Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans eru nú aðeins einum leik frá því að vinna þýsku 1. deildina í handknattleik með fullu húsi stiga, eftir að þeir sigruðu botnliðið Hildesheim auðveldlega á útivelli í gærkvöld, 35:24.

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans eru nú aðeins einum leik frá því að vinna þýsku 1. deildina í handknattleik með fullu húsi stiga, eftir að þeir sigruðu botnliðið Hildesheim auðveldlega á útivelli í gærkvöld, 35:24.

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel en Dominik Klein var markahæstur með sjö mörk og þeir Kim Andersson og Momir Ilic gerðu sex mörk hvor. Staðan í hálfleik var 19:13, Kiel í hag.

Kiel er þá með 66 stig eftir 33 leiki, ellefu stigum meira en Flensburg sem er í öðru sætinu, og lokaleikur liðsins er á heimavelli gegn Gummersbach á laugardaginn. Vinni Kiel þann leik líka er einstakt afrek í höfn hjá Alfreð og hans mönnum – að vinna sterkustu deild í heimi án þess að tapa stigi.

Leikmenn Kiel komu nánast beint í leikinn frá Mallorca en þangað skelltu þeir sér í smáfrí eftir að hafa sigrað Atlético Madrid í úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu á sunnudaginn. vs@mbl.is