Möguleikar „Þeir mæta til keppni afslappaðir en um leið meðvitaðir um að núna er hægt að ganga einu skrefi lengra,“ segir Eiríkur um burði Spánverjanna.
Möguleikar „Þeir mæta til keppni afslappaðir en um leið meðvitaðir um að núna er hægt að ganga einu skrefi lengra,“ segir Eiríkur um burði Spánverjanna. — Morgunblaðið/Ómar
Ekki létt að styðja liðið þar til á síðustu árum að Spánn tók að moka til sín titlunum

Eins og svo margir aðrir dyggir stuðningsmenn erlendra landsliða var það námsdvöl sem gerði Eirík Gunnsteinsson lögmann að aðdáanda landsliðs Spánar. „Ég byrjaði fyrst að fylgjast með spænska boltanum og Real Madrid eftir ferð til Madridar 1985. Ég hafði verið stuðningsmaður Hollendinga 1986 og 1988, sveimað í kringum Ítalíu ´94 en eftir að ég fór út í skiptinám til Madridar árið 1998 varð ekki aftur snúið og ég hef ekki litið um öxl síðan.“

Eiríkur hefur sýnt Spánverjunum tryggð þó ekki hafi það alltaf verið auðvelt. „Þeir duttu út úr keppni 1998 í riðli á móti Nígeríu og Paraguay. Detta út fyrir Frökkum á alveg dæmigerðan hátt á EM 2000, árið 2002 tapa þeir fyrir Suður-Kóreu í vítaspyrnu og á EM 2004 duttu þeir út eftir riðlakeppnina. Ég fór á HM í Þýskalandi 2006 og sá tvo sigurleiki í riðlakeppninni en þar duttu þeir út í 16 liða úrslitum.“

Nú eru Spánverjarnir loks farnir að taka við sér, og farið að verða ögn skemmtilegra fyrir Eirík að styðja liðið. Þeir urðu sigursælir á EM í Sviss og Austurríki 2008 og HM í Suður-Afríku 2010.

En hvað er það sem ræður gengi spænska liðsins? „Spánverjar eru náttúrulega alveg fótboltaóð þjóð og vinsælustu blöðin þar í landi eru íþróttadagblöð þar sem langmesta púðrið fer í fótbolta. Árangurinn nú hlýtur að byggjast að hluta til á því að Spánn hefur byggt upp mjög öfluga yngri flokka, en þar í landi eru meira að segja beinar útsendingar frá yngriflokkamótum,“ segir Eiríkur.

Sálrænn vendipunktur

Hann segir að Evrópumeistaratitillinn 2008 hafi líka brotið ísinnn. „Þeir höfðu aldrei komist almennilega yfir þessa hindrun að vinna stóru fótboltaþjóðirnar og var greinilega sálrænn vendipunktur. Eftir árangurinn 2008 og 2010 hefur liðið trú á eigin getu og dagsformið yfirleitt mjög gott hjá þeim. Þeir spila eftir svipuðu kerfi, kunna að spila saman, og þó margir í liðinu séu heimsfrægir eru í raun engar hefðbundnar súperstjörnur og árangurinn mikið til borinn uppi af góðri liðsheild. Þeir ná einhvern veginn yfirleitt að spila sína bestu leiki þegar máli skiptir.“

Spánn er í riðli á móti Ítalíu, Írlandi og Króatíu. Eiríkur er þess nokkuð viss um að Spánverjarnir komist áfram. „Það er helst að þarf að hafa áhyggjur af Ítölunum. Liðið þar er víst að ganga í gegnum mikinn skandal, en svipað var uppi á teningnum 2006 þegar Ítalirnir urðu heimsmeistarar. Það kann að vera að þegar mikið bjátar á hjá þeim ítölsku út á við þjappi það liðinu vel saman,“ segir hann. „En þegar Spánverjar spila sinn besta leik er ekkert lið sem stenst þeim snúning – það er bara þannig.“

Eiríkur segir líka að Spánverjarnir hafi það með sér í keppninni nú að vera með tvo nýlega sigra að baki. „Þeir eru búnir að sýna sig og sanna, og vita hvernig á að spila sinn leik. Þeir mæta til keppni afslappaðir en um leið meðvitaðir um að núna er hægt að ganga einu skrefi lengra og vinna fyrst evrópskra landsliða þriðja stórmótið í röð. Þannig myndu þeir heldur betur skrifa sig inn í sögubækurnar.“ ai@mbl.is

Þarf að fyrirbyggja núning

Eiríkur reynir að horfa á leikina í hæfilega smáum félagsskap. „Best er að hafa einn eða tvo vini með, og stelpurnar mínar á kantinum. Bæði til að hafa ekki of mikil læti í kringum þettta, og til að forðast núning ef allt fer á versta veg,“ segir hann glettinn. „Ég man t.d. þegar ég horfði á úrslitaleikinn 2008 með þýskum mági mínum, og eitilhörðum stuðningsmanni Þjóðverja, að þökk sé sigri Spánverja yfir þeim þýsku yrti hann varla á mig fyrr en næsta dag.“