Ásgeir Þórðarson fæddist á Húsavík 14. ágúst 1957, hann lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 10. maí 2012.

Útför Ásgeirs fór fram frá Húsavíkurkirkju 19. maí 2012.

Það er lífsins gangur að unga fólkið eignast maka og þar með nýja tengdafjölskyldu, í viðbót við sína eigin. Kjartan Páll okkar fékk að kynnast því fyrir fáeinum árum, þegar hann fór að vera með henni Hörpu frá Húsavík. Honum var strax tekið opnum örmum af Ásgeiri heitnum og Hafdísi. Það fór ekki framhjá neinum að hjá Ásgeiri var velferð fjölskyldunnar í fyrirrúmi. Hann dekraði svo sannarlega við sína nánustu, af mikilli alúð. Þau hjón munaði ekki um að bæta foreldrum og systkinum Kjartans við í hópinn sinn. Við erum afar þakklát fyrir að hafa fengið að njóta einstakrar gestrisni og velvildar þeirra hjóna.

Í návist Ásgeirs leið öllum vel, jafnt ungum sem öldnum. Sama hvort fótbolta eða fiskveiðistjórnun, álver eða atvinnusköpun bar á góma, ræddi Ásgeir það fordómalaust, af áhuga og innlifun. Í heimsókn í Sólbrekkunni var gjarnan byrjað á kaffisopa og meðlæti.

Fljótlega fór Ásgeir að kíkja út um gluggann og niður að sjó. Svo heyrðist: „Jæja, strákar, eigum við ekki að kíkja í smá túr?“ Og það var ekki að sökum að spyrja, litlu frændurnir fengu að fara í veiðiferð á trillunni hans Geira. Á trillunni voru réttu handtökin æfð, nokkrir þorskar dregnir um borð og ungir sjómenn upplifðu ævintýri sem aldrei gleymist.

Á kveðjustundu erum við þakklát fyrir að hafa kynnst þeim öðlingsmanni sem Ásgeir var.

Við minnumst með söknuði og virðingu hans hlýja og þægilega viðmóts. Hugur okkar og samúð er hjá eftirlifandi fjölskyldu; eiginkonu, dætrum, afastelpum og móður.

Þórarinn, Inga, Atli Sveinn, Halla og synir.

Nú kveðjum við einhvern hjartahlýjasta mann sem ég hef kynnst. Frændi minn og pabbi bestu vinkonu minnar. Þó svo að þetta geti á engan hátt sýnst réttlátt þá trúir maður því að á himnum hafi vantað reyndan sjómann til veiða. Þar verðurðu líka í góðum félgasskap með afa Dodda þar sem þið getið getið róið á sjóinn í blíðskaparveðri alla daga og haft það náðuðgt, feðgarnir, eins og þið voruð vanir að hafa það.

Ég man alltaf eftir því þegar við Harpa og fleiri vorum að spila kana, þú komst alltaf og leist á okkur til að athuga hvort að við værum ekki að gera þetta eins og á að gera þetta, enda voru fáir sem stóðust þig í kana.

Ég er þakklátur fyrir tímann sem ég fékk að eiga með þér, þú varst alltaf til í að spila eða leika við okkur krakkana eða hafa ofan af fyrir okkur á einn eða annan hátt, þannig varst þú bara, einhvernveginn gast þú alltaf séð af tíma fyrir okkur. Ég veit að þú munt núna vaka yfir fallegu fjölskyldunni þinni, yndislegu konunni þinni og fallegu dætrum þínum og barnabörnum. Minn hugur er hjá þeim og ég mun halda minningu þinni á lofti með þeim.

Jón Friðrik Þorgrímsson.

Þá er kallið þitt komið, og það kom því miður allt of snemma. Sorgin er sár og söknuðurinn mikill því að í kringum þig geislaði af þér kærleikurinn og umhyggjan.

Frá því að ég hitti ykkur Hafdísi fyrst hefur mér alltaf verið tekið opnum örmum og þú vildir allt fyrir mann gera svo að manni mundi líða vel. Á meðan við Harpa bjuggum fyrir sunnan var samt sem áður mikill samgangur á milli okkar og þið voruð dugleg að renna suður og líta inn hjá okkur. Ef við vorum á sitthvorum landshlutanum gátum við stólað á símtal frá þér þar sem þú spurðir hvort við hefðum ekki örugglega horft á Útsvarið. Einnig áttum við tveir margar góðar stundir fyrir framan sjónvarpið að ræða málin með kaffibolla í hönd og ÍNN malandi í bakgrunninum.

Allt sem ég tók mér fyrir hendur, sama hversu ómerkilegt mér fannst það vera, þá spurðir þú hvernig gengi og hlustaðir af áhuga. Ég mun aldrei gleyma því þegar heilsan þín var orðin mjög slæm og þú eyddir öllum þínum kröftum í það að spyrja mig hvernig gengi á veiðinámskeiði. Í ljósi aðstæðna var þetta það síðasta sem ég var að hugsa um, en fyrir þér skipti það öllu máli að maður væri ánægður og gengi vel.

Elsku Ásgeir, þín er sárt saknað og öllu sem við áttum eftir að gera saman í þessu lífi er ég viss um að við náum í því næsta.

Kveðja,

Kjartan.

Nýlega var jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju elskulegur vinur minn, nafni og frændi Ásgeir Þórðarson. Illvígur sjúkdómur lagði þennan sterklega hrausta mann sem hafði sjómennskuna sem sitt ævistarf. Við nafnarnir brölluðum margt á okkar yngri árum enda stutt á milli æskuheimila okkar og mikill samgangur. Í gegnum lífið höfum við fylgst hvor með öðrum í leik og starfi og notið fjölmargra samverustunda sem nú verða geymdar í huga mér sem dýrgripir væru.

Að þú kæri vinur skulir vera kallaður frá okkur svona allt of ungur er mikill harmur fyrir fjölskyldu þína, vini og samfélagið allt. Dugmikill, áræðinn og ósérhlífinn drengur og vildir alltaf öðrum vel og varst tilbúinn til að takast á við það sem lífið færði þér. Þessir eiginleikar þínir fylgja þér inn yfir landamærin og eflaust bíða þín önnur og krefjandi verkefni. Megi algóður Guð styrkja og styðja ástvini þína í þeirra miklu sorg, minning um góðan dreng lifir áfram í hugum okkar allra.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem.)

Ásgeir Kristjánsson.

Elsku Ásgeir minn, mikið er þetta skrítið líf, nú varst þú kvaddur til annarra starfa annars staðar eða allvega verður maður að trúa því til að halda sönsum yfir þessu öllu saman. Ég var mjög lánsöm að eiga þig sem ferðafélaga og spilafélaga en fyrst og fremst sem vin.

Þær voru ófáar sumarbústaðaferðirnar sem við fórum fjögur saman í og spiluðum eins og enginn væri morgundagurinn, lágum í pottinum með Camusi vini okkar, þetta voru dásamlegar ferðir og margs að minnast. Svo varstu svo duglegur að kalla vini þína heim í veislur, svartfuglsveislu, grásleppuveislu sem ég hlakkaði alltaf svo til að koma í. Hvíldinni varstu örugglega feginn þó kallið hafi komið alltof snemma. Hvíldu í friði, elsku vinur, og minning lifir um góðan og fallegan mann.

Hafdís, Arna, Harpa og fjölskyldur. Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum.

Rósa Borg.