Annmarkar Velferðarnefnd þingsins er gagnrýnd fyrir að kalla ekki eftir umsögnum Læknafélagsins, geðlækna og Gigtarfélagsins við umfjöllun.
Annmarkar Velferðarnefnd þingsins er gagnrýnd fyrir að kalla ekki eftir umsögnum Læknafélagsins, geðlækna og Gigtarfélagsins við umfjöllun. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ótvíræður árangur hefur náðst með átakinu um starfsendurhæfingu sem rekja má til samkomulags aðila vinnumarkaðarins og staðið hefur yfir sl. tæp þrjú ár á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ótvíræður árangur hefur náðst með átakinu um starfsendurhæfingu sem rekja má til samkomulags aðila vinnumarkaðarins og staðið hefur yfir sl. tæp þrjú ár á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Markmiðið er að tryggja fólki sem misst hefur starfsgetuna vegna veikinda eða slysa endurhæfingu og aðstoð við að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Í byrjun maí höfðu um 3.400 einstaklingar leitað til ráðgjafa VIRK á þessum tæpu þremur árum sem liðin eru. Um 72% þeirra sem hafa útskrifast frá VIRK eru með fulla starfsgetu og hafa horfið til vinnu eða náms.

Verði stjórnarfrumvarp um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsendurhæfingarsjóði lögfest á yfirstandandi þingi verður enn stærra skref stigið og komið á fót heildarkerfi starfsendurhæfingar fyrir alla sem eru á vinnufærum aldri en geta ekki stundað vinnu vegna heilsubrests. Verja á um 3,5 milljörðum árlega til starfsendurhæfingar sem komi frá atvinnulífinu, lífeyrissjóðum og ríkinu.

Lenda þeir veikustu útundan?

Samtök á vinnumarkaði og lífeyrissjóðir eru mjög áfram um að frumvarpið verði lögfest og taki gildi 1. júlí. Innan heilbrigðiskerfisins eru hins vegar uppi gagnrýnisraddir þar sem sérfræðingar og sérhæfðir starfsmenn hafa áhyggjur af því að með stóraukinni áherslu á atvinnutengda starfsendurhæfingu verði læknisfræðilegri endurhæfingu þeirra sem veikastir eru ekki sinnt sem skyldi.

Samtök stjórna starfsendurhæfingarstöðva bendir á í umsögn til velferðarnefndar að talsverður hópur fólks sem býr við mesta heilsubrestinn muni ekki eiga rétt á atvinnutengdri starfsendurhæfingu. „Starfsendurhæfingarstöðvarnar þjónusta í dag um 760 manns en aðeins um 15% þeirra hafa komið í atvinnutengda starfsendurhæfingu til stöðvanna gegnum beiðni frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Hin 85% eða 595 manns hafa komið samkvæmt tilvísunum aðallega frá heilbrigðiskerfinu þar sem umræddir skjólstæðingar hafa ekki uppfyllt skilyrði þau sem VIRK setur fyrir því að greiða fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu þeirra,“ segir þar.

Samtök atvinnulífsins segja til mikils að vinna og benda á að 1. apríl sl. biðu 1.067 einstalklingar eftir varanlegum úrskurði um örorku og þar af voru rúmlega 300 yngri en 30 ára. Samtökin áætla að í fyrra hafi greiðslur Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða til örorkulífeyrisþega aukist í 35 milljarða kr. vegna bótahækkana og fjölgunar lífeyrisþega.

Í umsögn SA er lagasetningin tengd yfirstandandi endurskoðun laga um almannatryggingar sem hljóti að fela í sér gerbreyttar áherslur þannig að litið verði til starfsgetu einstaklinga en ekki almennrar vangetu þeirra. „Þá verður að afnema það fyrirkomulag að einstaklingar geti beint sótt um örorkulífeyri. Í stað þess komi sú umsókn frá teymi sérfræðinga, ekki einungis tryggingalækni [...]“ segja SA.

VIRK fékk Talnakönnun til að meta fjárhagslegan ávinning af starfsendurhæfingu sem komst að þeirri niðurstöðu að í dæmi 40 ára einstaklings, sem tekur fullan þátt á vinnumarkaði og fær meðallaun í stað þess að fara á örorkulífeyri, sé samanlagður ávinningur hans, lífeyrissjóðs og ríkisins 105 milljónir kr. Í umfjöllun SA segir að ef næðist að helminga nýgengi örorku úr 1.100 einstaklingum á ári í 550 yrði ávinningurinn 36 milljarðar á ári.

Skilji afleiðingarnar fyrir veikari

„Það er nauðsynlegt að nefndarmenn skilji hvaða afleiðingar það hefur fyrir veikari hluta hópsins sem þarf á starfsendurhæfingu að halda ef frumvarpið er samþykkt eins og það lítur nú út,“ segir Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði, í umsögn sem hann sendi að eigin frumkvæði til velferðarnefndar.

Hér eru að sögn hans einkum undir hagsmunir einstaklinga sem eru án atvinnu vegna algengra geðsjúkdóma, verkja eða skertrar hreyfigetu. Sumum hafi verið hægt að sinna í endurhæfingu hjá t.d. Janusi endurhæfingu en Engilbert segir að því miður sinni vart nokkur stofnun utan geðsviðs Landspítalns endurhæfingu einstaklinga með alvarlegustu geðsjúkdómana.

„Þeir veikustu hljóta endurhæfingu á endurhæfingarþætti geðsviðs sem hefur verið skorinn niður á síðustu árum líkt og aðrir þættir í rekstri Landspítala (20-25%).“ Telur hann nauðsynlegt að nefndin kalli eftir frekari gögnum án tafar og boði hann og aðra sem þekkja vel til málaflokksins af langri reynslu af vinnu með geðsjúkum á fund.