Garðar Skagfjörð Björgvinsson fæddist í Reykjavík 3. janúar 1979. Hann lést á heimili sínu 22. apríl 2012.

Jarðarför Garðars fór fram í kyrrþey.

Mannlegu valdi eru takmörk sett, hið óhugsandi stundum óumflýjanlegt. Það er erfiðara en orð fá lýst að kveðja Garðar, tengdason minn, 33 ára að aldri. Hversdagsleg orð duga vart því Garðar var allt annað en hversdagslegur. Hann var einstakur karakter og tókst iðulega að hrinda því sem viðbúið var, í lífi sínu, veikindum og leiðarlokum. Styrkur hans og baráttuþrek eiga sér fáa líka.

Garðar og Andrea dóttir mín hittust fyrir sex árum og urðu strax óaðskiljanleg. Í ljósi veikinda hans tóku þau sér tíma til að ákveða sig um sambandið en niðurstaðan var fyrirfram gefin. Þau nutu lífsins saman en ekki síður hvort annars þegar á reyndi. Línur úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran hafa síðustu vikur og mánuði öðlast dýpri merkingu:

Og sá einn er stór, sem með ást sinni breytir þyt vindsins í ljóð og söng.

Að vinna er að sýna ást sína í verki.

Það er vandaverk að vera manneskja: Að vinna með og úr þeim aðstæðum sem uppi eru. Að skapa heimili, gleði og líf en vinna líka úr mótlæti og áföllum. Að rækta ást sem breytir þyt vindsins í ljóð og söng. Að takast á við líf og dauða. Andrea og Garðar náðu þrátt fyrir ungan aldur að vera hvort öðru styrkur þegar lífið sjálft lá undir. Það var fallegt að horfa á samspil þeirra, þau voru stór.

Garðar var lífsglaður dugnaðarforkur, undi illa iðjuleysi en naut sín sem gestgjafi og þegar hann gerði fólkinu sínu gott. Við kynntumst þeim eiginleikum snemma, ef veikindi steðjuðu að sýndi Garðar hug sinn, hann þekkti þau spor manna best. Umhyggjan var einlæg, hjartalagið einstakt, hann var glettinn, skemmtilegur og afar hreinskiptinn.

Fyrir þremur árum veiktist Garðar alvarlega og ágerðust veikindin síðasta árið. Oft stóð líf hans tæpt en þá kom þrautseigja hans best í ljós. Hann spyrnti fast á meðan viðspyrnu var að fá en að lokum fann hann að fótfestan var haldlítil. Hann sýndi þá fádæma reisn og hugrekki, valdi að gefa sjálfum sér og fólkinu sínu kveðjustund, vera heima og njóta fylgdar ástvina til enda. Ég er óendanlega þakklát fyrir umhyggju hans þá því hann notaði tækifærið til að hvetja Andreu áfram til lífsins eftir að hann hyrfi á braut.

Gleði og sorg eru samtvinnuð, dýpsta sorg oft nátengd mestu gleði. Á apríldegi var Andrea ásamt fjölskyldu Garðars við hlið hans og hið óumflýjanlega blasti við.

Hún var svo glöð því Garðar átti góðan dag, miklu betri en búist var við, og yfir hvað hann væri einstakur og hver mínúta með honum dýrmæt. Gleði og sorg voru samferða þann dag. Garðar skildi þannig við Andreu sína, og hún við hann, að í sorginni búa þakklæti og gleði sem milda hana. Í Spámanninum stendur:

Þegar ástin kallar þig, þá fylgdu henni,

þótt vegir hennar séu brattir og hálir.

Og láttu eftir henni, þegar vængir hennar umvefja þig, þótt sverðið, sem falið er í fjöðrum þeirra, geti sært þig.

Og þegar hún talar til þín, þá trúðu á hana.

Ég kveð Garðar með þakklæti fyrir samfylgdina og kærleika hans til dóttur minnar og fjölskyldu. Við pössum upp á Andreu eins og við lofuðum.

Soffía Guðný

Guðmundsdóttir.

Elsku Garðar minn.

Nú þegar lífi þínu er lokið og þú hefur kvatt þennan heim tekur við gífurlegur missir og sorg. Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn og óskandi að tíminn með þér væri lengri. En þrátt fyrir sorgina býr gleði og gífurlegt þakklæti innra með mér. Óskaplega vorum við heppin að þú varðst partur af fjölskyldunni. Að þú tókst saman við systur mína og ég fékk tækifæri til að kynnast þér var guðsgjöf sem ég verð ávallt þakklát fyrir enda varstu einstakur í alla staði.

