkann áður en hann dó og bað um að hann færi aftur til Íslands, til að heiðra minningu Charcots og áhafnarinnar. Rétta stundin var komin þegar rannsóknarskip með þessu sögufræga nafni hafði viðdvöl í Reykjavík.

Charcot-sýningin hefur verið opin í Sandgerði í fimm ár. „Einhvern veginn varð mér ljóst að hvergi á Íslandi gæti maður fengið upplýsingar á einföldu formi um þennan merka mann, hver hann var og af hverju slysið hafði svona djúp áhrif á Íslendinga,“ segir Jörundur um tildrög þess að sýningunni var komið upp.