Áminning Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn afhentu forseta Alþingis undirskriftalistann í gær.
Áminning Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn afhentu forseta Alþingis undirskriftalistann í gær. — Morgunblaðið/Júlíus
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins afhentu í gær Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, undirskriftarlista þar sem þeir hvetja þingmenn til að styðja þingsályktunartillögu um ætlað samþykki við líffæragjafir.

Tillagan felur í sér að velferðarráðherra verði falið „að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða,“ eins og segir í tillögunni.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, segir tilganginn með afhendingu undirskriftalistans þann að minna þingheim á tillöguna, sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn styðji heils hugar. „Þetta mál snertir okkur þannig að mínir menn eru daglega í sjúkraflutningum, eru að flytja sjúka inn á spítalann og eru meðvitaðir um mikilvægi þess að líffæraflutningar séu virkir innan okkar litla lands. Við erum lítil eyja og líffæraflutningar eru mjög mikilvægt verkfæri í heilbrigðiskerfinu og við teljum að því auðveldara sem það er að framkvæma líffæraflutninga, því betra sé það fyrir heildina. Og mínir menn verða varir við þessa þörf í sinni vinnu,“ segir hann.

Jón segir menn óttast að málið verði innlyksa í málaflóðinu á þingi en í þessu samhengi geti hver dagur, vika og mánuður skipt marga sköpum. Sem stendur hefur velferðarnefnd málið til umfjöllunnar en Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, segist vonast til þess að það verði afgreitt fyrir þinglok. Hún segir engan ágreining uppi um tillöguna, heldur virðist hún njóta góðs stuðnings, bæði innan nefndarinnar og á þinginu.

Núgildandi lög gera ráð fyrir „ætlaðri neitun“ og þarf því samþykki náinna ættingja áður en líffæri er numið á brott til ígræðslu í aðra manneskju. Tillagan gerir ráð fyrir að farin verði sama leið og í t.d. Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem gert er ráð fyrir „ætluðu samþykki“.

Umsagnaraðilar, sem flestir eru jákvæðir í garð tillögunnar, hafa þó bent á að ýmislegt þurfi að hafa í huga við smíði frumvarpsins, s.s. persónuverndarsjónarmið, rekstur gagnagrunns yfir þá sem vilja ekki gefa líffæri, öfluga upplýsingagjöf til almennings og að staðinn verði vörður um mannréttindi þeirra sem vegna t.d. fötlunar, aldurs eða sjúkdóms geta ekki haft uppi andmæli gegn ætluðu samþykki.

Líffæragjöf

80

líffæraígræðslur fóru fram á íslenskum sjúklingum á árunum 2006-2010. Fengu 5 einstaklingar hjarta, 17 lifur, 4 lunga og 54 nýra.

272

líffæraígræðslur höfðu verið framkvæmdar á íslenskum sjúklingum árið 2010 frá því þær hófust 1970.

18

sjúklingar voru á biðlista eftir líffærum í lok árs 2010, þar af einn sem beið eftir hjarta, einn sem beið eftir lungum, þrír sem biðu eftir lifur og tólf sem biðu eftir nýra. Einn beið eftir hjarta og nýra.