Stella (Sigríður Erna) Sigurðardóttir frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum fæddist 31. maí 1921. Hún lést 10. febrúar 2012. Hún var dóttir hjónanna Ágústu Þorgerðar Högnadóttur, f. á Nesi í Norðfirði 17. ágúst 1900, d. 8. október 1948, og Sigurðar Oddgeirssonar, f. 24. apríl 1892, d. 1. júní 1963.

Eiginmaður Stellu var John Ernest Brown og dóttir þeirra er Edda Rigby. Systkin Stellu eru Anna Sigurðardóttir, f. 1922, Sigurður Sigurðsson, f. 1928, Svanhildur Sigurðardóttir, f. 1929, Helga Sigurðardóttir, f. 1932, d. 1936, og Hilmir Sigurðsson, f. 1939.

Bálför Stellu var gerð í heimabæ hennar, Shrewsbury á Englandi. Ösku hennar var komið fyrir í kirkjugarði Vestmannaeyja í legstað Högna Sigurðssonar, afa hennar, 31. maí sl.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast frænku minnar, sem lést á sjúkrahúsi í Bretlandi 3. febrúar 2012. Hún var kölluð Stella Sigurðar Brown. Hún var gift breskum manni og bjó í Bretlandi svo til öll sín starfsár. Eina dóttur eignuðust þau og svo skemmtilega vildi til að hún fæddist hinn 17. júní 1944 og var skírð Edda Brown. Foreldrar Stellu voru Ágústa Þorgerður Högnadóttir frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum og Sigurður Oddgeirsson, prests á Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Frá barnæsku átti hún sitt draumaland en það voru einmitt Vestmannaeyjar, sem hún elskaði og dáði og dýrasta djásnið var sjálfur Heimaklettur með sitt 283 m standberg á norðurhlið. Stella og Anna systir hennar, sem var ári yngri, voru mjög samrýndar og nutu þess í ríkum mæli, að komast til afa síns í Vatnsdal í Vestmannaeyjum. Þær ólust upp í Reykjavík ásamt fjórum yngri systkinum. Það er rétt að geta þess hér að yngsta systirin dó ung í Reykjavík og kom aldrei til Eyja. Hún hét Helga. Þau systkinin voru alla tíð aufúsirgestir í Vatnsdal og mikil tilhlökkun á hverju vori, að fá þau í heimsókn. Ekki var tilhlökkunin hjá systkinunum minni. Afi átti nefnilega svo margt skemmtilegt svo sem gamlan Ford VE 4 og hestana Jarp, Skjóna og Grána og kýr, kindur, hænsni og endur. Allt þetta heillaði Reykjavíkurbörnin og sveitastörfin áttu vel við þau. Þó var mest gaman að leika sér í þurrheyinu og fá að velta böggunum inn í hlöðu. Það má hiklaust segja um þær systur, að um leið og skólahurðinni var skellt í lás um miðjan maí voru þær ferðbúnar. En það var ekki nóg því engar fastar skipsferðir voru á þessum tíma til Eyja. Það þurfti oft að bíða lengi eftir skipsferð. Reyndar voru Esjan og Súðin á hringferð um landið og öðru hvoru kom norska skipið Lýra og danska skipið Dronning Alexandrine. Þegar systurnar stálpuðust fóru þær að taka yngri systkinin með sér. Það voru þau Siggi, Svana og Hilmir, sem var talsvert yngri. Stella var ráðskonan og fórst henni það vel úr hendi. Hún var eins og góð móðir með börnin sín. Það var hrein unun að heyra og sjá hvernig hún hugsaði um og talaði við systkini sín. Svona gekk þetta sumar eftir sumar og allir voru kátir, glaðir og jákvæðir. Svo fluttist Stella til Englands og allir sáu eftir henni en hún bætti það upp með yndislegu bréfunum sínum og tíðum heimsóknum. Nú að lokum vil ég þakka Stellu hennar stóra þátt í að gera æskusumrin í Vatnsdal að svo góðu veganesti út í lífið. Eftirmæli um góða frænku

Brostinn hinn bjartasti strengur,

með bergmálið mjúka og þýða.

Hljómur þess heyrist ei lengur,

í hjörtum þó geymist hann víða.

Minning um konu og móður,

mildi og ástina mestu.

Vorblærinn ber hennar hróður,

brosin og handtökin bestu.

Hilmir Högnason.

Hinn 31. maí var Stella lögð til hinstu hvíldar á Heimaey, staðnum sem var henni svo kær.

Hinsta kveðja.

Ég kveð þig kæra vina

ég kveð þig Stella mín

í faðmi drottins sefur

blíðust sálin þín.

Á vængjum morgunroðans

um röðulglitrað haf

fer sála þín

á guðs vors helga stað.

Þar er engin þjáning

né kvöl

né sorgartár.

Aðeins ró og friður

í hverri mannsins sál.

Þér þakka samveruna

og minninguna um þig.

Nú bið ég góðan guð

að geyma þig.

(K.H.K.)

F.h. barna Sigurðar Högnasonar, Hauks Högnasonar, Esterar Högnadóttur og ástvina þeirra,

Hulda Sigurðardóttir.

Hún er komin. Já, það var mikið fjör þegar Stella frænka kom í heimsókn til okkar. Stella var föðursystir mín og bjó stærstan hluta ævi sinnar í Bretlandi.

„Gaman að sjá ykkur krakkar, hvað þið hafið stækkað og eruð flott.“ Það var eins og jólin væru gengin í garð þegar hún birtist með sinn ferska blæ og jákvæðni. Þetta er bara brot af minningum mínum um hana Stellu sem elskaði landið sitt Ísland heitt og Vestmannaeyjar áttu hjarta hennar alla tíð.

Stella var ein af dætrum Vatnsdals og sem hluti af þeirri fjölskyldu kveð ég þig Stella með virðingu og þökk fyrir allt sem þú varst okkur í gegnum tíðina.

Ég vil votta pabba mínum og systkinum hans, Eddu dóttur Stellu og dóttursyni, Andra, samúð.

Stella var alkomin heim þegar systkini hennar komu með jarðneskar leifar hennar og lögðu til hinstu hvílu í kirkjugarðinum í Vestmannaeyjum 31. maí sl. Þar mun hún hvíla á eyjunni sinni kæru sem hún elskaði út fyrir endimörk veraldar.

Megi góður Guð blessa minningu minnar kæru frænku.

Þinn bróðursonur,

Gylfi Sigurðsson.