Inga Marta Ingimundardóttir fæddist 2. september 1943. Hún lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við Hringbraut 24. maí 2012.

Útför Ingu Mörtu fór fram frá Seljakirkju 5. júní 2012.

Mikið óskaplega hlýtur honum þarna uppi á efstu hæð að vanta til sín gott og yndislegt fólk, kannski var það þess vegna sem hann þurfti endilega að taka frá okkur hana yndislegu Ingu, ekki alveg sanngjarnt því svo sannarlega var hennar tími ekki kominn. En eftir sitjum við ástvinir og fjölskylda og syrgjum út í hið óendanlega. Ennþá held ég hreinlega að hún sé alls ekki farin, að hún komi með Sigga frænda í heimsókn í Skólagerðið til mömmu og pabba, að ég geti fengið að knúsa hana oftar. Lífið getur verið svo ósanngjarnt. Það hljómar svo vel að segja Siggi og Inga. Held ég muni ekki eftir Ingu öðruvísi en brosandi og yndislegri, svo sæl þrátt fyrir ýmsar hindranir. Ég þakka fyrir það í dag að hafa farið til hennar á spítalann og fengið knúsið hennar og yndislegu hlýju orðin með kveðju frá henni til Daníels. Meira að segja á þeirri stundu þegar vitað var að lítið væri eftir þá brosti hún og var svo glöð, alltaf með fullt herbergi af börnum og barnabörnum sem ekki viku frá henni. Ég minnist frábæru útilegunnar þegar við hittumst öll í 30 ára afmælinu hennar Jóhönnu, þar var hún sælust með alla sína nánustu hjá sér í hjólhýsinu hennar og Sigga. Ekki hélt ég að þetta yrði síðasta útilegan sem við myndum eiga með henni. Elsku besti Siggi frændi, Sigurlaug, Stefán, Svanberg og Jóhanna, þið eruð sterk og yndisleg fjölskylda sem mun komast í gegnum þetta með fjölskyldum ykkar, þið standið saman eins og klettur. Ég kveð Ingu með miklum söknuði og ennþá meiri sorg, hugsunin og minningarnar um dásamlega konu lifa með mér. Góða ferð elsku besta Inga, ég bið að heilsa þeim sem ég þekki þarna.

Berglind Valberg.

Elsku Inga mín.

Nú er komið að kveðjustund og ég lít yfir farinn veg, hugsa um allar samverustundirnar á sl. árum. Ég var svo lánsöm að kynnast ykkur Sigga þegar Rósa María, systir mín, og ykkar góði sonur, Stefán, felldu hugi saman. Þið tókuð okkur alltaf eins og við værum ein af ykkur, Helgu Jónu tókuð þið alltaf eins og hún væri ein af barnabörnum ykkar. Þegar Viðar Svanur fæddist spurðir þú mig hvort að ég tryði því að þú værir orðin langamma, mér fannst það jafn skrítið eins og að Stebbi minn væri orðinn afi, en þú varst svo stolt. Þið Siggi eigið svo yndisleg börn, barnabörn og barnabarnabarn. Ég hef verið svo heppin að kynnast þeim öllum og tel þau öll vera í minni fjölskyldu. Í hvert skipti sem ég hitti þig tókstu utan um mig og sagðir eitthvað fallegt og uppbyggilegt við mig. Þegar ég heimsótti þig á spítalann spurði einn hjúkrunarfræðingurinn ykkur Sigga hvort ég væri dóttir ykkar, þið svöruðuð því að ég væri vinkona. Það bræddi mitt litla hjarta, mér þykir svo óendanlega vænt um ykkur.

Elsku Siggi, Sigurlaug, Svanberg, Jóhanna og Stefán. Ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar mína dýpstu samúð. Hafið hugfast að ég verð alltaf til staðar fyrir ykkur ef ég mögulega get gert eitthvað til að létta undir með ykkur.

Ykkar vinkona,

Sigurbjörg Guðleif

Guðjónsdóttir (Sibba).

Hinsta kveðja
Hörpu þinnar, ljúfa lag
lengi finn í muna.
Því ég minnist þín í dag,
þökk fyrir kynninguna.
(Á.K.)
Minning þín lifir í hjarta mínu,
Helga Jóna
Kristmundsdóttir.