Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Bænin styrkir fjölskyldubönd, samkennd vex, umburðarlyndið eykst og umhyggjan dýpkar. Bænin er góð forvörn og besta áfallahjálpin."

Bænin er hluti af frumþörf mannsins. Dýrmætur arfur, menning, boð um að þiggja það að lifa í tengingu við höfund og fullkomnara lífsins. Bænin er æfing í trú og trausti, von og kærleika. Við nemum staðar, kyrrð kemst á hugann, hjartað opnast, við gerumst einlæg og heiðarleg um stund.

Bænin er kvíðastillandi, streitulosandi, hún skerpir einbeitingu og veitir huganum ró. Kafað er inn í innsta kjarna, hugsanir lagðar á borð. Áhyggjur og þrár, væntingar, framtíð og líf, lagt á altari Jesú Krists, honum til úrlausnar.

Við stingum á kýlum, áhyggjurnar taka að líða á braut og friðurinn flæðir inn. Frelsarinn okkar, Jesús Kristur, hvatti okkur til að vera stöðugt á bæn og halda þannig vöku okkar.

Bænin mýkir hjartað og auðveldar ævigönguna. Hún stillir okkur af svo markmið okkar verða skýrari. Við tökum að sjá Guð, samferðamenn okkar, umhverfið allt og okkur sjálf í nýju ljósi.

Bænin styrkir fjölskyldubönd, samkennd vex, umburðarlyndið eykst og umhyggjan dýpkar. Bænin er góð forvörn og besta áfallahjálpin. Hún er sem græðandi smyrsl, hún líknar og læknar, laðar og leiðir, uppörvar og hvetur. Hún er þannig ekki spurning um orðalag heldur hjartalag.

Bænin er andardráttur lífsins, allt það súrefni sem þarf til þess að komast af. Í bæninni drögum við að okkur fyrirgefninguna og þann frið sem enginn getur gefið annar en Jesús Kristur. Frið sem er æðri öllum skilningi og enginn og ekkert megnar frá okkur að taka. Frið sem sprottinn er af ást Guðs.

Með bæninni upplifum við fegurð lífsins.

Ráð við kvíða og vanlíðan

Þegar myrkrið sækir á, sestu þá niður, kveiktu á kerti, dragðu djúpt andann, signdu þig, í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Dragðu aftur djúpt andann, andvarpaðu, hneigðu hug í bæn og njóttu þess að meðtaka heilagan anda Guðs. Leyfðu honum að leika um þig og fylla þig af friði.

Varpaðu áhyggjum þínum á Jesú, því að hann ber umhyggju fyrir þér. Láttu líða úr þér og hvíldu í hans friði. Þá gáttir himinsins þér opnast, og englarnir taka að stíga niður til þess að umvefja þig, leiða þig og gæta þín.

Og þú munt læra að ná djúpri slökun og öðlast himneskan frið.

Höfundur er rithöfundur.