Kveðja „Takk fyrir samstarfið í 19.083 daga“ sögðu samstarfsmenn Margrétar Eiríksdóttur við hana í gær.
Kveðja „Takk fyrir samstarfið í 19.083 daga“ sögðu samstarfsmenn Margrétar Eiríksdóttur við hana í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Margrét Eiríksdóttir gekk út í sólina og sumarið á hádegi í gær og í stað þess að mæta í vinnuna hjá sama atvinnurekanda árla dags í dag eins og hún hefur gert undanfarin 52 ár hugar hún að sumarbústaðarferð.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Margrét Eiríksdóttir gekk út í sólina og sumarið á hádegi í gær og í stað þess að mæta í vinnuna hjá sama atvinnurekanda árla dags í dag eins og hún hefur gert undanfarin 52 ár hugar hún að sumarbústaðarferð. „Það er tímabært að fara að hvíla sig,“ segir hún um starfslokin.

Í febrúar 1960 hóf Margrét störf á símanum hjá fyrirtækinu H. Benediktssyni hf. í Tryggvagötu 8. Eftir tvo mánuði í starfi byrjaði hún að vinna í bókhaldinu hjá fyrirtækinu og sinnti því starfi í 33 ár eða þar til H. Benediktsson og Nói-Síríus sameinuðust en sömu eigendur áttu fyrirtækin. Þá flutti hún sig yfir í sölu- og markaðsdeild og var þar þangað til hún kvaddi starfsfélagana í gær eða í um 19 ár.

Frænkan of skyld

Tilviljun réð því að Margrét byrjaði 18 ára að vinna hjá H. Benediktssyni eftir að hafa útskrifast úr verslunardeild Hagaskóla og unnið á Silungapolli í tvö ár. „Ég sótti um vinnu hjá Garðari Gíslasyni og fékk hana. Á sama tíma var líka auglýst eftir símastúlku hjá H. Ben. og um þá stöðu sótti frænka skrifstofustjórans. Honum fannst hún of skyld sér þannig að þeir skiptu, sem varð mér til happs. Þá var ekki eins mikið um það og nú að fjölskyldan, vinir og ættingjar fengju vinnu í gegnum klíku.“

Margrét ber vinnustaðnum sérlega vel söguna. „Það er gott að vinna hjá svona góðu fyrirtæki,“ segir hún. „Þegar ég byrjaði voru allir yfirmennirnir þéraðir þangað til þeir buðu manni dús.“ Hún segir að bókhaldið hafi legið vel fyrir sér og því hafi hún farið í það þegar starfsmann vantaði til að sinna því. „Tölur hafa alla tíð verið mínar ær og kýr og öll vörunúmer hjá Nóa-Síríusi eru í hausnum á mér.“

Hvað tekur við hjá Margréti er óvíst. Hún segist alla tíð hafa verið hraust. Reyndar hafi hún greinst með krabbamein fyrir um ellefu árum en farið í lyfjameðferð, sigrast á meininu og verið mætt aftur í vinnu eftir tvo mánuði. „Ég hef alltaf verið mætt á réttum tíma í vinnuna og ekki verið veik í marga daga auk þess sem það þekktist ekki í gamla daga að vera veikur heima út af börnum, þótt það sé hið besta mál,“ segir Margrét. „En ég er ákveðin í að finna mér eitthvað til þess að gera – nóg er í boði.“

Margrét Eiríksdóttir alltaf með sama vinnuveitanda

Hefur gengið í öll störf

Það er ekki algengt að fólk vinni alla starfsævina hjá sama fyrirtæki en Margrét Eiríksdóttir þakkar fyrir það. Hún segist hafa gengið í gegnum miklar breytingar á vinnustaðnum. „Ég hef alltaf hugsað um að ég sé að vinna fyrir fyrirtækið, að gera því gott, þótt það tilheyri ekki endilega mínu starfi. Núna finnst mér eins og fólk sé ráðið í starf og sé það beðið að gera eitthvað annað bendir það á að það sé ekki í starfslýsingunni. Á sínum tíma voru mikil veikindi og þá fór ég í gallabuxur og niður í byggingarvöruverslun hjá H. Ben. og afgreiddi þar ef á þurfti að halda.“

Margrét missti eiginmann sinn, Eirík Þorvaldsson járnsmið, fyrir 16 árum en þau eiga fjögur börn, 10 barnabörn og eitt barnabarnabarn.