Innflytjandi í íslensku letri Þornið á rætur að rekja til Englendinga.
Innflytjandi í íslensku letri Þornið á rætur að rekja til Englendinga. — Árnastofnun/Jóhanna Ólafsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlegi dagur þornsins verður haldinn í 18. sinn á morgun. Þess verður þá minnst að 9. júní 1994 fékkst bókstafurinn þ viðurkenndur af vinnuhópi evrópska staðlaráðsins sem 27. stafurinn í latneska stafrófinu undir Unicode-staðlinum.

Alþjóðlegi dagur þornsins verður haldinn í 18. sinn á morgun. Þess verður þá minnst að 9. júní 1994 fékkst bókstafurinn þ viðurkenndur af vinnuhópi evrópska staðlaráðsins sem 27. stafurinn í latneska stafrófinu undir Unicode-staðlinum. Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku hjá menntavísindasviði HÍ, sem var fulltrúi Íslands í vinnuhópnum, flytur fyrirlestur í tilefni dagsins, sem verður lokahluti ráðstefnu um aukafallsfrumlög sem nú er í gangi í Reykjavík og á Flúðum.

Jóhanna Barðdal, rannsóknaprófessor við háskólann í Bergen, segir að skipuleggjendur ráðstefnunnar hafi komist að því fyrir einskæra tilviljun að lokadag hennar bæri upp á dag þornsins. Því hafi þeim fundist það tilvalið að fá Baldur til þess að tala um baráttu sína fyrir þorninu í vinnuhópnum. Jóhanna vonast til þess að héðan í frá verði gert mun meira úr degi þornsins.

Baldur Sigurðsson segir að þessi áfangi hafi haft mikla þýðingu fyrir Íslendinga, sem höfðu þurft að sætta sig við að íslenskir stafir eins og ð og æ yrðu taldir afbrigði af d og a. Með því að fá þ samþykkt sem stofnstaf í Unicode-staðlinum hefði t.d. íslenskun hugbúnaðar verið gerð mun auðveldari.

Baldur þakkar sérstaklega fulltrúa Íra í vinnuhópnum, Bandaríkjamanninum Michael Everson, en hann er mikill áhugamaður um sérstaka stafi í tungumálum sem fáir tala og heldur m.a. úti heimasíðu um bókstafinn þ. Baldur og Michael hafa haldið 9. júní hátíðlegan sín á milli ár hvert síðan 1994.

Baldur rifjar upp að ekki voru allir á því að þornið ætti skilið sérstakan sess í stafrófinu og vildu margir í vinnuhópnum gera það að undirstaf tésins: „Það sem okkur fannst merkilegast var að andstaðan við okkar málstað var hörðust frá fulltrúa Dana, því að frændur okkar Danir eru líklega eina þjóðin fyrir utan okkur sem verður að viðurkenna þornið, þar sem þjóðhöfðingi þeirra heitir Margrét Þórhildur. Þetta varð til þess að öðrum í nefndinni fannst að þetta væri nú eiginlega bara danskt innanríkismál og spurðu hvort við gætum ekki leyst þetta mál saman.“

Fyrirlestur Baldurs verður í stofu 201 í Árnagarði á morgun og hefst kl. 18. Aðgangur er öllum opinn. sgs@mbl.is