Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Umræða um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefst væntanlega á Alþingi í dag. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur óskað eftir tvöföldum ræðutíma og er búist við löngum umræðum um málið.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Umræða um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefst væntanlega á Alþingi í dag. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur óskað eftir tvöföldum ræðutíma og er búist við löngum umræðum um málið. Þingfundur mun standa fram á kvöld en hlé gert um sjómannadagshelgina.

Nefndarálit þingmanna stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd um veiðigjaldafrumvarpið og breytingartillögur voru lögð fram á Alþingi í gær. Reiknað er með að álitum minnihlutans verði dreift í dag.

Frumvarp um breytingar á lögum um fiskveiðistjórn er enn til umfjöllunar í nefndinni, m.a. tillaga fulltrúa stjórnarflokkanna um óverulegar breytingar á efni frumvarpsins. Fundur hefur verið boðaður í atvinnuveganefnd árdegis. Þar kynnir sérfræðingahópur sem atvinnuveganefnd fékk til að gera úttekt á áhrifum frumvarpanna viðbrögð sín við málunum eins og þau standa nú og svarar spurningum nefndarmanna ásamt fulltrúum sjávarútvegsráðuneytisins.

Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar, sagði í gær óljóst hvort hægt yrði að ljúka umræðu um málið á fundinum í dag. Einar K. Guðfinnsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ekki hægt að afgreiða veiðigjaldafrumvarpið sem sjálfstætt mál. „Áformaðar breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun skapa rammann sem veiðigjaldið þarf að passa í,“ segir Einar og bætir því við að heildarmyndin sé enn ekki skýr.

Ekki samkomulag um þinglok

Formenn þingflokka funduðu með forseta Alþingis í gær til að ræða framhald þingstarfa en þeim átti að ljúka í gær, samkvæmt starfsáætlun. Fundurinn varð árangurslaus, að mati Gunnars Braga Sveinssonar, formanns þingflokks framsóknarmanna. „Hann skilaði okkur frekar aftur á bak en fram á við,“ segir Gunnar. Hann minnti á að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu liðkað til svo hægt væri að hefja afgreiðslu ýmissa mála í gær en stjórnarflokkarnir gæfu ekki annað til kynna en þeir hygðust keyra öll mál stjórnarinnar í gegn, jafnvel mál sem mikið ósætti væri um. Nefndi hann sjávarútvegsfrumvörp og IPA-styrki sem dæmi.

Enn eitt umdeilda málið er fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Það er ekki útrætt. Í gær lögðu sex þingmenn umhverfis- og samgöngunefndar, úr öllum flokkum, fram bókun við afgreiðslu samgönguáætlunar þar sem fram kemur það álit að gerð Vaðlaheiðarganga riðli eðlilegri forgangsröðun framkvæmda. Dýrafjarðar- og Norðfjarðargöng væru framar í röðinni.

Álit sérfræðings

Mjög langt er seilst

„Ljóst er að mjög langt er seilst miðað við heildarpakkann,“ segir Daði Már Kristófersson, dósent við HÍ, um áhrif sjávarútvegsfrumvarpanna eins og þau standa nú.

Daði og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við Háskólann á Akureyri, töldu að nokkur hluti stærstu útgerðarfyrirtækja landsins myndi ekki geta staðið undir veiðigjöldum og upphafleg frumvörp myndu hafa slæm áhrif á sjávarbyggðir.

Daði Már segir að þrátt fyrir breytingar sé veiðigjaldið enn mjög hátt og engar efnislegar breytingar gerðar á frumvarpi um fiskveiðistjórnun. Því standi gagnrýni þeirra óhögguð.