Guðrún Briem fæddist í Reykjavík 21. mars 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 24. maí 2012. Foreldrar hennar voru Gunnlaugur E. Briem, ráðuneytisstjóri, f. 5. febrúar 1903, d. 28. júlí 1999 og Þóra Garðarsdóttir Briem, húsmóðir, f. 25. júlí 1905, d. 18. janúar 1999. Bræður Guðrúnar voru: Eggert Briem læknir, f. 15. júní 1937, d. 3. febrúar 1983, kvæntur Halldóru Kristjánsdóttur Briem sem er látin, börn þeirra eru Gunnlaugur Þór, Birnir Kristján, Eggert og Hrund; Garðar Briem tæknifræðingur, f. 1. júlí 1945, kvæntur Hrafnhildi Egilsdóttur Briem fjármálastjóra, börn þeirra eru Egill lífefnafræðingur, Gunnlaugur Einar iðnaðartæknifræðingur og Þóra Björg viðskiptafræðingur.

Eiginmaður Guðrúnar er Þráinn Þórhallsson prentsmiðjustjóri, f. 30. október 1931. Þau giftust 22. júní 1957. Börn þeirra eru: Gunnlaugur viðskiptafræðingur, f. 30. júlí 1960, kvæntur Sigríði Einarsdóttur, börn þeirra eru Anna Guðrún og Einar; Þórhallur fornleifafræðingur og teiknari, f. 24. janúar 1962, kvæntur Sif Ormarsdóttur, börn þeirra eru Þráinn og Óttar; Magnús Þór verkfræðingur, f. 13. apríl 1967, dóttir hans er Catherine; Þóra hjúkrunarfræðingur, f. 6. júní 1970, kvænt Jóni Einarssyni, börn þeirra eru Ragnar Már, Þráinn Örn og Magnús Orri.

Guðrún lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1950. Stundaði nám við Sorø Husholdningsskole sumarið 1951. Lauk námi við Hjúkrunarskóla Íslands 1955. Vann sem hjúkrunarfræðingur aðallega í Reykjavík og í eitt ár á Massachusetts Memorial Hospital í Boston. Guðrún lauk hjúkrunarkennaranámi við Kennaraháskóla Íslands 1979. Vann um tíma sem prófdómari og kennari í heilsufræðum og aðhlynningu sjúkra við Kvennaskólann og Þroskaþjálfaraskóla Íslands.

Útför Guðrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 1. júní 2012, kl. 15.

Rúmlega tvítug kom ég inn í líf Guðrúnar Briem, Rúnu, sem tilvonandi fyrsta tengdadóttir. Frá upphafi tók hún mér opnum örmum. Læknisfræðin var sameiginlegt áhugamál okkar en heilbrigðismál voru Rúnu ætíð hjartans mál og hún hafði mikinn metnað fyrir hönd heilbrigðisstéttarinnar allrar.

Rúna ólst upp á góðborgaralegu embættismannaheimili í Reykjavík og ekki er víst að hjúkrunarstarf hafi verið það sem stórkaupmaðurinn, afi hennar, sá fyrir sér þegar hann kenndi litlu telpunni að sitja rétt til borðs með því að setja bækur undir báða handarkrikana. En Rúna valdi sér sína eigin braut. Tengdamóðir mín var hugsjónarkona með fórnarlund. Að hjúkra öðrum og hlúa að þeim sem minna mega sín veitti henni lífsfyllingu. Hún var einnig metnaðarfull fagmanneskja og að námi loknu hélt hún til Bandaríkjanna til þess að öðlast frekari starfsreynslu. Þegar heim kom vann hún á Landspítalanum og síðar á Landakotspítala og sem hjúkrunarfræðingur í Árbæjarskóla.

