Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Verulegar breytingar verða á smábátakerfinu samkvæmt tillögu, sem nú er unnið með í atvinnuveganefnd Alþingis samfara vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða. Ganga þær þvert á það fyrirkomulag sem verið hefur síðustu ár.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Verulegar breytingar verða á smábátakerfinu samkvæmt tillögu, sem nú er unnið með í atvinnuveganefnd Alþingis samfara vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða. Ganga þær þvert á það fyrirkomulag sem verið hefur síðustu ár.

Meðal annars mun vera rætt um að heimilt verði að selja og leigja aflamark, sem er til eins árs, úr kerfi minni bátanna, krókaaflamarkskerfinu, yfir í stóra aflamarkskerfið. Til þessa hefur aðeins verið heimilt að færa afla úr stóra kerfinu í litla kerfið, en ekki í báðar áttir og hefur það bæði gilt um aflamarkið og aflahlutdeildina, sem er varanlegt aflamark.

Þá mun vera rætt um að heimilt verði að stækka báta í smábátakerfinu umfram þau 15 brúttótonn sem nú er miðað við. Eftir slíka stækkun geti útgerðarmenn valið að fara yfir í stóra kerfið. Loks má nefna að í tillögunum er gert ráð fyrir að aflaheimildir krókaflamarksbáta, smábáta, sem yrðu fluttar í stóra kerfið myndu skerðast um 10%.

Gengið nærri smábátaútgerð

Eldveggur hefur til þessa komið í veg fyrir að aflamark færi úr litla kerfinu í stóra kerfið og var þetta fyrirkomulag haft til að tryggja stöðu smábátaútgerðar. Einn viðmælandi blaðsins í röðum smábátasjómanna sagðist hafa verulegar áhyggjur af hugmyndum um flæði í báðar áttir og sagðist telja að með því væri gengið nærri smábátaútgerð, sem væri umhverfisvæn og í anda þess sem stjórnvöld hefðu talað fyrir.

Vitnaði hann einnig til reynslunnar frá árinu 1991 þegar kvóti var settur á smábátana og ekki var ákvæði um aðskilnað á milli kerfanna. „Stærri útgerðir keyptu minni bátana, sem hurfu eins og dögg fyrir sólu og kvótinn safnaðist á stærri skipin,“ sagði hann.