Guðrún Karlsdóttir fæddist á Hárlaugsstöðum í Ásahreppi 8. mars 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 8. maí 2012.

Jarðarförin fór fram frá Guðríðarkirkju 18. maí 2012.

Gegnum dauðans skugga-ský

skil ég burtför þína.

Guð hefur vantað gimstein í

geislakrónu sína.

(Sigurður Kristmann Pálsson)

Við viljum kveðja móður okkar, Guðrúnu Karlsdóttur, sem kvatt hefur þetta jarðlíf eftir nokkurt veikindastríð, sem hún þó tók með miklu jafnaðargeði. Þegar spurt var hvernig hún hefði það var svar hennar yfirleitt: „Mér líður vel, það er ekkert að mér.“ En þannig var mamma, aldrei að kvarta og hugsaði fyrst og fremst um að hjálpa öðrum áður en röðin kom að henni sjálfri.

Sem elsta barn foreldra sinna á mannmörgu sveitaheimili lærði hún fljótt að taka til hendinni og hjálpa móður sinni við húsverkin. Eftir að skólagöngu lýkur fer hún fljótlega að vinna utan heimilisins og verður matráðskona og sér um stór mötuneyti, þótt ung sé að árum. Hún hafði gaman af að búa til góðan mat og nutu fjölskylda og aðrir ættingjar þess í hinum ýmsu matarboðum.

Með manninum sínum, föður okkar, honum Jóni Vigfússyni, starfaði hún í mörg ár á Akurhól, sem var vistheimili fyrir áfengissjúklinga, og síðan í Víðinesi á Kjalarnesi, þar sem Jón var forstöðumaður til margra ára. Þau voru vakin og sofin yfir allri starfseminni á þessum stöðum og reyndu allt sem þau gátu til að hjálpa þessu fólki að komast í gegnum áfengisvandann.

Ekki var að tala um bara átta stunda vinnudag; verkin varð að vinna hvað sem tímanum leið. Álagið var mikið og oft held ég að mamma hafi verið þreytt, því hún þurfti líka að hugsa um sín eigin börn.

Þrátt fyrir mikið vinnuálag fann mamma sér þó tíma til að stunda sín áhugamál, sem voru hestamennska, hannyrðir og lestur góðra bóka.

Hún var mikil hestakona og átti fallega hesta og hafði gaman af að skreppa í útreiðartúr, sem hún og ósjaldan gerði. Fóru þau hjónin líka þónokkrum sinnum með vinahóp í langar hestaferðir og nutu fegurðar íslenskrar náttúru.

Hannyrðir stundaði mamma alla tíð og var snillingur í höndunum, sama á hverju hún tók. Þau voru ófá námskeiðin, sem hún fór á til að læra eitthvað nýtt og fegra með hinum nýgerðu hlutum heimili sitt. Þegar hún hætti svo að vinna utan heimilisins fór hún að prjóna lopapeysur fyrir Álafossverslunina í Mosfellsbæ og prjónaði að jafnaði tvær eða þrjár peysur á viku.

Ekki má gleyma þeirri miklu ánægju, sem hún hafði af að lesa góðar bækur. Trúlega hefur hún lesið meirihlutann af þeim bókum, sem gefnar voru út á ári hverju, og fastagestur var hún á bókasafni Mosfellsbæjar.

Mamma og pabbi/Jón voru samtaka hvað gestrisni varðar og mikið gott að sækja þau heim. Alltaf opið hús og allir velkomnir hvenær sem var og enginn fór svangur af þeirra heimili.

Þess nutu sérstaklega þeir fjölskyldumeðlimir, sem búsettir voru erlendis og áttu alltaf vísan samastað á þeirra heimili í Dalatanganum ef þeir komu til landsins.

Með þessum orðum viljum við systkinin þakka þér, elsku mamma, fyrir alla þína ást og umhyggju í gegnum tíðina. Fyrir öll bréfin, sem þú sendir mér reglulega til Þýskalands með fréttum af ættingjum, vinum og fréttum af þjóðmálum og hjálpuðu mér við að halda tengslum við föðurlandið.

Blessuð sé minning þín.

Edda, Stefán og Kolbrún.