Þú varst sannarlega engum líkum. Gerðir allt á þinn veg og með þínum hætti, og þar skipti álit annarra engu máli. Þú komst alltaf hreint fram, sagðir hlutina án allra málalenginga, varst einstaklega hreinskilinn og óhræddur við það. Þú varst bara Garðar, fólk tók þér eins og þú varst eða ekki. Einstök umhyggjusemi einkenndi þig og fjölskylda þín og vinir voru þér alltaf ofarlega í huga.

Ég gleymi aldrei símtalinu fyrir um 4 árum þegar þú baðst mig um að passa þig. Þú spurðir mig hvort ég gæti ekki komið til ykkar Andreu, gist nokkrar nætur, passað þig og veitt þér félagsskap. Þú varst nýkominn úr aðgerð og Andrea í vinnu á daginn. Ég tók glöð pössunarstarfinu en gantaðist með að þú fengir litlu systur unnustu þinnar til að passa þig, fullorðinn mann. Svarið var að sjálfsögðu glettið og ósköp hreinskilið. Fyrst Andrea gat ekki séð um þig var eins gott að önnur hvor systir hennar gerði það. Á þessum dögum eyddum við góðum stundum saman, horfðum á myndir, spiluðum tölvuleiki og spjölluðum um allt og ekkert. Það var ávallt gott að koma til ykkar og þú varst frábær gestgjafi.

Þú skipaðir stóran sess á 20 ára afmælinu mínu. Þú sem lást þá uppi á spítala, bauðst mér íbúðina fyrir ógleymanlega afmælisveislu. Ég fór svo í heimsókn til þín á spítalann á afmælisdaginn þar sem ég féll í yfirlið. Hvaða sjúklingur annar en Garðar stekkur upp og lætur gestinn fá sjúkrarúmið sitt? Þarna rankaði ég við mér í rúminu þínu með alla athygli hjúkrunarfólksins en sjúklingurinn stóð og beið rólegur á meðan ég jafnaði mig. Þú stríddir mér oft yfir þessu síðar, passaðir samt upp á mig og varst stoltur af mér í heimsóknum þar sem ég hrifsaði ekki af þér spítalarúmið.

Er ég kveð þig, elsku Garðar, langar mig að þakka fyrir allt sem þú hefur gefið mér og fjölskyldunni, fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Takk fyrir að stimpla þig jafn rækilega inn í líf okkar og þér einum var lagið. Takk fyrir dýrmætu stundirnar sem við fengum að njóta saman, á bæði ljúfum og erfiðum tímum. Takk fyrir að taka alltaf vel á móti okkur, hvort sem það var á spítalanum eða heima. Takk fyrir alla þá umhyggju og ást sem þú sýndir okkur.

Síðast en ekki síst – takk fyrir að hafa gert hana Andreu þína hamingjusama og deila með henni óbilandi ást. Það er dýrmætasta gjöfin sem þú gafst mér.

Garðar, þú auðgaðir líf okkar, gafst okkur gleði og hamingju og sýndir okkur styrk og hugrekki sem við vissum ekki að væri til. Fyrir það munt þú aldrei gleymast heldur ávallt lifa í hjörtum okkar.

Takk fyrir að vera þú.

Helga Lára.

Garðar var besti frændi minn, hann var skemmtilegur, fyndinn og góður. Hann kenndi mér ýmislegt eins og að skjóta af boga.

Garðar og Andrea fóru einu sinni með mig út á sjó að veiða og við veiddum í kringum 35 fiska en við fengum einn gefins. Við fórum líka á veitingastað þar sem Garðar kenndi mér trix með penna og bréfi.

Ég fékk stundum að leika við Garp sem var brúnn hvolpur með löng eyru. Hann var algjör kjáni og mjög sætur.

Þegar ég lenti á spítala þá komu Andrea og Garðar í heimsókn með tvær „Ótrúlegt en satt“ bækur og allar seríurnar af „Futurama“. Ég var mjög glöð af því að Garðar vissi hvernig það væri að vera á spítala.

Ég kom líka til hans á spítalann, hann var svo sterkur og hugrakkur. Mér þótti svo vænt um hann og hann var hetjan mín að geta þolað þetta allt. Hann var alveg æðislegur og duglegur.

Snædís.