Talið frá öftustu röð frá vinstri: Helgi og Sigurður Jónssynir, Ingimar Rafn og Halldór Rafn Ágústssynir, Ester Eik og Hafdís Þöll Berglindardætur, Birta Ósk og Bjarki Óskarsbörn og Daníel og Birgitta Björt Rúnarsbörn.
Talið frá öftustu röð frá vinstri: Helgi og Sigurður Jónssynir, Ingimar Rafn og Halldór Rafn Ágústssynir, Ester Eik og Hafdís Þöll Berglindardætur, Birta Ósk og Bjarki Óskarsbörn og Daníel og Birgitta Björt Rúnarsbörn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Það hringdi einhver tölfræðingur og líkurnar á þessu eru víst stjarnfræðilega litlar, sérstaklega í svona litlum skóla,“ segir Jón H. Sigurmundsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Það hringdi einhver tölfræðingur og líkurnar á þessu eru víst stjarnfræðilega litlar, sérstaklega í svona litlum skóla,“ segir Jón H. Sigurmundsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn. Skólaslit voru í fimmtugasta skiptið nú á dögunum og vakti það sérstaka athygli að við þau voru stödd fimm tvíburapör. Það vill svo skemmtilega til að tvö tvíburaparanna sátu sama bekkinn í vetur og ekki nóg með það heldur deila þau sama afmælisdegi.

Morgunblaðið ræddi einnig við Halldór Sigurðsson skólastjóra: „Það eru tvennir tvíburar í sama bekknum með sama afmælisdaginn, 1. júní, og því nýorðin þrettán ára. Það er náttúrlega alveg frábært,“ segir Halldór.

Jón svarar því aðspurður að tilviljun ein þurfi ekki endilega að ráða öllu um tildrög málsins. „Á árum áður sá maður að afmælisdagarnir voru gjarnan tengdir vertíðunum, svona þegar þetta var alvöru hörkuvertíð. Þá gat maður talið frá vertíðarlokum. Eins tók ég eftir því að verslunarmannahelgin hefur oft gefið af sér,“ segir Jón glettinn.

Þakkar vatninu

Spurðir út í það hvort tilhugalíf í Þorlákshöfn sé með öðru sniði en gengur og gerist, og því sé sá fjöldi tvíbura sem raun ber vitni, svara þeir starfsbræður ólíkt. „Sem betur fer þá veit ég ekkert sérstaklega mikið um tilhugalífið hér í Þorlákshöfn, ekki svona almennt,“ segir Jón og hlær. Halldór virðist hins vegar harðákveðinn í því að skýringuna megi finna í vatni þeirra bæjarbúa enda sé um besta vatn í heimi að ræða.

Morgunblaðið heyrði í sérfræðingi í líkindum, Þorsteini Arnalds, og hafði hann sitthvað um málið að segja. Hann segir það frekar snúast um að meira sé tekið eftir því þegar eitthvað öðruvísi eigi sér stað heldur en að um merka tilviljun sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum fæðast tvíburar í um það bil eitt skipti af hverjum hundrað.

„Þannig að í raun og veru ættu að vera sirka fimm börn í 230 manna skóla sem væru tvíburar. Í þessu tilfelli eru það tíu einstaklingar, þannig að það er svona tvöfalt það sem telst venjulegt.“ Þorsteinn segir málið samt langt frá því að vera einstakt.

„Þetta er ekkert eitthvað sem gerist á hundrað eða þúsund ára fresti. Þetta er frekar eitthvað sem gerist á tveggja til tíu ára fresti. Það má samt ekki rugla því saman að þó svo þetta sé ekki líkindafræðilega stór atburður þá er þetta stór atburður fyrir fólkið í þessum skóla. Alveg eins og það er ekki stór atburður að einhver vinni í lottói þó að það sé stór atburður fyrir þann sem vann.“

Tvíburafæðingar aukast eftir því sem móðirin er eldri

Tvíburar ganga í erfðir

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að tvíeggja tvíburar gangi að einhverju leyti í erfðir en það eigi ekki við um eineggja tvíbura. Þar segir að líkur á fæðingu tvíeggja tvíbura varði aðeins gen móðurinnar. Aldur konunnar hefur talsvert að segja en kona sem er 37 ára er fjórum sinnum líklegri til að eignast tvíeggja tvíbura en stúlka á 18. aldursári. Tvíburafæðingar eru einnig breytilegar eftir kynþáttum en kona frá Vestur-Afríku er tíu sinnum líklegri til að eignast tvíeggja tvíbura en kona frá Kína eða Japan. Konur af evrópskum uppruna eru þarna mitt á milli.