Hallgeir Jónsson
Hallgeir Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá Árnýju Jóhannesdóttur og Hallgeiri Jónssyni: "Stofnfundur Ungliðahreyfingar Samstöðu var haldinn þann 26. apríl síðastliðinn. Nú hefur verið aukið við nafn hreyfingarinnar sem heitir Skerpa."

Stofnfundur Ungliðahreyfingar Samstöðu var haldinn þann 26. apríl síðastliðinn. Nú hefur verið aukið við nafn hreyfingarinnar sem heitir Skerpa. Í stjórn hennar sitja sex manns og er megintilgangur hennar að halda á lofti sjónarmiðum ungs fólks í íslensku samfélagi. Í stjórninni er fólk á aldrinum 16-29 ára og markmið okkar í stjórninni er að efla áhuga ungs fólks á málefnum sem snerta þau sjálf eins og málefni námsmanna, atvinnumál og húsnæðismál.

Við Íslendingar erum svo lánsöm að búa við aðstæður sem eru betri en víðast hvar annars staðar. Á undanförnum árum hefur þó orðið æ erfiðara fyrir ungt fólk að fá atvinnu við hæfi hér á landi og því hafa margir til dæmis ílengst erlendis eftir nám. Þá er leiguverð hærra en nokkru sinni fyrr og þess vegna mjög erfitt fyrir ungt fólk að eignast eigið húsnæði. Það eru því mörg mál sem ungt fólk stendur frammi fyrir þegar litið er til framtíðarinnar.

Félagar Skerpu vilja skapa ungu fólki möguleika til að nýta þekkingu sína og reynslu á Íslandi, að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins og að auka velsæld þeirra. Við viljum berjast gegn virðingarleysi gagnvart ungu fólki og einnig að unga fólkið fái tækifæri þegar það sækir um vinnu. Á Íslandi er hefð fyrir því að ef einhver vill fá tækifæri á vinnumarkaði þá heldur sá hinn sami til ættingja eða vinar og fær á þann hátt vinnu. Þetta hefur valdið því að fólk er ekki lengur metið að eigin verðleikum og verður þessu að linna.

Í íslensku samfélagi má oftar en ekki sjá að ungt fólk hefur misst áhuga á pólitík þar sem það telur harla ólíklegt að hlustað verði á það. Þessu viljum við breyta og ætlum meðal annars að standa fyrir stjórnmálaskóla 4. júní nk. Þar verður boðið upp á leiðsögn í framsögn og öðru sem tengist virkri borgaralegri þátttöku. Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar, mun jafnframt kynna stefnumál Samstöðu og fram fara opnar og frjálslegar umræður um ýmis samfélagsmál sem brenna á fundargestum. Áhugasamir eru hvattir til að láta sjá sig.

Við hlökkum til að takast á við þetta stóra verkefni og bjóðum alla á aldrinum 16-35 ára velkomna í ungliðahreyfinguna Skerpu.

ÁRNÝ JÓHANNESDÓTTIR

nemandi í Menntaskólanum

í Reykjavík

HALLGEIR JÓNSSON,

starfsmaður í Örtækni.

Frá Árnýju Jóhannesdóttur og Hallgeiri Jónssyni