Áhugi Á ráðstefnunni í gær kom fram að mikil tækifæri gætu leynst í mjög miklum sveiflum í raforkuverði á sólarhringnum og var Íslendingum ráðlagt að skoða vel möguleikana á því að selja aðeins þegar hæsta verðið býðst.
Áhugi Á ráðstefnunni í gær kom fram að mikil tækifæri gætu leynst í mjög miklum sveiflum í raforkuverði á sólarhringnum og var Íslendingum ráðlagt að skoða vel möguleikana á því að selja aðeins þegar hæsta verðið býðst. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Baksvið Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Þegar við skoðuðum hagnaðarvonir með lagningu sæstrengs frá Noregi til Hollands þá litum við fyrst á meðalverðið þar og það var svo lítill munur að engin hagnaðarvon virtist vera fyrir hendi,“ sagði Norðmaðurinn Odd Hákon Holsæter, fyrrverandi forstjóri Statnett, á ráðstefnu sem haldin var í Arion banka í gær um orkumál Evrópu og tækifæri íslenskra orkufyrirtækja. „En þegar við hættum að horfa á meðaltalsverð og skoðuðum möguleikann á því að selja bara þegar gott verð gafst en annars ekki, þá gerbreyttist myndin. Orkan getur verið ódýr yfir daginn og dýr á nóttunni,“ bætti Odd Hákon við. „Mikill hagnaður hefur verið af lagningu sæstrengsins sem er sá lengsti í heiminum í dag. Það er þetta sem þið eigið að horfa til þegar þið skoðið hagnaðarvonir ykkar með lagningu sæstrengsins, sem yrði sá lengsti í heiminum ef af honum yrði. Þið eigið að skoða hvenær árstímans besta verðið fæst, hvenær sólarhringsins, hvenær á klukkustundinni og þess vegna hvenær á hverju korteri, því það er möguleiki á að fá virkilega gott verð fyrir megavattstundina í Evrópu í dag.“

Ráðherrar landanna jákvæðir

Ráðstefnan sem haldin var af UK Trade & Investment, Arion banka og Orkustofnuninni hófst með stuttu ávarpi frá Oddnýju Harðardóttur, fjármála- og iðnaðarráðherra Íslands. En á eftir henni talaði Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, en í gær skrifuðu þau undir viljayfirlýsingu í Hellisheiðarvirkjun um aukið samstarf ríkjanna á sviði orkumála og var sérstök áhersla lögð á hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Í viljayfirlýsingunni eru tilgreind sérstaklega fjögur svið sem ríkin leggja áherslu á:

-Miðlun þekkingar og samvinna varðandi beislun jarðhita og uppbyggingu hitaveitna í Bretlandi.

-Möguleikinn á lagningu rafmagnsstrengs milli Íslands og Bretlands skal kannaður með jákvæðum augum.

-Vilji til að aðstoða þróunarlönd við að hagnýta endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar. Sérstök áhersla skal lögð á ríki í Austur-Afríku.

-Miðlun á þekkingu varðandi uppbyggingu á olíu- og gasiðnaði.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, hélt tölu á ráðstefnunni og nefndi þar lykilatriði: „Þar sem aðstæður milli landanna eru hvað ólíkastar, eru möguleikarnir hvað mestir.“

En aðstæður í Bretlandi og á Íslandi eru ákaflega ólíkar eins og kom fram í máli Hendrys annars vegar og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hins vegar.

300.000 manna þjóð Íslendinga framleiðir meira af grænni raforku en 60 milljóna manna þjóð Breta eða 17 TWst en þeir tæplega 16 TWst. Íslendingar eru vel rúmlega sjálfum sér nægir með orku og uppfylla í ofanálag öll 2020-markmið sem evrópsku ríkin hafa sett sér hvað varðar græna orku. En Bretland þarf nauðsynlega að verða sér úti um orku að utan og vantar mikið upp á að ná 2020-markmiðunum varðandi græna orku.

Út frá þessum samanburði virðist margt mæla með að rannsaka til hlítar möguleika á lagningu sæstrengs sem eins og Hendry orðaði það var eins og hugmynd úr vísindaskáldsögu fyrir nokkrum árum en er nú orðið að raunverulegum möguleika.

Hörður var spurður utan úr sal hvernig Landsvirkjun ætlaði að anna eftirspurn og hann sagði að samkvæmt þeirra mati gætu þeir tvöfaldað framleiðsluna en samt verið innan ramma- og umhverfisverndaráætlunar.

