Hasar Tinna reynir að horfa á leikina heima og óttast að æsast annars of upp af spenningi.
Hasar Tinna reynir að horfa á leikina heima og óttast að æsast annars of upp af spenningi. — Morgunblaðið/Ómar
Tinna byrjaði að fylgjast með enska boltanum út af áhuga á David Beckham

„Ég er eiginlega alin upp í enska boltanum. Við erum þrjár af fjórum systrum sem fengum það í arf frá föður okkar að fylgjast mjög vel með Englendingum, og þá sérstaklega Manchester,“ segir Tinna Rós Steinsdóttir blaðamaður.

Tinna verður með augun límd við skjáinn næstu vikurnar en hún er dyggur stuðningsmaður þeirra ensku. Hún man vel hvernig áhuginn kviknaði fyrst. „Ég hef verið svona átta ára þegar ég tók ástfóstri við David Beckham og fylgdist vel með honum innan vallar og utan. Það var svo tveimur árum seinna sem ég horfði á fyrsta stórmótið mitt, EM 1996, og hélt þá að sjálfsögðu með Beckham og þar af leiðandi Englandi. Nú er enginn Beckham í enska liðinu, en ég hef sem betur fer elst og þroskast aðeins frá þessum tíma og er farin að horfa á boltann vegna ástríðu á leiknum sjálfum, en ekki af áhuga á einstaka leikmönnum,“ útskýrir Tinna og hlær.

Tilbúin að styðja Þjóðverja

Að halda með Englendingum er samt ekki eintóm sæla og á síðustu stórmótum hefur liðinu oft gengið heldur betur misvel. „Ég held með þeim af tryggð frekar en nokkru öðru og held t.d. ekki í eina mínutu að Englendingar komi til með að vinna Evrópumeistaratitilinn í ár. Ef þeir ná svo langt að komast upp úr sínum riðli verð ég hoppandi kát,“ segir Tinna og skefur ekkert utan af hlutunum. „Enska landsliðið er langt því frá að vera sérstaklega gott um þessar mundir, en þeir standa hjarta mínu næst þrátt fyrir það og meðan þeir eru enn í keppni stend ég með mínum mönnum. Þegar þeir svo falla út –og ég segi þegar en ekki ef– þá færist hollustan yfir til Þjóðverjanna.“

Tengingin við Þjóðverjana, sem varadekk, kemur m.a. til af því að Tinna vann um skeið í Austurríki. „Bayern München hefur verið í öðru sæti á uppáhalds listanum mínum allt síðan Manchester United hrifsaði Evrópumeistaratitilinn úr höndum þeirra árið 1999. Það var svo þegar ég bjó í Austurríki sem ég fór að styðja Þýskaland af heilum hug. Í Austurríki er manni kennt að halda aldrei með Þjóðverjum, en það hafði þveröfug áhrif á mig og ég fór að elska allt þýskt.“

Enska liðið skortir ekki frækna knattspyrnumenn en Tinna segir vanta límið til að halda hópnum saman. „Liðsheildin er ekki til staðar, landsliðsmennirnir ná ekki að spila saman og eru oft í tómu tjóni úti a velli. Núna erum við með mikið af góðum mönnum, kannski ekki sömu stórstjörnunum og áður, svo ekki eru prímadonnustælarnir að trufla. Eflaust mæta þeir á völlinn til að vinna leikinnn, en ég finn ekki fyrir því frá þeim. Mér finnst eins og þá skorti baráttuandann.“

Þarf að passa skapið

Tinna hefur sinn háttinn á að fylgjast með leikjum Englendinga. Stundum horfir hún á leikina með föður sínum yfir harðfiski. „Ég fer ekki mikið á barina að horfa á leiki. Sjálfrar mín og umheimsins vegna horfi ég yfirleitt bara innan öruggra veggja heimilisins,“ útskýrir hún. „Ég á það nefnilega til að verða ansi hávær þegar leikurinn fer af stað, og þyki ég þó hafa hátt fyrir. Ef ég fer á barinn á ég það oft til að verða of æst og lifa mig of mikið inn í leikinn. Ég á stundum svolítið erfitt með að hemja mig við slíkar kringumstæður. Ég hef ekki enn komist á það stig að brjóta hluti og bramla, en ég á það til að koma marin og meidd heim, t.d. eftir að hafa slegið of fast í borðið eða fengið marblett á rassinn í látunum.“

Tinna gengur ekki svo langt að taka sér frí frá vinnu til að fylgjast með leikjunum. „Ég er ekki alveg svo langt leidd en gæti þess að skipuleggja hjá mér verkefnin þannig að ég eigi lausa stund þegar leikir eru í gangi. Ef ég get ekki brugðið mér frá reyni ég í það minnsta að hafa textalýsingu í gangi á skjánum. Við slíkar aðstæður getur það óneitanlega orðið strembið að halda fullum afköstum.“ ai@mbl.is

Stóð við bakið á Beckham '98

Þegar mikið er í húfi bregður Tinna sér í ensku landsliðstreyjuna með nafn Beckhams ritað á bakið. „Ég klæddist henni þá og klæðist enn með stolti þrátt fyrir fíaskóið í keppninni 1998. Ég held ég muni aldrei gleyma þessari stundu þegar Beckham var rekinn af vellinum í leik Englendinga á móti Argentínumönnum,“ segir hún. „Þetta var í 16 liða úrslitum og þótt hann hefði misst ögn stjórn á skapi sínu var þetta rauða spjald ekki alveg verðskuldað. England tapaði svo leiknum í vítaspyrnu og margir sem skelltu skuldinni á Beckham, sem lengi á eftir var útskúfaður af samlöndum sínum hvar sem hann fór í heiminum.“