Sveinbjörn Sveinbjörnsson fæddist í Litlu-Ávík í Árneshreppi 15. október 1944. Hann lést á sjúkraskýlinu í Bolungarvík 12. maí 2012.

Útför Sveinbjarnar fór fram frá Ísafjarðarkirkju 18. maí 2012.

Ástkær frændi minn og vinur er látinn. Að setjast niður við að skrifa minningargrein um hann Sveina eins og hann var alltaf kallaður er ekki einfalt. Sveini var einstakur maður trúr sjálfum sér og öðrum, Sveini var fyrst og fremst Strandamaður sem þótti vænt um hið góða svo og náttúruna þar sem hann ólst upp. Sveini ólst upp í Litlu-Ávík í stórum barnahópi sem öll lifa hann nema móðir mín Halla sem dó langt fyrir aldur fram.

Þegar ég var í sveit hjá ömmu í Litlu-Ávík var Sveini í raun farinn að heiman þó svo að herbergið hans væri alltaf til reiðu þegar hann kom. Það var alltaf mikið fjör í kringum Sveina og þótti honum sérlega gaman að stríða mér og mér svo sem leiddist það ekki, enda fékk hann stríðnina borgaða til baka og þá helst tvöfalda. Það er margs að minnast frá þessum árum hvort sem ég fékk að fara með honum á sjó eða annað, mér er sérlega minnisstætt eitt sumar að það komu margir gestir til ömmu, við Sveini vorum sendir út í hlöðu til að sofa í ullinni sem var þar fyrir, og mikið reyndi hann að segja mér draugasögur það kvöldið og fram á nótt svo að ég mundi nú örugglega þurfa að fara inn til ömmu vælandi um að í hlöðunni geti ég ekki sofið, auðvitað sofnuðum við báðir í mýksta rúmi sem við höfðum nokkurntíma sofið í.

Það urðu mikil þáttaskil í lífi Sveina þegar hann kynnist Ingibjörgu Skúladóttur frá Ljótunnarstöðum, það endaði með því að þau stofnuðu heimili þar og byrjuðu búskap. Hjá þeim var ég mjög mikið bæði mér til skemmtunar svo og að hjálpa við búskapinn eins og ég gat, reyndar bjó ég svo um skeið hjá þeim þegar ég var að vinna í sláturhúsunu á Borðeyri, það var gott að vera hjá þeim Ingu og Sveina, en nú eru þau bæði fallin frá, Inga fyrir nokkrum árum á besta aldri.

Á Ljótunnarstöðum varð Sveini fyrst var við veikindi sín sem hrjáðu hann svo alla tíð en það var Parkinson. Frá Ljótunnarstöðum fluttu þau að Norðurfirði í Árneshreppi og byrjuðu að byggja þar allt upp með miklum sóma, bæði nýtt fjárhús svo og hlöðu vélaskemmu o.fl. Þegar maður hugsar til baka þá sér maður hvað hann Sveini frændi var bæði ákveðinn svo og ósérhlífin í allri þessari uppbyggingu orðinn svo veikur af Parkinson, það eru bara heljarmenni sem mundu þrjóskast svona áfram. Hverjum öðrum en Sveina hefði dottið í hug að setja niður hellur, svo og bönd o.fl. til að hann gæti gengið á milli húsa og í versta falli þurfti svo líka að sparka í hælana á honum svo að hann kæmist af stað, Guð minn góður, hvað hann var erfiður á þessum árum, hann vildi ekki gefast upp og gerði það heldur aldrei.

Í öllum þessum veikindum sínum gafst hann aldrei upp. Aðeins einu sinni á ævinni sá ég Sveina vonsvikinn en það var eftir að hann kom úr aðgerð frá Svíþjóð sem hann svo og við öll vorum svo vongóð um að hann fengi bata við, þó ekki nema svolítinn. Elsku besti vinur minn, nú ert þú kominn á æðri stað og þar færð þú hvíldina sem þú átt svo skilið. Guð mun taka á móti þér opnum örmum. Skúli, Ása, Sveinbjörg og börn, sendi ykkur mínar samúðarkveðjur

Rafn og fjölsk.

Elsku Sveini minn, það er margs að minnast. Þegar þú veiktist kom ég alltaf til ykkar Ingu í Norðurfjörð II í Árneshreppi sem þú seldir ferðafélaginu. Þar eru margar skemmtilegar gönguleiðir, t.d. upp á Drangajökul. Ég kom í Norðurfjörð og hjálpaði til með heyskapinn, ég man alltaf þegar þú og Siggi fóruð á rekann á litlu trillunni með drumba í eftirdragi og fulla trilluna af rekavið, stundum kom ég með á skak. Þú sagðir mér frá þegar þið Guðmundur í Stóru-Ávík funduð sprengiefni í fjörunni og þið gerðuð sprengjuna virka, þú varst fluttur með brunasár með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þegar mamma Halla veiktist var ég hjá ömmu Dísu í Litlu-Ávík fyrstu tvö árin mín og síðan fram að fermingu.

Elsku Skúli, Sveinbjörg og börn, ég sendi ykkur mínar samúðarkveðjur.

Heimir Guðjónsson.