Gleði Arnar grínast með að vera vanur því að styðja lið sem illa gengur að vinna titla, og því hafi það ekki verið mikil tilbreyting að halda með Grikkjum. Hér er hann á góðri stundu með stuðningsmönnum Breiðabliks eftir frækilegan sigur árið 2010.
Gleði Arnar grínast með að vera vanur því að styðja lið sem illa gengur að vinna titla, og því hafi það ekki verið mikil tilbreyting að halda með Grikkjum. Hér er hann á góðri stundu með stuðningsmönnum Breiðabliks eftir frækilegan sigur árið 2010. — Morgunblaðið/Golli
Fór að verða skemmtilegra að halda með Grikkjum eftir ævintýralegan sigur 2004

Arnar Grétarsson knattspyrnumaður ætlar að hvetja gríska landsliðið til dáða í ár. Hann lék í þrjú ár með gríska liðinu AEK og kynntist þar af frá fyrstu hendi ástríðu Grikkja fyrir fótbolta. „Grikkir eru miklar tilfinningaverur, þekktir fyrir að hugsa meira með hjartanu en höfðinu, og taka fótboltann því vitaskuld mjög alvarlega. Eftir þriggja ára dvöl hjá Grikkjum var ekki annað hægt en að bera hlýjar tilfinningar til þessa fólks og liðsins sem keppir fyrir þess hönd.“

Vanur því að illa gangi

Grikkjunum gengur ekki alltaf vel og fylgir íþróttinni að ganga í gegnum miklar geðsveiflur eftir því hvernig landsliðinu reiðir af. „En ég er lika Liverpool-aðdaandi og þekki því vel hvernig það er að ríða ekki feitum hesti frá leikjum ár eftir ár. Raunar byrjaði þetta uppeldi strax í Kópavoginum þegar maður fór að halda með Breiðabliki, sem aldrei tekst að vinna neitt,“ bætir Arnar við og hlær.

Það fór að verða skemmtilegra að styðja Grikkina 2004 þegar liðinu tókst að sigra á Evrópumeistaramótinu. „Þá var gaman að fylgjast með þeim og sérstaklega ánægjulegt að sjá í liðinu menn sem ég hafði spilað með hja AEK. Ég gat því samglaðst þeim alveg sérstaklega.“

Góð liðsheild

Arnar er hæfilega bjartsýnn á gengi sinna manna á EM í ár. Etja þarf kappi við Rússa, Tékka og Pólverja. „Þeir hafa yfirleitt náð að vinna sína riðla og þeir ættu að ná að komast upp úr þessum, sennilega með Rússum,“ segir hann. „Ekki er hægt að segja að í liðinu séu einhverjir algjörlega framúrskarandi toppleikmenn en liðsheildin er ágæt og nokkrir sterkir sóknarmenn og eins nokkrir sem eru fínir á kantinum. Líklegast er svo að Þjóðverjar verði sigursælir á mótinu enda með hið fínasta lið og af allt öðru kalíberi.“

Arnar er núna búsettur í Grikklandi, reynir að horfa á leikina í góðra vina hópi og gaman ef hafa má grískt lag á skemmtuninni. „Eins og vera ber drekka Grikkir bjór með fótboltanum, en síðan snara þeir fram ýmsum grískum réttum. Dæmigerður grískur fótboltamatur er það sem þeir kalla bifteki sem eru nk. smákótilettur, litlar lambakjötssteikur. Síðan er souvlaki á sínum stað, skorið af kjötsívalningi á snúningsgrilli.“ ai@mbl.is

Gengur ekki alltaf upp

Arnar segist hafa setið límdur við skjáinn þegar EM 2004 stóð yfir. „Það var ótrúlegt afrek hjá þeim að vinna keppnina og nokkuð sem ég held að fáir hafi búist við. Margir gamlir liðsfélagar úr AEK voru í landsliðinu og ég fékk óneitanlega gæsahúð fyrir þeirra hönd.“

Frammistaðan 2006 var hins vegar vonbrigði. „Þeim gekk mjög illa það skiptið, spiluðu með sömu taktík en einhverra hluta vegna gekk það einfaldlega ekki upp.“