Sveinbjörn Ólafsson fæddist á Syðra-Velli í Flóa 17. október 1916. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 30. maí 2012.

Sveinbjörn var jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju 5. júní 2012.

Hann Sveinbjörn afi var einstakur maður. Eiginlega er ekki hægt að tala um hann án þess að minnast á ömmu um leið því að þau voru alla tíð afskaplega samrýnd hjón og miklar fyrirmyndir fyrir okkur hin í fjölskyldunni. Mín fyrsta minning um afa er þegar pabbi keyrði mig niður á Álfaskeið þaðan sem afi skutlaði mér á leikskólann. Hann var ætíð mikill barnakarl og börnin í fjölskyldunni sóttu mikið í nærveru hans. Ófá Ólsen Ólsen spil tók hann með okkur krökkunum og þær minningar rifjuðust upp þegar hann spilaði síðan við börnin okkar nokkrum áratugum síðar. Fyrir mér hefur afi ávallt verið ein mín mesta fyrirmynd í lífinu og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa átt svo góðan afa sem ég hef alltaf getað litið upp til.

Björn.

Mig langar að minnast föður míns, Sveinbjörns Ólafssonar, nokkrum orðum. Hver hefði trúað því að hann færi á undan mömmu? Pabbi annaðist hana síðustu árin, eldaði matinn, hugsaði um heimilið og svo mætti áfram telja. Og eftir að þau fóru á Hrafnistu í Hafnarfirði var hann ætíð hennar hjálparhella. En nú er hann látinn, nánast óvænt þrátt fyrir að vera kominn vel á tíræðisaldur.

Pabbi var alla tíð mín fyrirmynd; reglumaður í alla staði og mjög skipulagður. Ég er ekki alveg eins skipulagður og hann, en vonandi hef ég erft eitthvað af þeim góða eiginleika hans. Eitt sinn fór Inga mín til pabba að fá sér kaffi áður en hún fór í vinnu á Hrafnistu. Pabbi svaraði hins vegar sem svo: Inga mín, þú færð ekkert kaffi í dag, þú kemur of seint, kaffitíminn var klukkan hálffjögur.

Mínar fyrstu minningar úr bernsku eru um það þegar við áttum heima á Strandgötu 50C í Hafnarfirði, þar sem nú er Fjörukráin. Mamma hafði saumað á mig föt og við pabbi fórum norður á Strandir sem var langt ferðalag. Fyrst var farið með bíl norður á Hólmavík, þaðan með flóabátnum norður Húnaflóa og í mynni Veiðileysufjarðar vorum við sóttir á trillu. Þetta var langt ferðalag fyrir sex ára gutta.

Önnur ferð var farin eina vetrarhelgi, á æskuslóðir pabba að Syðri-Velli í Flóa. Á heimleiðinni þurftum við að stoppa efst í Kömbunum þar sem fór að sjóða á bílnum. Þegar við vorum að nálgast Sandskeiðið vildi svo illa til að bíllinn rann í hálku og fór út af veginum og endaði á toppnum. Sjálfur lenti undir öllu, en slapp þó óslasaður. Þetta eru minningar sem seint gleymast.

Þegar ég var fimmtán ára gamall bauð pabbi mér vinnu hjá sér uppi á Hrauni eins og við kölluðum það. Það var á vélaverkstæði Jóns heitins Gíslasonar, útgerðarmanns í Hafnarfirði, en pabbi rak það verkstæði uns hann fór að vinna í skipasmíðastöðinni Dröfn.

Þetta starf var mér var dýrmætur skóli. Þarna lærði ég rafsuðu og logsuðu og allt sem viðkemur vélaverkstæðisvinnu. Það var mikið álag á pabba þegar Jón Gíslason gerði út ellefu báta á vetrarvertíðinni í Grindavík. Bátarnir komu að landi um kvöldmatarleytið til að landa aflanum og þurftum við vinnukarlarnir að fara til Grindavíkur á hverju kvöldi til að gera við bátana og halda þeim við. Venjulega vorum við að koma heim í háttinn kl. fjögur um nóttina og svo byrjaði dagurinn aftur á hrauninu kl. 8. Enginn myndi láta bjóða sér svona í dag og því er ótrúlegt hvað pabbi hélt góðri heilsu alveg fram á síðasta dag.

Nú þegar faðir minn kveður, skilur hann aðeins eftir sig góðar minningar. Vona ég að þær gefi móður minni, systrum mínum, fjölskyldum þeirra og öðrum styrk í sorginni.

Hvíl þú í friði, pabbi minn. Þinn sonur og tengdadóttir,

Trausti Sveinbjörnsson og Ingveldur Einarsdóttir.

Elskulegur afi minn Sveinbjörn hefur kvatt okkur. En það eru aðeins ljúfar og góðar minningar sem ég á um afa og þvílíkt ljúfmenni sem hann var og blítt viðmót var hans einkennismerki. Hann afi var eins góð fyrirmynd og hugsast getur því hann hafði einstakt lag á að bjarga hlutunum með útsjónarsemi sinni.

Afi var elskaður og dáður af öllum sem honum höfðu kynnst og það var ákaflega fallegt samband milli hans og ömmu alla tíð. Það var líka einstakt að fylgjast með hvernig hann hefur sinnt ömmu undanfarin ár. Ég veit að starfsfólk Hrafnistu í Hafnarfirði hefur orðið vitni að sérstakri umhyggju hans í garð ömmu og með því hefur hann sjálfsagt brætt hjörtu margra.

Mig langar til að þakka þér elsku afi minn fyrir þau ár sem mér voru veitt til að vera með þér og fá með því að kynnast einni bestu manneskju sem ég hef hitt.

Ólafur Sveinn Traustason.