Yfirlæti og yfirgangur eru ekki líklegust til að auka hróður Alþingis

Kannanir sýna að Alþingi Íslendinga er einna neðst á skalanum yfir virðingu og traust, þegar álit þjóðarinnar á því er mælt. Við eðlilegar aðstæður ætti sú aldagamla stofnun, lykill lýðræðis í landinu, að tróna nærri toppnum. En því miður kemur niðurstaðan ekki á óvart.

Ákaft er unnið að því þar innan dyra að ná botnsæti á þennan mælikvarða og hamast mest af þeim sem síst skyldu. Yfir eitt hundrað málum er dengt inn á þingið um það bil sem lokafrestur til framlagningar rennur út. Forysta ríkisstjórnarinnar, sem þannig fer að, bítur svo höfuð af skömminni með því að krefjast þess að lungi þeirra mála verði afgreiddur á fáeinum dögum. Breytir þó engu þótt um sé að ræða illa unnin mál og hroðvirknisleg, þar sem þjóðarhagsmunir eru í húfi og bullandi ágreiningur ríkir. Með öðrum orðum þá er verið að krefjast þess að málin verði afgreidd án eðlilegrar athugunar og umræða verði skorin svo við nögl að hún verði verri en engin.

Stærstu mál eru send út í þjóðfélagið til umsagnar, eins og rétt er og skylt, en með óboðlega stuttum fresti til svars. Í því felast skilaboð um að í rauninni sé ekki ætlast til þess af þinginu að umsagnaraðili leggi mikla orku í yfirlegu og svar. Og þau skilaboð eru svo endanlega staðfest þegar umsagnir sem menn gefa, þrátt fyrir fátæklegan tíma, fá móttökur sem eru ígildi þess að hafna í ruslafötum þingmanna.

Fróðlegt, en þó miklu fremur dapurlegt, var að heyra eða sjá ummæli Steingríms J. Sigfússonar um þingið, þar sem hann hefur enn nokkuð þýðingarmikið hlutverk. Hann reigði sig í ræðustól og sagði að það gerði ekkert til þótt þingið héldi áfram sínu bagsi inn í sumarið. Ekki með þeim rökum að þingmenn þurfi að sinna og svo ljúka sínum verkum. Á slík rök má fallast, þótt ekki fari vel á því að þeir sem starfsöngþveitinu valda geri slíkar kröfur.

Rök VG - foringjans voru þau að það hefði enginn neinn áhuga fyrir því sem fram færi í þinginu. Fólkið í landinu væri fremur að hugsa um fótboltakeppni í fjarlægum löndum að hans mati. Og það gerði heldur ekkert til að þingið væri við störf á þeim fáu vikum sem eftir lifa fram að forsetakosningum. Fyrrnefnt áhugaleysi þjóðarinnar á þingstörfunum væri slíkt að ekkert í þinginu væri til þess fallið að trufla hinar almennu kosningar.

Hingað til hefur þess jafnan verið gætt að gera hlé á þingstörfum vegna þeirra lýðræðislegu kosninga sem stjórnlög landsins ákvarða að skuli reglulega fara fram. Það er sjálfsögð skylda til að tryggja að slíkar kosningar geti farið fram við eðlilegar aðstæður. Á meðan hrokagikkir á borð við þá sem telja sig þess umkomna að gera í senn lítið úr hlutverki þingsins og þjóðkjöri forseta Íslands eru enn fyrirferðarmiklir í þingsalnum eru ekki miklar líkur á því að álit þjóðarinnar á þeirri stofnun rísi á ný.