Guðmundur Karl Erlingsson fæddist 17. október 1954. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 20. maí 2012.

Úför Guðmundar fór fram frá Seltjarnarneskirkju 30. maí 2012.

Í minningu Rebba.

„Flýt þér, vinur, í fegri heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.“

(Jónas Hallgrímsson)

Í Menntaskólanum á Akureyri voru mér samtíða margir gjörvulegir ungir menn. Einn þeirra var Guðmundur Karl, kallaður Rebbi. Það er nú þannig að sumir ná að snerta hjartað meira en aðrir og Rebbi kom við hjartað í mér sem skólabróðir og góður félagi. Það var auðvelt að þykja vænt um Rebba. Hann birtist mér sem gleðigjafi, hlýr, glaður, skemmtilegur, kankvís, uppátækjasamur, forvitinn, stríðinn og spurull en einnig viðkvæmur, dulur og alvarlegur, hann studdi og lét sig varða. Hann kunni að slá stúlkum gullhamra og gleðja með fallegum orðum og hann hafði sérstakan glampa í augunum.

Eftir að menntaskólaárunum lauk rakst ég ekki oft á Rebba en stundum á förnum vegi, í flugvélum og á afmælishátíðum í MA. Alltaf var gaman að hitta hann. Það var svo fyrir sex árum þar sem ég var á gangi í Lækjargötu að maður kallaði til mín: „Ég þekki þig“. Ég leit um öxl og svaraði: „Nei, við þekkjumst örugglega ekki“. Maðurinn hvarf inn í verslun og ég hélt áfram. Allt í einu laust niður í huga mér, þetta var Rebbi. Ég hafði ekki þekkt minn gamla skólabróður, svo mjög hafði hann breyst í útliti. Ég hljóp til baka, fann hann, bað hann afsökunar á mistökum mínum og það urðu fagnaðarfundir. Margt hafði breyst í lífi Rebba, aðstæður voru erfiðar, lífið var honum oft grimmt og hafði sett sín spor á manninn. En hlýjan og væntumþykjan var hin sama, hann átti enn fallegu orðin sem glöddu og glampinn í augunum var þar. Síðustu árin tókum við stundum tal saman á rölti okkar um miðbæ Reykjavíkur og einstöku sinnum hringdi Rebbi og alltaf sagði hann eitthvað fallegt.

Og enn þykir mér svo vænt um hann Rebba. Ég hugsa til hans og minnist hans með gleði og þakklæti í hjarta og bið að allt hið góða og fagra umvefji hann, alltaf.

Móður, sonum, fyrrum eiginkonu og öllum þeim sem þótti vænt um hann, votta ég samúð.

Elsa Friðrika

Eðvarðsdóttir.