Vefsíðan www.rekinn.is var formlega opnuð í gær. Þar fer fram undirskriftasöfnun í þeim tilgangi að koma núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík frá völdum.

Vefsíðan www.rekinn.is var formlega opnuð í gær. Þar fer fram undirskriftasöfnun í þeim tilgangi að koma núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík frá völdum. Aðstandendur síðunnar eru foreldrar og íbúar í Reykjavík, sem fengið hafa nóg af forgangsröðun fjármála í borginni og illa ígrunduðum ákvörðunum varðandi grunn- og leikskóla, segir í fréttatilkynningu.

„Samkvæmt samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Besta flokksins er kjósendum lofað íbúalýðræði og samráði í skipulags-, umhverfis- og skólamálum. Þrátt fyrir að íbúar í borginni hafi látið skoðun sína í ljós með afgerandi hætti hefur borgarstjórnarmeirihlutinn virt vilja þeirra algjörlega að vettugi. Skorið hefur verið niður í grunnþjónustu á meðan miklum fjármunum er eytt í ólögbundin hugðarefni meirihlutans í borginni,“ segir í tilkynningunni.

Nú þegar hafa nokkur hundruð manns skráð sig á síðuna. Slóðin er www.rekinn.is.