Árni Johnsen
Árni Johnsen
Eftir Árna Johnsen: "Til þess að „bjarga efnahag Íslands“, eins og ráðherrann orðaði það, var tekin ákvörðun um að kasta réttindum sjómanna einna langt út í hafsauga."

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra með meiru sýndi sjómönnum Íslands ótrúlega lítilsvirðingu og dónaskap í sjómannadagsræðu sinni í Ríkisútvarpinu á sjómannadaginn um síðustu helgi. Hroki hans og geðþóttajafnræði er mikið áhyggjuefni.

Steingrímur sagði í sjómannadagsræðunni að sér hefði ekki þótt skemmtilegt að taka ákvörðun um að afnema sjómannaafsláttinn, en hann hefði gert það til þess að bjarga efnahag Íslands. Það var ekkert annað. Bjarga efnahag Íslands.

Um sex milljarðar á nótum skattfríðinda lágu undir árið sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J., vinstristjórnin, tók ákvörðun um að afnema fríðindi sjómanna í svokölluðum sjómannaafslætti, sem upprunalega kom til vegna samninga sjómanna, útvegsmanna og ríkisstjórnar Íslands, en hefur áratugum saman verið metinn sem umbun vegna vinnu fjarri heimili eins og tíðkast í skattfríðindum allra stétta í landinu í formi dagpeninga og annarra skattalegra fríðinda.

Árið sem vinstristjórnin ákvað að afnema þessi fríðindi sjómanna vegna vinnu fjarri heimili var ætlað að skattaleg fríðindi af sömu ástæðum og fyrr gætu hafa verið um sex milljarðar króna. Þar af var sjómannaafsláturinn metinn á um 1.200 milljónir króna, eða um 20% af heildarfríðindum allra stétta landsins í þessum efnum.

Til þess að „bjarga efnahag Íslands“, eins og ráðherrann orðaði það, var tekin ákvörðun um að kasta réttindum sjómanna einna langt út í hafsauga en verja réttindi allra landkrabba á Íslandi og þar spila opinberir embættismenn höfuðhlutverkið.

Hvers vegna tóku Steingrímur og Jóhanna og þeirra lið ekki fríðindin af öðrum en sjómönnum til þess að bjarga efnahags landsins enn betur, 4.800 milljónir auk 1.200 milljónanna af sjómönnum?

Nú eru sjómenn eina stéttin á landinu sem nýtur ekki skattalegra fríðinda vegna vinnu fjarri heimili sínu, en hver á í rauninni skilið að fá fríðindi í þessum efnum ef ekki sjómenn? Þó ekki væri nema fyrir þetta eitt má núverandi ríkisstjórn skammast sín.

Á fjölmennum fundi sjómanna Brims og annarra starfsmanna og gesta um stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum í húsi Brims á Miðbakka í Reykjavík þriðjudaginn 5. júní sl. hafði Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra á orði að einhvern tíma í framtíðinni væri hugsanlegt að sjómenn fengju skattaleg fríðindi vegna vinnu sinnar.

Hvað er eiginlega að Steingrími J. Sigfússyni? Hvers eiga sjómenn að gjalda?

Undirritaður hefur lagt fram á Alþingi frumvarp ásamt nokkrum þingmönnum um lögbindingu skattfríðinda sjómanna í anda laga um fríðindi annarra stétta í landinu.

Þessi lög miðast við samskonar lög og gilda í Noregi og Færeyjum og miðast í stuttu máli við það að hafi sjómaður meira en helming tekna sinna af sjósókn fái hann 15% af þeim hlut sem skattfríðindi. Þetta þýðir að gamla hámarkið í sjómannaafslættinum hækkar miðað við almennu regluna úr 460 þús. kr. á ári í 1.460 þús. kr. á ári

Ef einhverjum dettur í hug að hundsa sjómenn og rétt þeirra þá erum við aðeins að búa til farveg sem leiðir til þess að íslenskir sjómenn vilja fremur vinna í Noregi og Færeyjum en á Íslandi.

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra væri maður að meiri af hann bæði sjómenn afsökunar á ummælum sínum og þekkingarleysi á heildarfríðindum í þessum efnum.

Hitt er klárt að við sem vinnum að hagsmunum sjómanna og landsmanna allra og jafnræði í okkar landi munum tryggja þessi fríðindi sjómanna þegar sá óskapnaður sem nú stýrir landinu hrekst frá völdum.

Við eigum ekki að bjóða sjómönnum okkar lakari kjör en gerist í nágrannalöndum okkar sem hafa um margt sama fiskveiðimunstur og við. Þá værum við að bjóða mannréttindi íslenskra sjómanna á útsölu.

Höfundur er alþingismaður.