Ólöf Karvelsdóttir fæddist í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp 15. nóvember 1916. Hún lést á Hrafnistu, Hafnarfirði, 27. maí 2012.

Útför Ólafar fór fram frá Langholtskirkju 5. júní 2012.

Það var mikil gæfa mín, að við Gulla Páls urðum vinkonur í Goðheimunum fyrir um hálfri öld, en þá kynntumst við systurnar og foreldrar okkar Lóu og Palla og börnum þeirra, þessari sterku vestfirsku fjölskyldu, og vináttuböndin hafa haldist æ síðan. Lóa var heilsteyptur karakter, fylgin sér, áhugasöm og sérlega trygg. Á stórum stundum í lífi okkar systra var Lóa ævinlega nálæg.

Stundirnar heima hjá Lóu 2. febrúar ár hvert, á afmælisdegi Gullu, þegar hún bauð til sín okkur gömlu vinkonunum og fjölskyldu sinni til að minnast hennar, eru í minningunni ómetanlegar, ásamt því að fá að kynnast og fylgjast með nýjum einstaklingum í fjölskyldu hennar. Fyrir alla tryggðina og vináttuna vil ég þakka og við fjölskyldan sendum öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Lóu Karvels.

Þóra Fríða og fjölskyldan.