Tíska er furðulegt fyrirbæri. Gallabuxur sem Víkverji keypti í gær verða örugglega komnar úr tísku á morgun og gömlu og hallærislegu uppháu strigaskórnir þykja núna kannski bara ágætir. Engin leið er að átta sig á hvaðan tískuvindarnir blása.

Tíska er furðulegt fyrirbæri. Gallabuxur sem Víkverji keypti í gær verða örugglega komnar úr tísku á morgun og gömlu og hallærislegu uppháu strigaskórnir þykja núna kannski bara ágætir. Engin leið er að átta sig á hvaðan tískuvindarnir blása.

Þetta á við um fatatísku sem skótísku en eitt gleggsta dæmið um tískuvitleysuna er í sólgleraugnatískunni.

Víkverji er hlaupari og fyrir nokkrum árum keypti hann sér sérhönnuð hlaupasólgleraugu. Flestir kannast við þessa tegund sólgleraugna; glerin eru allstór, oft egglaga og umgjörðin (sem gjarnan er litrík) er þannig gerð að auðveldlega er hægt að skipta um gler, setja brún eða glær í staðinn fyrir svört, svo dæmi sé nefnt. Hlaupasólgleraugu eru létt og glerin liggja ekki of nálægt andlitinu og því fyllast þau ekki af móðu þegar hlauparinn tekur að svitna ótæpilega.

Frá því að Víkverji fékk sín fyrstu hlaupasólgleraugu hefur hann týnt öðrum sólgleraugum sem hann átti og núna er staðan sú að hann á bara hlaupasólgleraugu, raunar tvenn.

Og þá er komið að furðum tískunnar: Af einhverjum ástæðum hefur Víkverji ítrekað fengið að heyra að það sé ferlega glatað að láta sjá sig með hlaupasólgleraugun, nema í hlaupa- eða hjólatúr. Það sé verulega hallærislegt, svo vægt sé til orða tekið, að bera þau við önnur tækifæri. Fólk gæti haldið að Víkverji væri nörd eða væri að monta sig af því að vera hlaupari en hvort tveggja er fjarri lagi. Ekkert hefur dugað að benda á að hin vinsælu Ray Ban-flugmannagleraugu voru sérstaklega hönnuð fyrir orrustuflugmenn í seinni heimsstyrjöldinni. Ef fólk sem aldrei hefur flogið flugvél, hvað þá tekið þátt í flugorrustu, getur gengið með flugmannagleraugu niðri í bæ – hvers vegna getur Víkverji þá ekki spókað sig þar með hlaupasólgleraugun sín án þess að verða fyrir aðkasti? Víkverji er þó a.m.k. hlaupari. Þetta er hreinlega óskiljanlegt og óþolandi!