Umdeilt Selfyssingar vildu fá vítaspyrnu á þessu augnabliki þegar Ingvar Þór Kale markvörður Blika virtist fara í Babacar Sarr sem fór meiddur af velli.
Umdeilt Selfyssingar vildu fá vítaspyrnu á þessu augnabliki þegar Ingvar Þór Kale markvörður Blika virtist fara í Babacar Sarr sem fór meiddur af velli. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Selfossi Kristján Jónsson kris@mbl.is Hagur Kópavogsbúa vænkaðist í Pepsí-deildinni í gærkvöldi þegar Breiðablik náði í þrjú stig á Selfossi.

Á Selfossi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hagur Kópavogsbúa vænkaðist í Pepsí-deildinni í gærkvöldi þegar Breiðablik náði í þrjú stig á Selfossi. Þótt Selfyssingar séu nýliðar í deildinni höfðu þeir byrjað betur í fyrstu fimm umferðunum og höfðu safnað sjö stigum en Breiðablik aðeins fjórum.

Að leiknum loknum voru bæði liðin komin með sjö stig því Breiðablik sigraði 2:0. Sú niðurstaða er mikil framför fyrir Breiðablik hvað markaskorun varðar því liðið skoraði aðeins einu sinni í fyrstu fimm leikjunum. Það mark skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson en hann varð að gera sér það að góðu að sitja allan tímann á varamannabekknum í gærkvöldi.

Þungt yfir Selfyssingum

Ekki er hægt að segja annað en að Selfyssingar hafi valdið vonbrigðum í gærkvöldi. Þeir hafa verið nokkuð skemmtilegir í sókninni hingað til en voru nánast bitlausir í gærkvöldi. Vafalaust höfðu þeir hugsað sér gott til glóðarinnar að safna frekari stigum á móti liði sem hafði byrjað illa í deildinni og mögulega með lítið sjálfstraust. Hugsanlega gerði þreyta vart við sig hjá Selfyssingum eftir „hraðmótið“ í upphafi deildarinnar. Leikmenn liðsins virkuðu í það minnsta þungir í gærkvöldi.

Vörnin hélt vel

Hrósa verður varnarmönnum Blika fyrir þeirra þátt í því að halda Selfyssingum í skefjum. Renee Troost og Sverrir Ingi Ingason voru ákveðnir í miðvarðastöðunum. Gísli Páll Helgason hélt hinum snjalla Jóni Daða Böðvarssyni ágætlega niðri en Jón Daði leitar reyndar oft inn á miðjuna í stað þess að fara upp kantinn. Hinum megin var Kristinn Jónsson traustur og var óvenju marksækinn að þessu sinni. Átti ótal skottilraunir og átti stangarskot frá markteig undir lok leiksins. Þar undirstrikuðu fótboltaguðirnir að bakvörðurinn myndi ekki fá að skora þetta kvöldið.

Gerði fimm breytingar

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, getur verið ánægður með að næla í þrjú stig á útivelli og skora tvö mörk. Sérstaklega þegar haft er í huga að hann sýndi kjark og gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu. Hann þarf ekki að sjá eftir þeirri ákvörðun, hvort sem það var helsta ástæðan fyrir sigrinum eða ekki.

Áhugavert verður að fylgjast með framhaldinu í Kópavoginum. Í liðinu er fjöldinn allur af frambærilegum fótboltamönnum en fáir þeirra virðast hafa burði til að snúa leikjum eða draga vagninn. Norðmaðurinn með Balkanskaganafnið, Petar Rnkovic, skoraði í leiknum og það eru góð tíðindi fyrir Blikana.

Rífa Selfyssingar sig upp?

Fróðlegt verður að sjá hvernig Selfyssingar bregðast við síðustu úrslitum. Þeir misstu niður unninn leik á heimavelli í síðustu umferð og töpuðu í gærkvöldi. Spurning hvort stigin í þessum leikjum eigi eftir að reynast dýr þegar upp verður staðið ef Selfoss verður í fallbaráttu eins og árlega spáin hljóðaði upp á.

Selfoss – Breiðablik 0:2

Selfossvöllur, Pepsi-deild karla, 6. umferð, fimmtudag 31. maí 2012.

Skilyrði : Sól, hlýtt en talsverð gola. Völlurinn mjög góður.

Skot : Selfoss 7 (3) – Breiðab. 13 (7).

Horn : Selfoss 6 – Breiðablik 5.

Lið Selfoss : (4-3-3) Mark : Ismet Duracak. Vörn : Ivar Skjerve, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Endre Ove Brenne, Andri Freyr Björnsson. Miðja : Babacar Sarr (Ingólfur Þórarinsson 70.), Robert Sandnes, Ólafur Karl Finsen (Joe Tillen 54.). Sókn : Jon André Röyrane (Moustapha Cissé 74.), Viðar Örn Kjartansson, Jón Daði Böðvarsson.

