Ragnar Höskuldsson fæddist í Reykjavík 10. maí 1957. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans 19. maí 2012.

Ragnar var jarðsunginn frá Háteigskirkju 29. maí 2012.

Mín fyrstu kynni af Ragnari voru árið 1994 í Bosníu þegar ég fór að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Við náðum strax saman í flugvélinni á leiðinni til Króatíu eins og við hefðum ætíð þekkst, þannig náungi var Ragnar, hann var mannblendinn og bar með sér góða nærveru og hlýju.

Þegar við fórum að starfa saman í Króatíu komst ég fljótt að því hversu góður stafsmaður Ragnar var í sínu starfi. Hann var áhugasamur um þau verkefni sem honum var ætlað að leysa sem oft voru erfið og krefjandi og reyndi á hæfni ökumanna í hættulegum aðstæðum. Síðan þegar leið á árið kom fjölskyldan hans til hans og var það honum mjög kærkomið og áttu þau ógleymanlega tíma. Eftir að þessu „mission“ var lokið (eins og Raggi tók til oft orða) hélst okkar vinskapur áfram og varð alltaf sterkari og fjölskyldur okkar kynntust vel og áttum við margar og ógleymanlegar stundir bæði í gleði og sorg. Árið 2007 missti Ragnar og hans fjölskylda drenginn sinn hann Andra og voru þetta erfiðir tímar og reyndi mikið á okkar góða og trausta vinskap.

Ragnar var alltaf góður við börn og þótti gaman í afahlutverkinu. Ragnari fannst fátt skemmtilegra en að veiða og vera úti í náttúrunni, eins og þegar við fórum á Arnarvatnsheiði og Skaðaheiði að veiða að sumarlagi og eins að vetri að veiða gegnum ís. Síðan allar Laufskálaréttirnar sem við (strákarnir) Nonni, Bjartur, Emmi, Snorri, Stjáni píp, Stjáni á Akureyri og Aggi, eins og Raggi kallaði okkur, fórum í síðustu 16 árin. Í réttunum naut hann sín vel og var hrókur alls fagnaðar meðal heimamanna og gaf sér alltaf góðan tíma til að spjalla við heimamenn, bændur og aðra merkismenn.

Ragnar hafði mikinn áhuga á verkfærum og deildum við því áhugamáli strákarnir. Það var ætíð gaman að koma í bílskúrinn hans og spjalla um bíla, viðgerðir og önnur málefni. Þar voru margir bílarnir gerðir upp. Hann var vel að sér í ýmsum málefnum, hafði mikinn áhuga á öllum vísindum og nýjustu tækni og allri þróun í veröldinni. Það má segja að Ragnar hafi verið svolítill dellukall þegar kemur að gervihnattadiskum og sjónvarprásum. Það var hans slökun að hvíla lúin bein í lazyboy-stólnum sínum fyrir fram sjónvarpið og forvitnast um nýjustu vísindi og voru ófá símtölin sem fylgdu í kjölfarið með hans spekúleringum.

Ragnar var ákaflega hjálpsamur og var ætíð reiðubúinn til að hjálpa nótt sem dag, það var fátt sem hann réð ekki við. Hann var með mikið jafnaðargeð og var mjög næmur á fólk og lífið.

Elsku Ragnar minn, takk fyrir allt, góða vináttu og skemmtilegar stundir.

Megir þú hvíla í friði, kæri vinur.

Jón Hafnfjörð

Hafsteinsson.