Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "Félagsmiðstöðvarnar hafa unnið gríðarlega gott starf á undanförnum árum og gegnt mikilvægum þætti í velferðarþjónustu borgarinnar fyrir aldraða og öryrkja."

Í starfsáætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar árið 2010 var sett fram framtíðarsýn í félagsstarfi aldraðra í 15 félagsmiðstöðvum fyrir aldraðra, sem borgin hefur starfrækt með mjög góðum árangri í langan tíma. Þar voru sett fram ýmis markmið um að auka og efla félagsstarfið og um aukna þátttöku notenda í framkvæmd þess. Ein setning í framtíðarsýn velferðarsviðs í félagsstarfinu hljóðaði þannig: „Aukin áhersla á sjálfstýrt og sjálfbært félagsstarf“.

En hver var megintilgangurinn með þessari nýju framtíðarsýn velferðarsviðs þegar hún var sett fram? Það kom síðan í ljós þegar starfshópur á vegum velferðarsviðs skilaði skýrslu sinni í maí 2011. Í framhaldinu var ákveðið að unnið yrði eftir tillögum hópsins í áframhaldandi innleiðingu breytinganna eftir því sem við á, eins og segir í minnisblaði sem lagt var fyrir velferðarráð borgarinnar 16. júní 2011.

Þar segir m.a.: „Megin breytingin sem áætlað er að taki gildi 1. september n.k. (2011) varðar skipulögð námskeið í félagsstarfi. Gert er ráð fyrir aukinni valdeflingu og sjálfbærni í félagsstarfi þannig að dregið verði úr skipulögðum námskeiðum borgarinnar. Þess í stað er gert ráð fyrir að leiðbeinendur geti starfað sjálfstætt að því að setja upp námskeið í takt við þarfir og vilja notenda“. Málið var einungis kynnt á þessum fundi en ekki afgreitt. Málið virðist ekki hafa verið rætt frekar í velferðarráði, borgarráði eða í borgarstjórn.

Sjálfbærni, sjálfsstýring og valdefling

Þessar grundvallarbreytingar eru m.a. réttlættar með yfirlýsingum eins og „aukin áhersla á sjálfstýrt og sjálfbært félagsstarf“ og „gert er ráð fyrir aukinni valdeflingu og sjálfbærni í félagsstarfi“.

Greinilega er verið að reyna að heimfæra þessar breytingar á það félagsmódel, sem Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi, hafa byggt upp af einstökum krafti sl. 14 ár. Það á að byrja með því að segja upp nánast öllum leiðbeinendum í félagsstarfi eldri borgara á 15 félagsmiðstöðvum borgarinnar, sem hafa starfað með mjög góðum árangri í áratugi. Slík vinnubrögð ganga ekki upp.

Fjöldauppsagnir leiðbeinenda

Augljóst er að þessi málatilbúnaður er fyrst og fremst gerður í þeim tilgangi að segja upp flestum þeim leiðbeinendum sem unnið hafa hjá borginni við að halda gangandi skipulögðum námskeiðum og þjónustu á félagsmiðstöðvum borgarinnar og vísa þessu mikilvæga starfi með óljósum hætti að mestu til einhverra annarra. Til að ná fram aukinni sjálfbærni, sjálfstýringu og valdeflingu, eins og þetta er orðað, þarf tíma og aðlögun sem er ekki í fyrirrúmi í þessu máli. Félagsmiðstöðvarnar hafa unnið gríðarlega gott starf á undanförnum árum og gegnt mikilvægum þætti í velferðarþjónustu borgarinnar fyrir aldraða og öryrkja. Enda hefur verið skýrt frá því að á árinu 2010 hafi verið tekin ákvörðun um að framlengja ekki ráðningu leiðbeinenda sem voru eldri en 70 ára á árinu og ráða engan í staðinn.

Hvað leiðbeinendur varðar mun Reykjavíkurborg einungis greiða þjónustu starfsmanns í hálfu stöðugildi á hverri félagsmiðstöð við að standa fyrir skipulögðu félagsstarfi fyrir eldri borgara.

Illa ígrunduð ákvörðun

Síðan segir að auglýst verði eftir sjálfboðaliðum sem vilja styðja félagsstarf og tekið verði upp formlegt samstarf við félagasamtök á borð við Rauða krossinn og Félag eldri borgara um að standa fyrir félagsstarfi í félagsmiðstöðvum borgarinnar. Einnig að leitað verði eftir samstarfi við aðila á borð við kirkjuna og dvalar- og hjúkrunarheimili í hverfum borgarinnar um félagsstarf. Ekki kannast ég við að viðræður við fyrrgreinda aðila hafi átt sér stað en hafi það verið gert væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Þessi stefnumörkun er illa ígrunduð og mikið óþurftarverk. Hún gerir ekkert annað en að draga máttinn úr því mikilvæga félagsstarfi fyrir eldri borgara, sem starfrækt hefur verið með myndarlegum hætti í langan tíma og gefið þúsundum eldri borgara í Reykjavík einstakt tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttu félagsstarfi gegn hófsömu gjaldi. Ég hvet borgaryfirvöld til að endurskoða þessa ákvörðun, sem hefur nánast ekkert verið kynnt þeim fjölda einstaklinga sem hafa nýtt sér þessa þjónustu undanfarin ár.

Höfundur er fyrrv. borgarstjóri.