Hátækni Hjá líftæknifyrirtækinu Roche NimbleGen starfa 68 manns.
Hátækni Hjá líftæknifyrirtækinu Roche NimbleGen starfa 68 manns. — Morgunblaðið/Ómar
Tilkynnt hefur verið að öllu starfsfólki líftæknifyrirtækisins Roche NimbleGen Iceland verði sagt upp störfum í lok árs, en móðurfyrirtæki þess, Roche Applied Science, hefur ákveðið að gera skipulagsbreytingar sem fela í sér stefnubreytingu í vöruþróun...

Tilkynnt hefur verið að öllu starfsfólki líftæknifyrirtækisins Roche NimbleGen Iceland verði sagt upp störfum í lok árs, en móðurfyrirtæki þess, Roche Applied Science, hefur ákveðið að gera skipulagsbreytingar sem fela í sér stefnubreytingu í vöruþróun og markaðsmálum. 68 starfsmenn eru hjá fyrirtækinu og sjá þeir fram á að missa vinnuna í kringum áramót.

Liður í breyttum áherslum

Sigríður Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Roche NimbleGen, segir þessa ákvörðun samsteypunnar í Þýskalandi hluta af viðamiklum skipulagsbreytingum. Sambærilegar breytingar verða á starfsemi Roche Applied Science í fleiri löndum en á Íslandi. Samdráttur hafi orðið í sölu hjá samsteypunni og breytingarnar nú séu liður í breyttum áherslum hjá fyrirtækinu.

Sigríður segir hugsanlegt að einhverjir starfsmenn muni fá starf hjá Roche-samsteypunni erlendis. Fyrirtækið leggi mikið upp úr því að veita starfsfólki sínu aðstoð varðandi næstu skref svo sem ráðgjöf við atvinnuumsóknir.

Roche NimbleGen hóf starfsemi á Íslandi árið 2002. Fyrirtækið sérhæfir sig í smíði svokallaðra DNA-örflagna sem notaðar eru við ýmiskonar sameindalíffræðilegar rannsóknir á erfðaefninu. Vörur fyrirtækisins eru seldar gegnum Roche til viðskiptavina um allan heim.

Sigríður segir að þessi ákvörðun Roche hafi verið óvænt en starfsfólk hafi tekið fréttunum af æðruleysi. Þetta sé sterkur hópur sem búi yfir mikilli þekkingu á örflögutækni og hátækniiðnaði. Starfsmenn hafi margra ára reynslu af því að starfa í alþjóðlegu umhverfi á sviði þar sem vöru- og tækniþróun er gífurlega hörð. egol@mbl.is