Lið Breiðabliks : (4-3-3) Mark : Ingvar Þór Kale. Vörn : Gísli Páll Helgason, Renee Troost, Sverrir Ingi Ingason, Kristinn Jónsson. Miðja : Olgeir Sigurgeirsson (Sindri Snær Magnússon 83), Finnur Orri Margeirsson, Andri Rafn Yeoman (Jökull I. Elísabetarson 75.). Sókn : Haukur Baldvinsson, Petar Rnkovic, Árni Vilhjálmsson (Rafn Andri Haraldsson 70.).

Dómari : Þóroddur Hjaltalín jr. – 6.

Áhorfendur : 746.

Þetta gerðist á Selfossvelli

0:1 34. Hornspyrna frá vinstri. Renee Troost skallaði inn á markteig Selfyssinga og þar var Árni Vilhjálmsson mættur og potaði boltanum í netið.

0:2 72. Ismet Duracak, markvörður Selfyssinga, fékk boltann í eigin vítateig og ætlaði að þruma honum fram völlinn. Ekki vildi betur til en svo að boltinn hafnaði annaðhvort í varnarmanni Selfoss eða sóknarmanni Breiðabliks. Í það minnsta féll hann þaðan beint fyrir fætur Petars Rnkovic sem lék inn í teiginn hægra megin og skoraði með hnitmiðuðu skoti í nærhornið.

STÖNG 88. Boltinn barst til Kristins Jónssonar á markteig Selfyssinga, vinstra megin við markið, en Kristinn renndi boltanum í stöngina fjær úr fremur þröngu færi.

Gul spjöld:

Sandnes (Selfossi) 24. (sparkaði boltanum frá brotsstað), Röyrane (Selfossi) 57. (brot), Stefán (Selfossi) 68. (mótmæli), Skjerve (Selfossi) 87. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Babacar Sarr (Selfossi)

Viðar Örn Kjartansson (Selfossi)

Gísli Páll Helgason (Breiðabliki)

Sverrir Ingi Ingason (Breiðabliki)

Renee Troost (Breiðabliki)

Kristinn Jónsson (Breiðabliki)

* Babacar Sarr , miðjumaðurinn sterki í liði Selfoss, þurfti að fara af leikvelli vegna ökklameiðsla á 70. mínútu. Hann lá eftir í grasinu eftir að hafa lent í samstuði við Ingvar Þór Kale , markvörð Breiðabliks. Selfyssingar heimtuðu vítaspyrnu og höfðu nokkuð til síns máls en dómarinn Þóroddur Hjaltalín jr. var ekki sammála heimamönnum.

* Ólafur H. Kristjánsson , þjálfari Breiðabliks, gerði hvorki fleiri né færri en fimm breytingar á liði sínu. Ingvar Þór Kale markvörður og Gísli Páll Helgason léku sinn fyrsta leik á tímabilinu og Olgeir Sigurgeirsson var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn. Þá komu Haukur Baldvinsson og Petar Rnkovic inn í liðið á ný en þeir sátu á bekknum síðast. Sigmar Ingi Sigurðarson markvörður, Jökull I. Elísabetarson, Rafn Andri Haraldsson og Þórður S. Hreiðarsson settust allir á bekkinn og Arnar Már Björgvinsson var ekki í leikmannahópnum.

* Logi Ólafsson , þjálfari Selfoss, tefldi fram sama byrjunarliði og í leiknum við Grindavík viku áður, sem endaði 3:3.

* Petar Rnkovic skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Breiðablik, en þó var þetta ekki hans fyrsta mark á Íslandsmótinu. Norðmaðurinn spilaði nefnilega með KS á Siglufirði í 2. deild árið 2002 og skoraði þá átta mörk í 13 leikjum í deildinni.

*Breiðablik hefur nú unnið allar þrjár viðureignirnar við Selfoss í efstu deild. Kópavogsliðið vann báða leiki liðanna árið 2010, þá 3:1 á Selfossi og 3:0 í Kópavogi.

*Á mbl.is/sport er að finna myndbandsviðtöl við þá Viðar Örn Kjartansson, Selfossi, og Árna Vilhjálmsson, Breiðabliki.

• Morgunblaðið gefur leikmönnum einkunn fyrir frammistöðu sína. Eitt M fyrir góðan leik, tvö M fyrir mjög góðan leik og þrjú M fyrir frábæran leik.

• Dómarar fá líka einkunn fyrir frammistöðu sína, frá 1 til 10.