Ólafur Styrmir Ottósson fæddist á Siglufirði 8. apríl 1943. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. maí 2012.

Útför Ólafs fór fram frá Neskirkju 24. maí 2012.

Ég kynntist Ólafi fyrir þrjátíu árum. Þá var hann nýorðinn aðstoðarbankastjóri í Alþýðubankanum. Kona hans Steinunn Árnadóttir var mér þá þegar að góðu kunn, sökum vináttu foreldra okkar. Og þó svo ég gerði ráð fyrir að eiginmaður Steinunnar hlyti að vera eðalmaður, þá kom hann mér ánægjulega á óvart í viðkynningu.

Bankastörf voru hans fag og hann vann sig til frama í því starfi en yfirbragð hans var annað en maður átti að venjast hjá bankamönnum, sem höfðu margir tilhneigingu til að gæta að því að halda viðskiptavinum sínum í nokkurri fjarlægð. Hann var alltaf kátur og viðræðugóður. Hafði ávallt tíma til hlusta og fór aldrei í manngreinarálit. Hafði áhyggjur af hag viðskiptavina sinna. Hafði tíma til að velta fyrir sér þjóðfélagsmálum. Var mannasættir og lagði ávallt gott til mála.

Ólafur Ottósson var eftirminnilegur maður, sem yfirgaf lífið alltof snemma og er mikil eftirsjá að honum. Hann hafði mannbætandi áhrif á alla sem náðu hans kynnum og jarðvist hans gerði heiminn betri. Konu hans Steinunni og börnum þeirra og barnabörnum sendi ég samúðarkveðju á sorgarstund.

Björn Jónasson.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga Steinunni og Ólaf Styrmi að tengdaforeldrum sonar míns af því að þau urðu mér svo dýrmætir vinir og voru okkur svo framúrskarandi góð og gjafmild. Ólafur Styrmir reyndist syni mínum sem annar faðir og það var nú ekki ónýtt því þeir voru svo miklir félagar og unnu lengi á sama stað og fóru í dýrmæta veiðitúra með fleira fólki.

Ólafur Styrmir var slíkt göfugmenni að það er ómögulegt að skilja að til sé manneskja sem alltaf er góð við mann en jafnfamt svo glöð. Það er nefnilega svo dásamlegt að eiga að veganesti minningu um mann sem var jafn góður og glaðsinna og Ólafur. Því það er svo dýrmætt þegar verið er að basla að óþörfu með uppspunnin vandamál og muna svo eftir Ólafi Styrmi sem ekki var hægt að vera með svoleiðis raus við. Hann var alltaf brosmildur í augunum og það fannst fljótt að leiðindahjal var hreint og beint alveg fánýtt og vitlaust.

Sonur minn og fjölskylda ætluðu að fara í skólann að Bifröst í Borgarfirði og ég hef aldrei lesið fallegra meðmælabréf en Ólafur skrifaði um son minn. Það var dásamlegt að koma labbandi neðan úr bæ og hugsa til þess fagnandi hvort Steinunn og Ólafur væru nú heima hjá sér á Reynimel 23. Og þvílík gleði sem færðist yfir þegar Steinunn kom til dyra létt í spori og brosandi eins og venjulega og sagði: „Gaman að sjá þig, komdu og fáðu þér kaffi eða te með okkur,“ alveg sama þótt gestir væru hjá þessum frábæru hjónum, það var pláss fyrir fleiri. Og það er alltaf eitthvað svo gott sem maður fær í fallega eldhúsinu þeirra, brauðið, kexið, kökurnar, sultutauj, marmelaði, te eða kaffi og spjallið og hláturinn er aldrei langt undan. Ég get ekki að því gert en ég klökkna af gleði þegar ég hugsa um stundirnar á Reynimel 23. Og þá er aðeins að halda áfram og vera glaður af því það er ekkert nema slíkar minningar í kringum þau hjónin og dætur þeirra og fjölskyldur. Jesús blessi minninguna um þennan mæta mann og láti okkur minnast hans alltaf.

Þóra Benediktsson.

Að vera rétti maðurinn, á réttum stað, á réttum tíma og gera þannig gæfumuninn fyrir samfélag sitt og samferðafólk, er gæfa sem ekki er öllum gefin. En þannig var það með vin okkar og félaga, Ólaf Styrmi Ottósson eða Óla í Oddshúsi eins og við Hólmararnir kölluðum hann alltaf okkar á milli. Það fór ekki mikið fyrir þeim hjónum Óla og Steinunni fyrst eftir að þau festu kaup á Oddshúsi í Stykkishólmi, enda hógvært og kurteist fólk á ferð. En Hólmarar tóku þó strax eftir því af hve mikilli natni og myndarskap þau stóðu að endurbótum á húsinu sínu. En síðar nutum við þess ekki síður hversu mikla ræktarsemi þau sýndu bænum og mannlífinu sem þar blómstrar.

Það er okkur félögunum minnisstætt þegar við kölluðum Ólaf ásamt fleirum til fundar við okkur í september 2010. Markmiðið var að fá öflugt fólk til liðs við okkur og finna leiðir til að ljúka smíðinni á nýja Klais-orgelinu í Stykkishólmskirkju og koma því heim í Hólm. Í fyrstu hafði Ólafur sig ekki mikið í frammi, eins og hann þyrfti smástund til að meta stöðuna, en það var fljótafgreitt og við höfðum svo sannarlega fengið ómetanlegan liðstyrk. Óli gegndi meira lykilhlutverki við að færa Stykkishólmskirkju nýja pípuorgelið en flestir geta gert sér grein fyrir sem ekki tóku þátt í því mikla átaki. Reynsla hans úr fjármálaheiminum og útsjónarsemi skiptu þar sköpum. Sumir trúa því að allt sé fyrirfram skrifað í skýin, að forsjónin ráði öllu en aðrir að allt sé tilviljunum háð. En hvort sem það var tilviljun eða forsjónin sem leiddi Óla og Steinunni í Stykkishólm þá reyndist hann okkur svo sannarlega rétti maðurinn, á réttum stað, á réttum tíma.

Við félagarnir sendum Steinunni og fjölskyldu Ólafs okkar innilegustu samúðarkveðjur og kveðjum góðan vin og félaga með söknuði og þakklæti fyrir liðveisluna.

Með kveðju úr Stykkishólmi,

Gunnlaugur A. Árnason og Sigþór U.

Hallfreðsson.