Andri Karl andri@mbl.is Börn á aldrinum 15 til 18 ára njóta ekki sömu réttarverndar og yngri börn þar sem þau fá ekki aðgang að Barnahúsi.

Andri Karl

andri@mbl.is

Börn á aldrinum 15 til 18 ára njóta ekki sömu réttarverndar og yngri börn þar sem þau fá ekki aðgang að Barnahúsi. Þetta sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á málþingi um skýrslutökur af börnum í sakamálum, en það hélt ráðuneytið í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands.

Ögmundur sagði ekkert benda til að afleiðingar ofbeldis væru vægari fyrir eldri hópinn og spurði hvort munurinn væri réttlætanlegur. „Ég er á þeirri skoðun að börn á Íslandi verði að sitja við sama borð í þessum efnum, og spyr hvort það sé virkilega svo að lagabreytinga sé þörf til að koma á slíku jafnræði.“

Segja má að svarið hafi leynst í ræðu Söndru Baldvinsdóttur dómara við Héraðsdóm Reykjaness. Hún fór yfir þau lagaákvæði sem gilda og benti á að með setningu laga um meðferð sakamála árið 2008 hefði umrætt aldursmark verið lækkað. Hún sagði það aðeins koma fram í greinargerð með frumvarpinu að lækkunin tengdist því að 15 ára yrðu menn sakhæfir hér landi og bætti við að hún hefði gjarnan viljað fá ítarlegri rökstuðning.

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, minntist einnig á þetta misræmi og sagðist velta fyrir sér hvers vegna börn á aldrinum 15-18 ára ættu að fá öðruvísi þjónustu en önnur börn þegar kemur að skýrslutökum, en fengju annars sömu þjónustu hjá Barnahúsi.