[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þar sem veðráttan hér á landi á sumrin er vægast sagt frábrugðin því sem við eigum að venjast um vetur, þá fylgir að fatastíllinn er óneitanlega mismunandi milli árstíða.
Þar sem veðráttan hér á landi á sumrin er vægast sagt frábrugðin því sem við eigum að venjast um vetur, þá fylgir að fatastíllinn er óneitanlega mismunandi milli árstíða. Haust- og vetrartískan er skemmtileg að því leyti að þá gefst kostur á að klæðast lagskiptum stíl, efnismiklum flíkum og notalegum yfirhöfnum, en um sumarið er vitaskuld allt léttara og einfaldara. Sumir sjá meira að segja hálfpartinn eftir kuldanum því sumarið gefur ekki jafn mörg færi á stílæfingum. Sem betur fer eiga sumarmánuðirnir á Íslandi það til að taka rysjóttar syrpur og þá er gott að eiga sportlegan tweed-jakka, notalegan léttan trefil og þunna peysu utan yfir skyrtuna. Það gildir sem fyrr, hverju sem þú kýst að klæðast, að missa ekki sjónar á því hverju þér líður vel í. Það skemmtilegasta við sumarið er að litafrelsið er meira enda amast enginn heilvita maður við fallegum litum þegar sólin skín á heiðum himni. Tökum af skarið, finnum litinn okkar í sumar og klæðumst því sem fer okkur vel. Það er vitaskuld engin þörf á hvínandi stílbyltingu – þetta snýst bara um vellíðan. Og þeir sem vilja síður skera sig úr fá sér bara rauðar buxur í takt við faraldurinn. Gleðilegt fatasumar!