Glæsileg Audrey Hepburn á hátindinum - einfaldlega óaðfinnanleg.
Glæsileg Audrey Hepburn á hátindinum - einfaldlega óaðfinnanleg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fáar konur hafa verið jafnmörgum kynsystrum sínum jafnvíðtæk fyrirmynd og Audrey Hepburn gegnum tíðina. Skyldi engan undra því hún var gullfalleg jafnt innan sem utan og iðulega óaðfinnanlega klædd í ofanálag.

Audrey Hepburn fæddist hinn 4. maí árið 1929 í Brussel. Faðir hennar var Englendingur af austurrísku bergi brotinn, móðirin hollensk barónessa. Audrey litla fékk snemma ást á ballett og bóklestri og fylgdi henni alla tíð arfur þessara tómstunda, en hún var skarpgreind og bar sig ákaflega virðulega, tindilfætt og tággrönn. Sökum vannæringar á yngri árum þótti hún ekki líkleg til afreka sem ballerína en þess í stað afréð hún að snúa sér að kvikmyndum og 22 ára fékk hún fyrsta smáhlutverkið í kvikmynd.

Stjarna á einni nóttu

Næstu tvö árin lék hún misstór hlutverk í nokkrum kvikmyndum ásamt því að vekja nokkra athygli á sér í uppsetningum á Broadway. Árið 1953 varð hún hins vegar stórstjarna á einni nóttu þegar hún lék í gamanmyndinni Roman Holiday á móti Gregory Peck. Myndin, sem segir frá prinsessunni Önnu sem stingur af frá opinberum skyldum í skjóli nætur til að skoða sig um í Rómarborg óáreitt og nýtur til þess leiðsagnar bandarísks blaðamanns, sló rækilega í gegn og Hepburn hlaut Óskarinn, BAFTA-verðlaunin og Golden Globe sem besta leikkona ásamt því að samtök kvikmyndagagnrýnenda í New York verðlaunuðu hana sömuleiðis. Ferillinn var í framhaldinu nánast ein samfelld sigurganga þar sem hver úrvalsmyndin rak aðra; Sabrina (1954), War and Peace (1956), Love In the Afternoon (1957) og Funny Face (1957). Árið 1961 kom hins vegar að myndinni sem rækilega markaði skil á ferli hennar og hlutverkinu sem hún er vafalaust þekktust fyrir.

Morgunverðurinn breytti öllu

Myndin er vitaskuld Breakfast at Tiffany's, hlutverkið Holly Golightly. Blake Edwards leikstýrði myndinni eftir nóvellu Trumans Capotes og Hepburn varð samstundis fyrirmynd tískumeðvitaðra kvenna um heim allan enda er hún fullkomlega ómótstæðileg í byrjunaratriðinu í hinum klassíska litla, svarta kjól sem hannaður var af sjálfum Hubert de Givenchy. Samstarf þeirra náði yfir margar fleiri myndir hennar og aldrei bar skugga á vináttu þeirra og gagnkvæma virðingu. Það sem eftir lifði áratugarins lék Hepburn í fjölmörgum sígildum myndum, en meðal þeirra helstu má nefna Charade (1963) með Cary Grant, My Fair Lady (1964) með Rex Harrison, How To Steal a Million (1966) með Peter O'Toole og spennumyndina Wait Until Dark (1967) þar sem hún leikur blinda konu sem þarf að kljást við glæpamenn sem ljúga sig inn á heimili hennar í leit að verðmætum.

Hjálparstarf í bland við bíó

Um þetta leyti fór Hepburn í auknum mæli að snúa sér að góðgerðarstörfum og varði hún meiri tíma í störf fyrir UNICEF en fyrir framan kvikmyndavélarnar það sem hún átti ólifað. Hún ferðaðist víða um heim og barðist sérstaklega gegn hungursneyð í Afríku og víðar. Þótt hún hafi aldrei rætt það í viðtölum hefur líkum verið leitt að því að ástæðuna fyrir brennandi áhuga hennar á mannúðar- og hjálparstörfum megi rekja til þess að sem barn í Hollandi á stríðsárunum horfði hún upp á lestir fullar af fólki renna áleiðis til útrýmingarbúða, um leið og faðir hennar, sem reyndar yfirgaf fjölskylduna í kjölfar framhjáhalds er Audrey var barnung, var hallur undir málstað nasista. Fyrir störf sín í þágu UNICEF hlaut Hepburn margvíslegar viðurkenningar, meðal annars Frelsisorðuna sem forseti Bandaríkjanna veitir. Audrey Hepburn lést í janúar 1993, 63 að aldri, eftir stutta sjúkrahúslegu af völdum sjaldgæfs afbrigðis af krabbameini. Hún hafði þá nýlega lokið hjálparleiðangri til Sómalíu. Leiði hennar er í litlum kirkjugarði í smábænum Tolochenaz í Sviss og var margt fyrirmenna viðstatt útförina. Arfleifð hennar sem fyrirmynd lifir hins vegar um ókomna tíð enda sér víða í þróunarlöndum merki starfa hennar, og um leið var fatastíll hennar fullkomlega sígildur; látlaus, fágaður og óaðfinnanlegur. jonagnar@mbl.is