Perla Kristín Þorgeirsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 20. janúar 1933. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 4. maí 2012.

Útför Perlu fór fram í kyrrþey frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 9. maí 2012.

Mikil sómakona er fallin frá. Frú Perla er öll. Besta vinkona mömmu og mamma Jonna, æskuvinar míns. Við Jonni eigum sögu saman sem nær aftur til þess tíma þegar við vorum báðir pínulitlir pjakkar. Pella og fjölskylda að Arnarhrauni 48 og amma Kolla og fjölskylda að Grænukinn 1. Bara lækurinn á milli. Og Hörðuvellir.

Vinkonurnar alltaf flottar og fínar og vel til hafðar. Mikill samgangur á milli og alltaf tekið á móti manni eins og prinsi á Arnarhrauninu. Benni og Pella höfðingjar heim að sækja. Alltaf svo góð við mig og mömmu. Og ekki versnaði nú statusinn þegar maður lagði land undir fót og heimsótti ömmu Möggu og Jón Nordgulen á Garðaveginn.

Um daginn minntist Jonni á sunnudagsbíltúra í ís til Hveragerðis í brjálaðri blíðu á sumrin. Vinkonurnar flottu með strákana sína. Þórður við stýrið. Alltaf mikil gleði, mikið fjör og kátína. Mikið hlegið. Og þannig virðast allar minningarnar vera. Með gleði í aðalhlutverki.

Pella sýndi mikið æðruleysi og sálarstyrk í öllum veikindum sínum og grínaðist jafnvel með fótamissi þeirra hjóna. Eins og unglingarnir mundu segja: hélt alveg kúlinu allan tímann. En hún var heldur ekki ein. Benni og krakkarnir umvöfðu hana ást, hlýju og umhyggju, nú meir en nokkurn tíma fyrr. Samhent og falleg fjölskylda, alla leið.

Í minningunni er Pella alltaf eins. Lífsglöð og jákvæð og hress og kát og æðisleg og ekki getur maður látið hjá líða að nefna stjórnsemina, að sjálfsögðu í bestu merkingu þess orðs. Hafði skoðanir á flestum hlutum og var ekkert að lúra á þeim. Alltaf stutt í skemmtilegar athugasemdir, fallegt bros eða hlátur.

Með þessum fátæklegu orðum langar mig að votta Benna og börnunum þeirra Pellu – Lalla, Grétu, Jonna, Fríði og fjölskyldum þeirra – mína dýpstu og innilegustu samúð. Mínar kærustu þakkir fyrir öll sporin sem við höfum stigið saman um dagana og megi minningin um mikla sómakona lifa um alla framtíð.

Ykkar vinur,

Þorsteinn Gunnar

(Steini Aðalsteins.).