Samhliða hjúkrunarstarfinu, og síðar eingöngu, annaðist Rúna stórt heimili. Hún lagði metnað sinn ekki síður í að sinna húsmóðurstarfinu vel en menntun sína á því sviði sótti hún m.a. til hins fornfræga húsmæðraskóla í Sórey á Sjálandi. Fjölskyldan og heimilið var í forgrunni og því var hún heimavinnandi mestan part ævinnar en einnig gerði slæmt mígreni henni erfitt fyrir að sameina húsmóðurstarfið hjúkruninni. Það var henni mikið gleðiefni þegar Þóra dóttir hennar fetaði í fótspor hennar og gerðist hjúkrunarfræðingur. Þá vorum við líka orðnar þrjár sem gátum kryddað kvöldverðinn með spítalasögum.

Á langri ævi nutu margir góðs af umhyggju Rúnu, ekki síst barnabörnin. Hún hafði einstakt lag á börnum, sá alltaf til þess að þau hefðu eitthvað fyrir stafni. Það var gott að eiga hana að þegar fjölskyldan flutti heim frá Svíþjóð en við bjuggum þá tímabundið á neðri hæðinni hjá tengdaforeldrum mínum. Sérstaklega var þessi tími dýrmætur fyrir syni mína sem eftir öll árin erlendis gátu nú styrkt tilfinningaböndin við ömmu sína. Hún var ávallt til staðar fyrir þá og þegar ég var fjarverandi gaf hún strákunum mínum að borða, soðna ýsu og rauðgrautinn góða í eftirmat sem alltaf kláraðist.

Tengdamóðir mín var ákaflega virðuleg og glæsileg kona. Þrátt fyrir erfið veikindi tókst henni að halda reisn sinni til hinstu stundar og á áttræðisafmælinu geislaði hún í návist ættingja og vina. Í faðmi fjölskyldunnar kvaddi hún stuttu síðar á þann hljóða máta sem henni var svo eiginlegur.

Sif Ormarsdóttir.

Í dag verður jarðsungin mágkona mín Guðrún Briem. Það er liðin tæp hálf öld síðan leiðir okkar lágu fyrst saman. Hún var kona, sem ávallt var boðin og búin ef hún einhvers staðar gat liðsinnt enda hafði hún valið að setjast í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands að loknum kvennaskólaárum sínum og sinna því starfi af lífi og sál. Mörgum árum síðar innritaði hún sig í Háskóla Íslands til að mennta sig frekar í hjúkrunarfræðum. Ég horfði á þennan feril hennar með aðdáun.

Hún kunni að njóta lista og búa heimili sitt fögrum munum af mikilli smekkvísi án nokkurs íburðar. Þau hjónin ferðuðust víða og eignuðust margar ljúfar minningar frá hinum ýmsu vöggum heimsmenningarinnar.

Guðrún var mikil móðir og amma og naut þess að sjá hve börnin spjöruðu sig vel í lífinu. Þau hjónin reistu einstaklega fallegan sumarbústað, sem hún því miður gat ekki notið eins og til var sáð vegna alvarlegs heilsubrests. Það var aðdáunarvert að sjá hvernig Þráinn hugsaði um Rúnu sína síðustu árin, sem lýsir best einstaklega nánu sambandi þeirra í 55 ára hjúskap.

Megi minningin um Guðrúnu Briem lifa, með kærri þökk fyrir allt og allt.

Hrafnhildur

Briem.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Nú kveður yndisleg kona þetta líf og fer til æðri heima. Nú á bjartasta tíma ársins og fuglarnir syngja sem mest, kveður hún eftir erfið veikindi. Við vorum allar saman í Kvennaskólanum í Reykjavík í fjóra vetur og urðum góðar vinkonur og erum það enn. Rúna var yndisleg kona, alltaf tilbúin að hjálpa og gera allt fyrir aðra eins og hún gat. Hún gaf mikið af sér. Það er svo margt sem kemur upp í hugann, allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman, þetta geymum við allt hjá okkur. Elsku Rúna okkar, við söknum þín mikið, en svona er lífið oft erfitt. Við kveðjum þig elsku góða vinkona okkar.

Við sendum Þráni og börnum þeirra okkar dýpstu samúð og megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Hildur, Lára, Valborg (Stella.)

