Hlustað Engu er líkara en að krummarnir séu að hvísla einhverju að Gerði þar sem hún heimsótti þá á sýningunni.
Hlustað Engu er líkara en að krummarnir séu að hvísla einhverju að Gerði þar sem hún heimsótti þá á sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allir þekkja krumma sem getur verið stríðinn, uppátækjasamur, glysgjarn, grimmur, vitur, tryggur og góður. Sumir segja hann boðbera válegra tíðinda en aðrir leggja sig fram um að gefa honum mat, af því Guð launar fyrir hrafninn.

Allir þekkja krumma sem getur verið stríðinn, uppátækjasamur, glysgjarn, grimmur, vitur, tryggur og góður. Sumir segja hann boðbera válegra tíðinda en aðrir leggja sig fram um að gefa honum mat, af því Guð launar fyrir hrafninn. Mörg orðatiltæki eru tengd honum og um tuttugu ólík hljóð koma úr barka hans.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þeir voru alltaf á sveimi í kringum mig og að krunka hér utan við húsið mitt, og þess vegna valdi ég að gera um þá verkefni. Ætli þeir hafi ekki verið að minna á sig,“ segir Gerður Guðmundsdóttir um krumma tvo sem eru nágrannar hennar, en hún setti nýlega upp sýningu á Árbæjarsafni sem heitir Krummakrunk – um hrafninn í íslensku samfélagi. Sýningin verður opin í allt sumar en hún er hluti af lokaverkefni Gerðar í hagnýtri menningarmiðlum við HÍ. „Sýningin er hugsuð fyrir börn en hún er ekki síður áhugaverð fyrir fullorðna. Börnin fá að leggja sitt af mörkum, þeim stendur til boða að teikna mynd af krumma og þær myndir verða hluti af sýningunni. Þau geta líka sett á sig heyrnartól og hlustað á hljóðin hans krumma sem eru ótrúlega margvísleg, en ég tók þau upp sjálf í þessum tveimur utan við heimili mitt,“ segir Gerður og bætir við að á opnuninni hafi óvænt mætt einn flögrandi krummi. „Hann krunkaði með mér og ég hafði sérstaklega gaman af því.“

Holdbori, viti, krákur, spori

Krummi er fugl Hrafna-Flóka og fugl landnáms Íslands. „Hann er stór hluti af íslenskri menningu og um hann eru til ótal sögur, bæði þjóðsögur og nýrri sögur. Í sögunum er hann oft gáfaður bjargvættur og forspár en hann getur líka verið illgjarnt fól og hrafnsgall þurfti til að framkvæma misgóða galdra. Gamlar krummavísur eru langlífar og þær eru enn sungnar, flestir Íslendingar kunna Krummi svaf í klettagjá og Krummi krunkar úti. Við notum líka í hversdaglífinu orðtök sem sótt eru til krumma, án þess að við séum eitthvað að velta því fyrir okkur. Til dæmis þegar við segjum börnin vera í krummafót, þegar við segjum einhvern vera nátthrafn sem vakir um nætur, þegar við segjum einhvern vera eins og úfinn hrafnsunga þegar hárið stendur út í loftið, og svona mætti lengi telja. Krummi á sér mörg nöfn, t.d. holdbori, óværi, hornklofi, viti, krákur, korpur, spori og árflognir.“

Flinkur að herma eftir

Gerði þykir vænt um hversu hrafninn er mikið í samfélagsumræðunni. „Í vetur voru til dæmis sagðar fréttir af því að krummapar hefði gert sér laup skammt frá rafmagnsskólabjölluna í Austurbæjarskóla á meðan börnin voru í burtu í páskafríi. Hún var tekin úr sambandi og gamla bjallan tekin í gagnið, svo krummi hefði frið í hreiðri sínu. Þetta sýnir vel að fólk tekur tillit til hans og vill hafa hann. Einnig voru fréttir af því að krummi hefði gert sér hreiður í Hörpunni og við fáum alltaf öðru hverju fréttir af krummum sem fólk reynir að spekja og temja. Hann er mikil félagsvera og flinkur að herma eftir. Þegar ég heyri í honum hugsa ég: Hvað er hann að segja mér núna?“

Gáfaður ef skilur hrafnamál

Laupur er nafn yfir hrafnshreiður, en Gerður bjó til eitt slíkt til að hafa á sýningunni. „Ég fór út í Selvog og náði mér í efnivið eftir að hafa viðað að mér upplýsingum á Náttúrufræðistofnun um það úr hverju laupur er gerður, en það getur verið mjög fjölbreytt efni. Hrafnarnir viða líka að sér allskonar glingri í hreiðrin sín og fyrir vikið eru til margar sögur af þjófóttum krummum. Til er sönn saga af hröfnum sem stálu lengi pósti úr póstkassa fólks og þeir notuðu niðurrifinn pappírinn í gerð laupsins,“ segir Gerður og bætir við að sér finnist skemmtilegt að hjátrú tengd hröfnum skuli enn lifa. „Mörgum stendur ekki á sama hvort krummi flýgur með þeim eða á móti þeim. Hið fyrrnefnda boðar fararheill en hitt feigð,“ segir Gerður og bætir við að einhverjir séu sagðir skilja málið hans krumma og þeir hinir sömu álitnir sérlega gáfaðir.