Guðmundur (Jónsson) Kamban, rithöfundur og leikstjóri, fæddist hinn 8. júní 1888 í Litlabæ á Álftanesi en ólst upp í Arnarfirði. Guðmundur var í hópi fremstu rithöfunda Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Guðmundur (Jónsson) Kamban, rithöfundur og leikstjóri, fæddist hinn 8. júní 1888 í Litlabæ á Álftanesi en ólst upp í Arnarfirði.

Guðmundur var í hópi fremstu rithöfunda Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann var fjölhæfur listamaður, samdi bæði skáldsögur, ljóð og leikrit og gerði kvikmyndir. Jafnframt var hann fyrsti Íslendingurinn sem hafði atvinnu af leikstjórn við leiksvið.

Guðmundur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1910 og fluttist því næst til Kaupmannahafnar og bjó þar lengst af. Þar las hann heimspeki og bókmenntir en lauk ekki prófi. Hann einbeitti sér að leikritagerð og tók upp höfundarnafnið Kamban.

Guðmundur starfaði sem leikstjóri í Kaupmannahöfn og kom að uppsetningu síns fyrsta leikrits Höddu Pöddu árið 1912 í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Hadda Padda fékk prýðisundirtektir gagnrýnenda, var sýnd 13 sinnum og var einnig sett upp á Íslandi sama ár.

Guðmundur dvaldist um hríð í Bandaríkjunum 1915-1917 og hugðist hasla sér völl á enskri tungu en hafði ekki erindi sem erfiði. Þó kom Hadda Padda út í New York árið 1917 með formála eftir Georg Brandes. Guðmundur vildi einnig komast á Þýskalandsmarkaðinn eins og aðrir Norðurlandahöfundar, naut skáldsaga hans um raunir Ragnheiðar biskupsdóttur, Skálholt 1-IV , töluverðra vinsælda þar.

Leikrit hans hafa verið sett upp á fjalir leikhúsanna sem og lesin í útvarp. Leikritið Vér morðingjar var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 2000 og hlaut fína dóma. Þekktustu verk hans eru eflaust ofangreind leikrit auk Marmara og Skálholts. Þess má geta að í upphafi ritferils hans árið 1906 kom út lítið kver í hans nafni; Úr dularheimum , með sögum sem ýmis framliðin stórskáld áttu að hafa skrifað í gegnum hann.

Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, hinn 5. maí árið 1945, ætluðu danskir frelsisliðar að handtaka hann vegna gruns um samstarf við Þjóðverja en myrtu hann. Eftir andlátið var hann hreinsaður af þeim áburði.