Herði varð tíðrætt um spurninguna hvort það væri „win-win situation“ í spilunum eða það sem hægt væri að segja upp á íslensku hvort sú niðurstaða væri möguleg að allir gætu grætt og verið sáttir. Að hans mati er slíkt mögulegt vegna ólíkra aðstæðna í löndunum og benti á að fyrir utan að Landsvirkjun gæti fengið hærra verð fyrir orkuna þá myndi nýting hennar verða miklu betri og í ofanálag kæmi með sæstrengnum aukið orkuöryggi hér á landi, því við lifum í dag við þá ógn að náttúruhamfarir geta illilega truflað og jafnvel alvarlega skaðað orkuframleiðsluna.

Eflir íslenskan raforkumarkað

Á eftir Hendry og Herði talaði Odd Hákon sem eins og fyrr sagði talaði um reynsluna af lagningu sæstrengsins frá Noregi til Hollands. Þegar meðaltalsverðið var skoðað var munurinn á milli APX- og NO-verðs 53,43 evrur annars vegar og 56,23 evrur á MWst hins vegar eða aðeins 3,20 evrur á MWst sem var ekki nægilegur verðmunur til að réttlæta lagningu strengs. En þegar miðað var við að selja þegar gott verð gafst var verðmunurinn 16,20 evrur MWst.

Lagning strengsins kostaði 600 milljónir evra en tekjur af honum hafa verið á aðeins fjórum árum 301 milljón evra.

Á ráðstefnunni var einnig um það rætt hvað lagning sæstrengsins gæti hjálpað mikið við þróun raforkumarkaðarins á Íslandi, en markaðurinn hér er nýr og almennt talinn í það minnsta tíu árum á eftir þróuðum mörkuðum Evrópu.

Sæstrengir hafa reynst arðbærir annars staðar í Evrópu

Þetta yrði lengsti sæstrengur heims

Lengsti sæstrengur heims, sá sem liggur milli Noregs og Hollands, kostaði 600 milljónir evra. Áætlað er að lagning 700 MW sæstrengs milli Íslands og Bretlands myndi kosta 1,5-2 milljarða evra. Það er ljóst að fjárfesting í sæstrengnum milli Noregs og Hollands mun borga sig enda hafa tekjur af honum á aðeins fjórum árum verið 301 milljón evra en það er ekki ávísun á að sæstrengur frá Íslandi muni gera slíkt hið sama.

En sérstaða Íslands hvað raforku varðar er mikil á alþjóðlegum markaði enda er þetta litla land með 2% hlutdeild í álframleiðslu heimsins, er með tólftu mestu framleiðslu grænnar raforku í Evrópu og langmestu framleiðsluna í álfunni miðað við höfðatölu.

Einsog staðan er í dag er Landsvirkjun að bjóða MWst á 43 dollara sem er að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, 30-50% lægra verð en í Evrópu auk þess sem fyrirtækið býður tímabundinn afslátt fyrstu 6-8 árin í tilfelli nýrra verksmiðja. Samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar er meðalverðið á Norðurlöndunum 62 dollarar á MWst, í Þýskalandi sé verðið í kringum 70 dollara og í Hollandi sé það einnig um 70 dollarar. Ýmsir vilja meina að verðið sé orðið mun lægra í Evrópu, en í öllu falli er það enn lægra á Íslandi – ennþá.

Lagning sæstrengs myndi bæta markaðsstöðu Landsvirkjunar verulega en gagnrýnisraddir hafa komið fram um þá hugmynd.

Með raforkulögum sem sett voru á Íslandi árið 2003 var ákveðið að markaðslögmál skyldu gilda við sölu á raforku á Íslandi þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar skuli ráða. Margir óttast að með sæstreng muni fást mun betra verð fyrir orkuna og hún vera flutt út og það hafi veruleg áhrif á uppbyggingu iðnaðar hér á landi. Líta margir á það sem afturhvarf, ekki ósvipað því og ef við færum að flytja allan fisk út óunninn. Þá myndu ansi mörg störf tapast hér á landi. Ef menn flyttu alla orkuna út „óunna“ myndu engin störf skapast í kringum iðnaðinn hér á landi. En eins og kom fram í úttekt Morgunblaðsins á fimmtudag hefur til dæmis áliðnaðurinn hér á landi skapað gríðarlega mikil verkefni fyrir íslensk fyrirtæki í mörgum geirum.

Þannig hafa fyrirtæki einsog verkfræðistofan Efla, VHE vélaverkstæðið og HRV Engineering fengið það mikið af verkefnum og það mikla reynslu að þau eru í raun komin í útrás og farin að sinna stórum verkefnum erlendis.