Það var 2. janúar 1952 sem við hittumst fyrst í „kirkjunni“ á háalofti Landspítalans, sem þá var kennslusetur Hjúkrunarskóla Íslands, til þess að hefja nám í forskólanum.´

Í „kirkjunni“ var einn þakgluggi. Til þess að opna eða loka þurfti langa stöng sem náði að verða miðdepill, setja svip á daglegt líf, fylgja okkur í minningunni, sem bitbein og hláturvaki.

„Hollið“ okkar var orðið til.

Við vorum fjórtán og komum víða að. Flestar bláókunnugar, aðrar þekktust lauslega.

Námstímann á „Lansanum“ bjuggum við á heimavist, sem var staðsett á efstu hæð og í risi gamla Landspítalans.

Í hópnum var há og grönn stúlka, bjartleit, broshýr og snör í snúningum Guðrún Briem, eða Rúna, eins og við nefnum hana ávallt.

Það er margt minnisstætt við Rúnu. Hún var á sérstakan hátt svo eðalborin, hafði göfgi yfir sér og milda reisn sem er fátíð. Hún var myndarleg, glaðsinna félagsvera. Hjálpleg og reiðubúin til liðveislu, einörð og einlæg í allri framkomu. Þótt við kæmum úr afar ólíkum kringumstæðum ríkti góður andi í hópnum. Góðlátleg stríðni á gleðistundum. Rúna kættist með sínum létta hlátri og fyrtist aldrei.

Við vorum sendar á stærri sjúkrahúsin úti á landi. Framtíðarörlög sumra í hópnum ráðin. Athygli og eftirtekt ungu mannanna á staðnum þegar nemana bar fyrir augu skerptist. Þráinn var einn af þeim.

Rúna fór norður, Þráinn kom suður. Í fyllingu tímans stofnuðu þau fallegt heimili, eignuðust börnin fjögur og voru einstaklega samhent við það sem bar að höndum.

Ást og gagnkvæm virðing einkenndi samband þeirra alla tíð.

Saumaklúbbarnir héldu okkur saman. Rúna kom meðan hún gat og við söknum hennar eftir að hún treysti sér ekki lengur til að koma.

Kynnin við makana jukust og við fylgdumst grannt með afkomendum hver annarrar í „hollinu“.

Rúna var einörð og skoðanaföst, hjá henni var aldrei neitt af því bara, hún hafði gjörhugsað málin og tekið afstöðu sem ekki var auðbreytt.

Samtímis var hún einkar viðkvæm, var alltaf kalt, hafði óþol og ofnæmi fyrir ýmsu.

Það er sennilega ofviða okkur hinum að skilja til hlítar þann sem þannig líður.

Sorgum og andstreymi var tekið af æðruleysi.

Við minnumst boðanna á heimili foreldra Rúnu í reisulega húsinu við Tjarnargötu, í sumarbústað þeirra við Elliðavatn. Menning, umhyggja og hlýleiki í fyrirrúmi.

Vinnuferðanna til endurbóta Kvennabrekku. Ferðarinnar í Veiðihúsið í Laxárdal, orlofshúsin á Flúðum. Ótal veitingahúsaferða og veisluhalda. Boðsins til þeirra Þráins í fallega sumarbústaðinn fyrir austan, þar sem við skondruðum á eftir Þráni upp um alla móa til þess að sjá allan gróðurinn. Þvílíkar viðtökur.

Ekki síst mun áttræðisafmælið hennar vekja bjarta og hlýja minningu. Hún var svo falleg og fín, brosleit og glöð að undrum sætti.

Að loknu þessu erfiða sjúkdómastríði þar sem Þráinn og þeirra nánustu hafa sýnt einstakan styrk og reisn sendum við þeim öllum okkar innilegustu vinakveðjur og biðjum þeim farsældar og gæfu um ókomna tíð.

F.h. „hollsins“ okkar,

Jóna Valgerður

Höskuldsdóttir.